Gilsfjarðarbrú

Mánudaginn 16. október 1995, kl. 15:32:59 (299)

1995-10-16 15:32:59# 120. lþ. 10.1 fundur 38#B Gilsfjarðarbrú# (óundirbúin fsp.), samgrh.
[prenta uppsett í dálka]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Þessum hv. þm. og öðrum þingmönnum er vel kunnugt að það er mjög algengt að fé sé fært til inn á vegáætlun til þess að flýta verklokum ef þannig stendur á og þar fram eftir götunum. Það er einmitt gert ráð fyrr því í sambandi við Gilsfjarðarbrúna að taka hana í notkun haustið 1997 og hnika til fjárveitingum til vegamála til þess að það megi takast því að verulegt fjármagn fer til þessarar framkvæmdar á árinu 1998 sem sá hv. þm. sem hér talaði núna stóð að að yrði gerð. Ég hygg að ég geti líka fullyrt að hann hafi ekki viljað fara hraðar en aðrir þingmenn í kjördæmi hans í því að leggja til hliðar kjördæmisfé til framkvæmdarinnar.