Birting upplýsinga um kjaramál

Mánudaginn 16. október 1995, kl. 15:06:34 (279)

1995-10-16 15:06:34# 120. lþ. 10.1 fundur 34#B birting upplýsinga um kjaramál# (óundirbúin fsp.), JBH
[prenta uppsett í dálka]

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Fyrir utan að gleðja hæstv. félmrh. með nærveru minni vil ég beina fyrirspurn til hæstv. fjmrh. varðandi birtingu upplýsinga um kjaramál. Fyrirspurnirnar eru tvær.

Í fyrsta lagi: Er hæstv. fjmrh. reiðubúinn að birta upplýsingar um laun æðstu embættismanna ríkisins, þ.e. birta hinn svonefnda leynilista sem upplýst hefur verið að m.a. hafi verið afhentur Kjaradómi og er ein af forsendum Kjaradóms?

Í annan stað: Er hæstv. fjmrh. reiðubúinn til að gera vandaða og tölulega grein fyrir þeim kjarasamningum sem gerðir hafa verið undir forustu hæstv. fjmrh. að undanförnu eftir hina almennu kjarasamninga í febrúar?

Ég tek skýrt fram að hvorug spurningin snýst um einstaklinga. Það er ekki verið að fara fram á birtingu upplýsinga um kaup einstakra einstaklinga heldur að sjálfsögðu almennar upplýsingar um hæstu laun á tekjubilum. Rökstuðningurinn fyrir þessu er mjög einfaldur. Hæstv. forsrh. hefur farið þess formlega á leit við forsvarsmenn Kjaradóms að forsendur hans verði birtar. Í framhaldi af því hefur hæstv. félmrh. tekið undir að birta eigi þessar upplýsingar sem ég er að spyrja um.

Í þriðja lagi þá er það svo að menn eiga nú þegar mikil umræða fer fram um kjaramál ekki að stunda þau samanburðarfræði út frá röngum og villandi upplýsingum, það á að mínu mati að leggja spilin á borðið. Það getur ekki orðið til ills, það getur aðeins orðið til upplýsinga vegna þess að þá er um þetta fjallað á grundvelli staðreynda. Þess vegna olli það mér vonbrigðum þegar fullyrðing eins og sú er höfð á eftir hæstv. fjmrh. að þessi listi verði alls ekki birtur. Ég tek fram að ekki er beðið um upplýsingar um einstaklinga heldur almennar upplýsingar sem varða vitræna, rökþétta umræðu um kjaramál í landinu.