Þingfararkaup og þingfararkostnaður

Mánudaginn 16. október 1995, kl. 16:20:21 (309)

1995-10-16 16:20:21# 120. lþ. 12.1 fundur 84. mál: #A þingfararkaup og þingfararkostnaður# (skattskylda starfskostnaðar) frv., GGuðbj
[prenta uppsett í dálka]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Virðulegi forseti. Sem einn flutningsmanna þessa frv. vil ég ítreka eftirfarandi atriði sem varða afstöðu mína og okkar kvennalistakvenna til þessa máls. Eins og ég og fleiri kvennalistakonur bentum á sl. vor við setningu þeirra laga sem nú er verið að breyta, þá fannst mér óeðlilegt, að þingið gæfi höggstað á sér með því að greiða út starfskostnað sem heildargreiðslu án reikninga og að þessi greiðsla væri ekki skattlögð.

Þó að þetta hafi verið hugsað sem kostnaðargreiðsla þá er ljóst að fyrir þá sem bera minnstan kostnað af ráðstefnum eða öðru því sem undir greinina tilheyrir, þ.e. kostnað vegna fundahalda, námskeiða, bóka- og tímaritakaupa og fleira þess háttar, er þetta skattfrjáls launagreiðsla og ekki hægt að líta hana öðrum augum. Því tel ég sjálfsagt og eðlilegt að umrædd greiðsla sé skattskyld og því styðjum við kvennalistakonur þetta frv. Hins vegar er ljóst að hér er verið að viðhalda því kerfi sem einkennir launakerfi ríkisins almennt. Hið svokallaða sporslukerfi sem eykur og viðheldur launamisrétti í samfélaginu og eykur líka hinn alræmda launamun kynjanna.

Því teljum við að það frv. sem hér liggur fyrir sé aðeins ásættanlegt fyrsta skref til að breyta því fyrirkomulagi sem nú tíðkast vegna starfskjara alþingismanna. En ég vil í því sambandi sérstaklega benda á niðurlag greinargerðarinnar sem fylgir með frv. en þar er skýrt tekið fram að sú leiðrétting sem hér er gerð sé eingöngu fyrsta skrefið og það verði að skoða þessi mál í mun stærra samhengi.

Við kvennalistakonur vildum gjarna sjá mun meiri breytingar þar sem eftirfarandi meginsjónarmið yrðu höfð að leiðarljósi.

Í fyrsta lagi að um starfskjör alþingismanna gildi nákvæmlega sömu skattareglur og um aðra og í því ljósi tel ég að 16. gr. laganna um þingfararkaup og þingfararkostnað sé alveg óþörf.

Í öðru lagi þá verði alveg ljóst að aðeins einn aðili fjalli um laun þingmanna og það verði ekki þingmenn sjálfir. Í 9. gr. laganna um þingfararkaup og þingfararkostnað eru mörkin á milli launa og starfskostnaðar óskýr og það er óásættanlegt að bæði Kjaradómur og forsætisnefnd ákvarði um kjör sem túlka má sem laun. Því er þessi lagabreyting nú eingöngu sjálfsagt og eðlilegt fyrsta skref en engin frambúðarlausn. Vonandi er þetta því ekki eina skrefið sem til stendur að taka varðandi þessi mál á þessu þingi.

Í þriðja lagi verður að endurskoða þetta svokallað sporslukerfi kostnaðargreiðslna, ekki bara hjá alþingismönnum heldur í þjóðfélaginu yfirleitt. Öll laun og starfskjör ættu að verða sem sýnilegust þannig að ljóst sé hvað eru laun og hvað kostnaður og raunverulegu laun fólks séu uppi á yfirborðinu og að sjálfsögðu skattskyld. Eingöngu þannig verður hægt að taka á því launamisrétti sem viðgengst í þjóðfélaginu ekki síst þeim launamun kynjanna sem að hefur nú verið kortlagður betur en áður og mjög brýnt er að taka á.

Þær upplýsingar sem við þingmenn höfum nú fengið í sambandi við meðferðina á kostnaðargreiðslum í ríkiskerfinu yfirleitt benda til að að verulegu leyti séu kostnaðargreiðslur skattfrjálsar. Og því verður alls ekki séð hvers vegna Alþingi setur ákvæði um sérstakt skattfrelsi sér til handa þar sem aðrir virðast geta fengið slíkar greiðslur án þess að um það gildi sérstök lög.

Kostnaðargreiðslur í launakerfi ríkisins eru verulegar upphæðir og því sýnist mér að þessi gögn og þessi umræða bendi til að það þurfi allsherjarendurskoðun að fara fram á skattalegri meðferð á kostnaðargreiðslum.

Þær upplýsingar sem liggja frammi um greidd laun hjá hinu opinbera hafa sannfært mig um að það er mjög brýnt mál að launakerfi ríkisins verði stokkað upp í heild sinni eins og við kvennalistakonur höfum lagt til á fyrri þingum og munum vinna frekar að á þessu þingi. Það þarf sem sagt bæði að breyta þeim farvegi sem launa- og starfskjör alþingismanna eru í og að stokka upp launakerfi ríkisins almennt. Feluleiknum verður að linna og hin raunverulega launastefna ríkisins verður að vera öllum ljós. Það hlýtur að vera þeim til hagsbóta sem verstu kjörin hafa og það hlýtur einnig að koma vel fyrir þá sem verða að hafa allt sitt á þurru eins og alþingismenn. Þjóðin vill að alþingismenn séu undir sömu skattalögum og aðrir og það finnst mér mjög eðlileg krafa. Að því ber að vinna og því fagna ég því skrefi sem hér er stigið en betur má ef duga skal.