Birting upplýsinga um kjaramál

Mánudaginn 16. október 1995, kl. 15:11:06 (281)

1995-10-16 15:11:06# 120. lþ. 10.1 fundur 34#B birting upplýsinga um kjaramál# (óundirbúin fsp.), JBH
[prenta uppsett í dálka]

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Ég tek skýrt fram að ekki er beðið um umræddar upplýsingar af neinni kerskni eða óeðlilegri forvitni heldur einfaldlega vegna þess að það er mikið í húfi. Forustumenn verkalýðshreyfingarinnar hafa haft uppi fullyrðingar um að kjarastefnan, sem mynduð var í samstarfi aðila vinnumarkaðarins og síðustu ríkisstjórnar, hafi verið brotin á bak aftur. Hvort það er rétt fullyrðing eða ekki fæst ekki útkljáð nema með því að birtar séu hlutlægar, sannar og tæmandi upplýsingar um það mál. Það nægir ekki að vísa til almennrar greinargerðar í fjárlagafrv. Það duga ekki heldur svör fjmrh. um að hann kannist ekki við neinn leynilista. Það sem verið er að biðja um er þetta:

Er fjmrh. reiðubúinn til að birta upplýsingar um raunverulegar tekjur, greiddar af launaskrifstofu ríkisins til hæstu hópa embættismanna ríkisins? Er fjmrh. reiðubúinn að gera grein fyrir lið fyrir lið hverjum einstökum kjarasamningi til þeirra hópa sem verið er að tala um að hafi sprengt þennan launaramma? Er það rétt eða ekki? Hin versta niðurstaða í því máli er að láta mönnum eftir getsakir og láta menn ræða þetta í tómarúmi og á grundvelli misskilnings.