Forsendur Kjaradóms og laun embættismanna

Mánudaginn 16. október 1995, kl. 15:18:24 (286)

1995-10-16 15:18:24# 120. lþ. 10.1 fundur 35#B forsendur Kjaradóms og laun embættismanna# (óundirbúin fsp.), forsrh.
[prenta uppsett í dálka]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Það er heldur ekkert vandamál fyrir mig að forsrh. tróni ekki efstur á þessum lista. Hins vegar hygg ég að það sé almennt í umræðunni að mönnum þyki ekkert óeðlilegt að þeir sem mesta ábyrgð bera hjá ríkisvaldinu beri jafnframt hæstu launin. Ég hygg að menn telji það ekkert óeðlilegt. Ég held að það sé einmitt misskilningur í gangi víða í þjóðfélaginu, bæði varðandi laun ráðherra sem menn halda kannski að séu hærri en þau eru innan ríkiskerfisins og laun þingmanna. Ég heyri iðulega m.a. góða og vandaða fréttamenn segja við mig: ,,Svo hafa þingmenn náttúrlega laun fyrir öll sín nefndarstörf.`` Ég hef heyrt vandaða fréttamenn segja þetta. Ég hef leiðrétt þetta en ég hef ekki séð það í fréttum. Það ganga sem sagt ýmsar sögur um launakjör þessara manna sem þurfa að vera ljós. Ég vil að launakjör ráðherra og þingmanna séu algerlega ljós, klár og skýr og ég vil ekki að það sé neinn misskilningur í gangi varðandi þau laun.