Mat á umhverfisáhrifum

Fimmtudaginn 12. október 1995, kl. 15:34:00 (273)

1995-10-12 15:34:00# 120. lþ. 9.3 fundur 58. mál: #A mat á umhverfisáhrifum# (markmið laganna o.fl.) frv., Flm. TIO
[prenta uppsett í dálka]

Flm. (Tómas Ingi Olrich):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. umhvrh. fyrir hans undirtektir við þetta mál. Ég geri mér fulla grein fyrir því að þetta er nokkuð flókið mál og vandmeðfarið. Hins vegar vil ég undirstrika það af því að hæstv. ráðherra vitnaði í greinargerð nefndarinnar, nefndarálit með mjög viðamiklum brtt. umhvn. á sínum tíma, þá er það augljóst mál að þegar nefndin komst að þeirri diplómatísku niðurstöðu, ef ég má orða það svo, að hún liti svo á að í vissum tilvikum gæti verið ástæða til að grípa til mats á umhverfisáhrifum eða til hliðstæðs undirbúnings, þá speglar þetta að sjálfsögðu ágreining innan nefndarinnar um þetta atriði. Sumir nefndarmenn vildu að þessar framkvæmdir færu alltaf í mat á umhverfisáhrifum. Aðrir töldu að það væri útilokað og það náðist samkomulag um þetta orðalag. En hitt er hins vegar alveg ljóst að það varð niðurstaða í nefndinni um það að landgræðsluverkefni færu ekki inn á lista yfir framkvæmdir sem alltaf skyldu háðar umhverfismati.

Ég vil aðeins segja það hér að þegar hæstv. ráðherra lýsir því yfir að það sé ekki óeðlilegt að eftirlitsaðili taki afstöðu til þess hvort verkefni af ákveðinni stærðargráðu á sviði landgræðslu falli innan ramma laganna um mat á umhverfisáhrifum, þá skiptir miklu máli hvort sá eftirlitsaðili er lögbundinn eftirlitsaðili samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum eða hvort það er einhver annar eftirlitsaðili. Sannleikurinn er sá að ef maður les nákvæmlega yfir lagabálkinn um mat á umhverfisáhrifum, þá er mjög erfitt að sjá að það sé hægt að beita þeim lögum á landgræðsluverkefni. Fyrir það fyrsta, hvernig á Skipulag ríkisins með sínum reglum ellegar í sambandi við reglugerð sem ráðherra gefur út eða samkvæmt viðmiðunarreglum, sem Skipulag ríkisins kemur sér upp sjálft, hvernig á það að leggja mat á það hvort upphaflegt gróðurlendi er meira virði heldur en áform um uppgræðslu? Og svo að ég gangi lengra þá kom til tals á vissum stöðum þegar talað var um friðun Breiðafjarðar að krefjast þess að það mál færi í mat á umhverfisáhrifum. Og þá spyr maður líka: Hvernig getur Skipulag ríkisins sett sér viðmiðunarreglur sem eiga að gera því kleift að segja hvort það gróðurlendi sem nú er á Breiðafirði sé rétthærra heldur en eitthvert hugsanlegt ástand gróðurs eftir 20 ára friðun? Hvernig á að vera hægt að leggja mat á slíka hluti? Það hlýtur að vera mjög erfitt. Og ef maður les í þaula textann í lögunum um mat á umhverfisáhrifum, þá gerir maður sér fyllilega grein fyrir því að mat af þessu tagi yrði afar erfitt því að þarna stangast á í raun og veru sjónarmið sem á vissan máta má segja að eigi að fjalla um hér. Og ef það er ágreiningur um hvort það eigi að taka heilu landsvæðin undir í landgræðslu, þá er eðlilegra að slík meiri háttar áform komi til afgreiðslu og umræðu hér, t.d. í formi þáltill., og hér verði sá eðlilegi umræðuvettvangur um mál af þessu tagi sem pólitísk umræða er almennt.

En ég ætla ekki að orðlengja þetta frekar. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir hans undirtektir. Mér finnst þær mjög eðlilegar, mjög fagmannlegar og ég vil vona að í hv. umhvn. Alþingis verði málefnalegar umræður um þetta því að þetta er vandamál sem ég hygg að væri æskilegt að við reyndum að komast að samkomulagi um, ef það yrði þá til þess að málefni af þessu tagi færu í eðlilegri farveg heldur en mér sýnist að stefni í samkvæmt gildandi lögum.