Lög um félagslega aðstoð

Mánudaginn 16. október 1995, kl. 15:35:00 (301)

1995-10-16 15:35:00# 120. lþ. 11.91 fundur 42#B lög um félagslega aðstoð# (aths. um störf þingsins), ÁRJ (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Mig langar til að vekja athygli á lagasetningu sem fór fram á þingi 1993 um jólaleytið þegar almannatryggingalögum, nr. 67/1971, var skipt upp í tvenn lög, lög um almannatryggingar og lög um félagslega aðstoð samfara gildistöku EES-samningsins. Þá var grein um endurhæfingarlífeyri færð úr almannatryggingalögunum yfir í lög um félagslega aðstoð. Í greinargerð með frv. kom fram að sú grein sem færð var yfir í félagslegu aðstoðina væri samhljóða grein úr lögum um almannatryggingar og ætti ekki að hafa neinar breytingar í för með sér. Þannig fór þessi lagabreyting gegnum þingið og var samþykkt. Síðan kom í ljós þegar þessi grein var komin yfir í lög um félagslega aðstoð að hún var ekki óbreytt heldur hafði fallið út hluti af setningu sem gerir það að verkum að lífeyrisþegar, sem eru á endurhæfingarlífeyri að ná sér eftir slys og sjúkdóma og reyna að ná sinni starfsorku aftur, missa tengdar bætur, fá aðeins tekjutryggingu og grunnlífeyri, samtals 37 þús. kr. óháð því hvort þeir eru með fjölskyldu eða börn á framfæri.

Þetta ákvæði í lögum um félagslega aðstoð kom nú til framkvæmda 1. okt. þannig að þeir sem eru í þeirri stöðu að vera að ná starfsorku sinni aftur fá engar aðrar bætur frá tryggingunum heldur en þessar 37 þús. kr. Ég tel að þarna hafi orðið mistök í afgreiðslu þingsins og hef því lagt fram lagafrv. sem er búið að dreifa hér á borðin um að greinin verði færð aftur til fyrra horfs eins og hún var í almannatryggingalögunum nr. 67/1971. Eins og kom fram í máli hæstv. forseta þá á að leita afbrigða á næsta fundi við að taka tvö mál fyrir á dagskrá. Þar sem ég tel þetta mál ekki síður mikilvægt en þau mál sem á að fara að taka fyrir með afbrigðum í þinginu fer ég fram á að þetta mál, sem varðar þá sem minnst mega sín í samfélaginu og hafa þegar orðið fyrir verulegri kjaraskerðingu og eiga að lifa á tekjum undir hungurmörkum, verði tekið fyrir og það verði leitað afbrigða til að fá þessi mistök leiðrétt.