Þingfararkaup og þingfararkostnaður

Mánudaginn 16. október 1995, kl. 15:53:44 (307)

1995-10-16 15:53:44# 120. lþ. 12.1 fundur 84. mál: #A þingfararkaup og þingfararkostnaður# (skattskylda starfskostnaðar) frv., RA
[prenta uppsett í dálka]

Flm. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 88/1995, um þingfararkaup og þingfararkostnað. Að flutningi þessa frv. standa forsn., þ.e. hæstv. forseti og varaforsetar, og formenn þingflokka annarra en þingflokks Þjóðvaka sem stóð ekki að flutningi frv. um þingfararkaup og þingfararkostnað á vorþinginu.

Aðdragandi þessa máls hefur ekki farið leynt, hvorki utan þings eða innan. Ég vil þó taka sérstaklega fram að þetta þingmál fjallar einungis um skattalega meðferð almenns starfskostnaðar alþingismanna en ekki um launamál þingmanna og enn síður um kjaramál almennt, úrskurði Kjaradóms eða efni kjarasamninga á því ári sem er að líða. Ég vænti þess að önnur tækifæri gefist í þinginu til umræðna um þær hliðar þessara mála.

Með frumvarpi þessu er gerð tillaga um þá breytingu á lögum um þingfararkaup og þingfararkostnað að ákvæði 16. gr. laganna um skattalega meðferð þingfararkostnaðar er ekki látið ná til 9. gr., þ.e. fastrar greiðslu starfskostnaðar.

Í 2. mgr. 9. gr. laganna segir að endurgreiða skuli alþingismönnum annan starfskostnað en þann sem tilgreindur er sérstaklega í lögunum samkvæmt reglum sem forsætisnefnd setur en jafnframt sé heimilt að greiða þennan kostnað sem fasta fjárhæð í stað endurgreiðslu samkvæmt reikningum.

Í reglum, sem forsætisnefnd setti 28. ágúst sl., var ákveðið að nýta þessa heimild laganna til að greiða alþingismönnum fasta fjárhæð, 40 þús. kr. á mánuði. Sú ákvörðun var tekin með hliðsjón af því hversu sjálfstætt alþingismenn starfa. Það þótti heppilegt að þeim gæfist kostur á að fá greidda fasta fjárhæð mánaðarlega sem væri áætluð tala og gengi til greiðslu starfskostnaðar án beinna afskipta skrifstofu Alþingis. Þetta fyrirkomulag greiðslna og skattaleg meðferð þeirra hefur tíðkast hjá þjóðþingum víða um heim. En fyrirkomulagið og einkum skattalega meðferðin vakti tortryggni og hefur því verið ákveðið að flytja frv. þar sem gert er ráð fyrir að ákvæði 16. gr. um skattalega meðferð þingfararkostnaðar, þ.e. hins almenna starfskostnaðar, nái ekki til þessara greiðslna.

Í lögunum, sem sett voru sl. vor, var það nýmæli að þar er í fyrsta sinn staðfest í 9. gr. að endurgreiða beri alþingismönnum ýmsan kostnað sem óhjákvæmilega fellur til í tengslum við störf þeirra. Hér er um að ræða kostnað við fundahöld, ráðstefnur, námskeið, bóka- og tímaritakaup og fleiri útgjöld sem fylgja starfi þingmanna. Áður en hin nýju lög um þingfararkaup og þingfararkostnað voru sett þótti ekki nægilega skýrt að hvaða marki bæri að endurgreiða kostnað sem ég nefndi nú.

Þeir sem að frumvarpinu stóðu töldu eðlilegt að undanskilja greiðslu þessa skattskyldu þar sem starfskostnaðurinn, eins og hann er skilgreindur í lögunum, væri almennt frádráttarbær hjá vinnuveitanda og því ekki framtalsskyldur hjá þeim sem stofnaði til kostnaðarins. Hins vegar var talið að skýrar heimildir skorti til að draga kostnaðinn frá við álagningu tekjuskatts ef hann væri greiddur viðkomandi beint þar sem alþingismenn teljast ekki einyrkjar eða verktakar í skilningi skattalaga þótt segja megi að starf þeirra sé á margan hátt ekki ósvipað þeim sem þá stöðu hafa. Þannig væri ekki verið að skapa alþingismönnum rétt umfram aðra með hinni skattfrjálsu greiðslu starfskostnaðar heldur hefði þessi háttur í för með sér mikið hagræði í framkvæmd.

Til nánari skýringar á þessu skal vitnað til greinargerðar ríkisskattstjóra frá 20. sept. sl. um skattalega meðferð starfskostnaðar en þar er meginreglan í þessum efnum orðuð svo, með leyfi hæstv. forseta:

,,Því má segja að samkvæmt skattalögum gildi sú regla að í þeim tilvikum þar sem það liggur fyrir að greiðsla frá launagreiðanda til launamanns feli ekki í sér endurgjald fyrir vinnuframlag heldur sé um að ræða endurgreiðslu á útlögðum kostnaði í þágu launagreiðanda þá hafi ekki verið talið að um skattskyldar tekjur sé að ræða hjá launamanninum.``

Enn fremur segir í greinargerðinni, með leyfi hæstv. forseta:

,,Þá meginreglu sem að framan er getið þykir mega lesa úr 2. mgr. 30. gr. skattalaganna, auk ákvæða í A-lið 1. mgr. 30. gr. sem fjalla um einstök tilvik. Einnig er hér horft til þess hvað persónufrádrátturinn á að standa fyrir. Í nokkrum tilvikum hefur verið farin sú leið að miða frádráttarheimild við fyrir fram ákveðnar matsreglur og verður að telja að þar ráði miklu hagsmunir skattframkvæmdar, þ.e. mikilvægi skilvirkni í skattframkvæmd. Ákvæði í nýjum lögum um þingfararkaup og þingfararkostnað verður að telja að byggi á svipuðum meiði, þ.e. það eru skilvirknissjónarmið sem ráða því að notast er við staðlaðar frádráttarreglur enda ekki ágreiningur um tilefni greiðslunnar, þ.e. þeim er ætlað að mæta kostnaði sem launþeginn verður fyrir vegna starfs síns.``

Þetta er úr greinargerð ríkisskattstjóra sem hann sendi frá sér 20. sept. sl.

[16:00]

Þrátt fyrir það sem sagt er hér að framan er lagt til með frv. að horfið verði frá sérstakri skattameðferð starfskostnaðar alþingismanna. Eftir breytinguna sem lögð er til í frv. geta alþingismenn valið um það eftir sem áður að framvísa reikningum fyrir starfskostnaði sínum eða fá greidda ákveðna fjárhæð mánaðarlega.

Að lokum þykir mér rétt að minna á að jafnhliða því sem ákvörðun var tekin um þátttöku skrifstofu þingsins í almennum starfskostnaði á sl. vori féllu niður greiðslur til alþingismanna úr kjördæmum utan Reykjavíkur og Reykjaness en þessar greiðslur höfðu um áratuga skeið, ef ekki á að tala um jafnvel enn lengri tíma --- því að þessar greiðslur eru miklu eldri en minni elstu þingmanna --- verið greiddar sem dvalarkostnaður yfir þingtímann og þær voru aldrei skattlagðar samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda enda er það meginregla í íslenskum skattarétti að dagpeningar eru ekki skattlagðir nema þeir fari út fyrir óhæfileg mörk. Þeir verða að vera innan hæfilegra marka og rétt er að minna á að upphæðir, sem þingmenn nutu, voru ávallt langt fyrir neðan þau mörk sem ríkisskattstjóri hafði sett.

Ég tel líka rétt að minna á að ekki er stór munur á þeim fjárhæðum sem áður voru greiddar af þessu tagi og nefndust dvalarkostnaður um þingtímann og svo aftur þeim nýju 40 þús. kr. greiðslum sem nú hafa verið ákveðnar. Það er ekkert launungarmál að með því að skipta á þessum greiðslum, fella niður hinar eldri greiðslur og taka upp nýjar greiðslur í staðinn sem skilgreindar voru á annan hátt, var verið að framkvæma ákveðna jöfnunaraðgerð milli þingmanna úr Reykjavíkur- og Reykjaneskjördæmum og þingmanna úr öðrum kjördæmum. Það var eðli þessara breytinga að jafna.

Því hefur verið fleygt í umræðu um þessi mál að eðlilegra væri að afnema öll ákvæði í lögunum um skattalega meðferð á greiðslu starfskostnaðar en eins og kunnugt er þá er það ákvæði í lögunum að greiðsla þingfararkostnaðar skv. 6. og 7. gr. er framtalsskyld en ekki skattskyld. Af þessu tilefni þykir mér rétt að benda á að skattaleg meðferð á greiðslu húsnæðiskostnaðar og ferðakostnaðar skv. 6. og 7. gr. breyttist alls ekki neitt á sl. vori þegar þessi ákvæði voru sett inn í lögin. Það er ekki víst að allir utan þings geri sér grein fyrir því en auðvitað er það staðreynd málsins að það varð engin efnisleg breyting hvað skattalega meðferð snertir á þessum greiðslum þótt ákvæðin væru sett inn í lögin. En ástæðan til þess að þessi ákvæði voru sett inn í lögin með frv. þingflokksformanna á sl. vori var sú að á sl. áratug gerðist það að þingmenn lentu í því um skeið að skattmeðferð á þessum kostnaði var ekki eins í öllum skattumdæmum hvað varðar sköttun á húsnæðiskostnaði. Í sumum skattumdæmum var þess krafist að þingmenn skiluðu rekstraryfirliti yfir kostnað sinn af rekstri íbúðar í kjördæmi á þingtímanum og kæmi fram munur á þeim kostnaði sem þingmenn gerðu þannig grein fyrir og svo aftur þeim greiðslum sem þeir fengu frá Alþingi var sá munur skattlagður. Þetta gerðist hins vegar einungis í sumum skattumdæmum en í öðrum skattumdæmum voru þessar greiðslur áfram skattfrjálsar.

Mismunandi skattaleg meðferð þessa kostnaðar leiddi síðan til málaferla sem lauk með úrskurði ríkisskattanefndar um miðjan síðasta áratug og úrskurðurinn var einfaldlega á þá leið að allar húsnæðisgreiðslur til alþingismanna ættu að vera skattfrjálsar samkvæmt almennri reglu skattalaga. Með því að tiltaka skattfrelsi þessara greiðslna í lögunum vildu menn koma í veg fyrir að þessi saga endurtæki sig. Ákvæðin um ferðakostnað og húsnæðisgreiðslur og skattalega meðferð þeirra greiðslna eru því látin standa áfram óbreytt til þess að koma í veg fyrir þá óvissu sem af því gæti leitt ef þessi ákvæði væru formlega afnumin með lögum enda er að sjálfsögðu ekkert útilokað ef Alþingi afnæmi þessi ákvæði, tæki þau formlega út úr lögunum, að þá opnaðist sá möguleiki að einstakir skattstjórar kynnu að gagnálykta út frá þeirri staðreynd og það gæti þá aftur valdið á nýjan leik mismunandi skattalegri meðferð þessara greiðslna.

Ég vil að vísu taka það fram að mér dettur ekki í hug að halda að alþingismenn næðu ekki að lokum rétti sínum með nýjum úrskurði ríkisskattanefndar eða ríkisskattstjóra ef þannig færi. En flutningsmönnum þessa frv., forsætisnefnd og formönnum þingflokka, þykir óþarfi að afgreiðsla þessa máls verði til þess að valda nýjum misskilningi um skattalega meðferð þessara greiðslna og því er ekki gerð tillaga um að breyta frv. að þessu leyti.

Herra forseti. Ég legg til að að lokinni umræðunni verði máli þessu vísað til hv. efh.- og viðskn.