Gilsfjarðarbrú

Mánudaginn 16. október 1995, kl. 15:30:52 (297)

1995-10-16 15:30:52# 120. lþ. 10.1 fundur 38#B Gilsfjarðarbrú# (óundirbúin fsp.), samgrh.
[prenta uppsett í dálka]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Það er algengt um vegaframkvæmdir að menn hyggja fyrst og fremst að verklokum en það er ekkert launungarmál að á þessu ári fór snjómokstur mjög fram úr áætlun. Það hefur verið talað um ríflega 400 millj. kr. svo að það er auðvitað ekki nema eðlilegt að reynt sé að haga framkvæmdum þannig að eitthvað fáist upp í þá umframeyðslu af því fé sem er til ráðstöfunar á þessu ári. Ég er sannfærður um að Vestfirðingar skilja það vel, bæði í Reykhólahreppi og annars staðar því að það reyndi m.a. mjög mikið á það í þeim hreppi að nægileg tæki og nægilegt fjármagn væri til staðar vegna snjómoksturs og ég tala nú ekki um annars staðar í Vestfirðingafjórðungi þannig að hér er haldið algerlega eðlilega á málum. En eins og ég sagði áðan, það er verið að reyna að gera þetta mál tortryggilegt með óvenjulegum hætti og ég hef ekki orðið var við það að menn séu annars staðar á landinu uppi með málflutning af því tagi sem hv. þm. var með hér áðan.