Þingfararkaup og þingfararkostnaður

Mánudaginn 16. október 1995, kl. 17:39:18 (321)

1995-10-16 17:39:18# 120. lþ. 12.1 fundur 84. mál: #A þingfararkaup og þingfararkostnaður# (skattskylda starfskostnaðar) frv., KÁ
[prenta uppsett í dálka]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Það var svo sannalega kominn tími til að við færum að ræða um þann mikla storm sem leikið hefur um samfélagið vegna niðurstöðu Kjaradóms og vegna þeirrar ákvörðunar forsætisnefndar hvernig farið skyldi með ýmsar þær greinar sem var breytt eða nýjungar sem voru teknar upp á vorþingi.

Mig langar til að byrja á því að rifja það upp að það frv. sem var lagt fram í vor og síðan afgreitt með nokkrum breytingum á sér býsna langan aðdraganda. Það er langt því frá að þessar breytingar hafi orðið til á einhverjum skyndifundum hér undir vorið heldur eru um það bil tvö ár síðan ég sá þetta frv. fyrst og það er búið að margfara í gegnum það með hinum ýmsu þingflokksformönnum, bæði stjórnar og stjórnarandstöðu. Á liðnum vetri var þetta frv. að mestu leyti tilbúið þó að síðan yrðu gerðar á því ýmsar breytingar.

Eins og þetta mál horfir við mér fannst mér ákaflega mikil og brýn þörf á því að það væri tekið á þingfararkaupslögunum enda voru þau orðin mjög úrelt um margt og þau mismunuðu þingmönnum mjög illilega. Við þingmenn Reykjavíkur og Reykjaness fundum ekki síst fyrir því hve kjör þingmanna voru mismunandi. Það er sérstaklega ein greiðsla sem er sjaldan minnst á í þessari umræðu allri en það voru dagpeningar eða dvalarkostnaður landsbyggðarþingmanna sem fengu 1.700 kr. á dag yfir þingtímann til þess að halda sér hér uppi. Sú greiðsla er áratugagömul eftir því sem mér er tjáð og á rætur að rekja til þess tíma þegar karlarnir sem sátu hér á þingi bjuggu á Hótel Borg og keyptu sér þar mat á hverjum degi. En síðan hafa tímarnir breyst og þarna var um að ræða greiðslu sem á engan hátt var hægt að réttlæta.

Síðan var ýmislegt varðandi ferðakostnað og lögheimili þingmanna sem okkur fannst vera orðið til vansa og þurfti að leiðrétta vegna þess að það bauð upp á ákveðinn misskilning og manni fannst það svona jaðra við misnotkun en það var þá allt saman lögum samkvæmt. Þessu var öllu saman breytt og mjög til bóta að mínum dómi en í staðinn var tekin upp ein ný greiðsla, starfskostnaður þingmanna, sem forsætisnefnd úrskurðaði síðan að skyldi nema 40 þús. kr. á mánuði. Ég verð að viðurkenna, hæstv. forseti, þó að ég ætli að styðja þá breytingu sem hér er lögð til að ég er ekki sátt við þessa niðurstöðu. Ég er ekki sátt við að menn skuli í rauninni vera að viðurkenna að þarna sé um laun að ræða vegna þess að þetta er kostnaðargreiðsla. Ég kannast ekki við það hjá fyrirtækjum eða hinu opinbera að fólk þurfi að greiða skatt af þeirri upphæð sem það leggur út fyrir tilteknum kostnaði. Til þess að taka dæmi um það um hvað við erum að tala var boðið upp á á síðustu dögum septembermánaðar og fyrstu 10 dögum þessa mánaðar ýmsa fundi og ráðstefnur og reyndar var boðið upp á eitt mjög spennandi námskeið sem ég hygg að nokkrir þingmenn muni sækja hjá Endurmenntunarstofnun Háskólans. Aðeins á 10 dögum var um kostnað að ræða sem nam 47 þús. kr. Hefðu þingmenn ætlað að sækja þetta allt hefðu þeir fyrir lagabreytinguna þurft að borga þetta allt úr eigin vasa en núna er þó verið að veita þingmönnum ákveðna upphæð til þess að standa undir þessum kostnaði sem hefur farið gífurlega vaxandi. Ef menn fylgjast með þeim fundarboðum og ráðstefnum, sem dynja á manni á hverjum einasta degi, væri það auðvitað að æra óstöðugan að ætla að sinna því öllu og það gera nú fæstir. Þarna er um mikinn og vaxandi kostnað að ræða sem ég hygg að þeir nýju þingmenn, sem eru nú að hefja störf, eigi eftir að kynnast fyrir utan ýmsan annan kostnað sem fylgir þessu starfi en fylgir ekki öðrum störfum.

[17:45]

Það hefur verið talað mikið um launahækkanir og Kjaradóm og ég hef veifað mínum launaseðlum framan í ýmsa þingmenn en þeir sýna það eftir að ég kom inn á þing 1991 og þar til dómur Kjaradóms féll í september hækkuðu mín laun um 4% á síðasta kjörtímabili. Það var 4% hækkun sem Kjaradómur dæmdi okkur þingmönnum eftir að úrskurður hans hafði verið tekinn úr gildi með bráðabirgðalögum sem ég rifja upp að við kvennalistakonur mótmæltum. Við mótmæltum því hvernig að þeim málum var staðið. Ég vil minna á í þessu samhengi að þetta er í þriðja skipti sem ég geng í gegnum svona launastorm eða hvað maður á að kalla þetta, þar sem Alþýðusambandið og Vinnuveitendasambandið, sem telur sig hafa einhverja hæstaréttardómarastöðu varðandi öll launamál í landinu og hafa hvað eftir annað komið í veg fyrir að einstakir hópar nái leiðréttingu sinna launa. Þetta er stefna sem gengur ekki upp.

Hvernig á það að ganga upp í hagkerfi sem er sæmilega frjálst að það sé hægt að halda öllum launakjörum í einhverjum böndum og þjóðarsáttum og guð má vita hverju, en allt annað leikur lausum hala? Þetta gengur ekki. Enda er það ekki þannig. Það er ekki þannig. Það hafa ýmsir hópar fengið hækkanir langt umfram þetta og eru margir feimnir við að birta þær niðurstöður. Ég minni nú bara á þá samninga sem voru gerðir í álverinu fyrr á þessu ári. Þeir voru ekki upp á 9,5%. Þar voru hækkanir langt umfram það. Ég minni líka á löngu þarfar leiðréttingar til hjúkrunarfræðinga, meinatækna og fleiri hópa, sem hefur þó tekist að ná fram leiðréttingum. Ég vil minna á það að ef einhver hópur í þessu samfélagi þarf á leiðréttingu sinna launa að halda þá eru það t.d. kennarar. Það eru allir sammála um að launakjör kennara séu algjörlega út úr kortinu. Það þarf að stokka upp launakerfið. Það þarf að breyta þessum stiga. En á meðan Alþýðusambandið og Vinnuveitendasambandið eru við það heygarðshorn sem þessi samtök eru við nú þá gerist auðvitað ekki neitt. Það gerist ekki neitt ef þeir ætla að halda uppteknum hætti og berja niður allar breytingar. Og það var auðvitað það jákvæða við kjaradóm 1992, sem m.a. hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir stóð að að afnema, að Kjaradómur gerði tilraun til að gera þetta kerfi sýnilegt. Það bara sagði það blákalt: Launakjör opinberra starfsmanna eru svona og sýndi það sem m.a. kemur fram í þeim gögnum sem við höfum fengið í hendur og hér hefur verið nefnt í umræðunni, að þingmenn eru þar langsamlega neðstir, langsamlega neðstir í þeim hópi sem Kjaradómur dæmir laun.

Ég hef látið þá skoðun í ljós og tala þar af minni reynslu, að mér hafa ekki þótt launakjör þingmanna vera viðunandi. Þau hafa skánað verulega núna. Það er auðvitað vegna þess að við erum ekki að vinna í því umhverfi sem félagar Alþýðusambandsins eru að vinna í og eiga þeir þó sannarlega skilið að fá launahækkanir og launaleiðréttingar. Við erum að vinna innan um aðra hópa. Við erum að vinna með ráðuneytisfólki sem hefur miklu hærri laun en við, við erum auðvitað í samanburði við ýmsa hæstlaunuðu hópa þjóðfélagsins. Og fyrst ég nefndi nú þessa hæstlaunuðu hópa þá finnst mér stundum sérkennilegt þegar verið er að tala um þingmenn sem hálaunahóp þegar laun þingmanna ná ekki einu sinni hátekjuskatti. Laun þingmanna ná ekki hátekjuskatti. Hvað eru há laun? Ég vildi gjarnan kalla þær upplýsingar fram. Hver eru hin raunverulegu laun í samfélaginu? Við þurfum að fá það upp á borðið.

Það á að búa vel að þingmönnum. Það eiga allir að hafa efni á því að bjóða sig fram til þingmennsku og það er ákveðið áhyggjuefni að ýmsir þeir sem kostur væri að fá hingað inn á þing telja sig ekki hafa efni á því vegna þess að þeir verða fyrir svo miklum launalækkunum. Fólk tók sæti hér á þingi í vor sem varð fyrir verulegum launalækkunum. Þetta segir okkur hvernig ástandið er í okkar launamálum. Þar ríkir mikill feluleikur og það er engum til góðs að halda þeim leik áfram og þess vegna þarf að fara út í það verk að stokka upp launakerfið, ekki síst hjá ríkinu, sem ber þar auðvitað ákveðna ábyrgð.

Við megum ekki gleyma því --- og það snertir ríkisstarfsmenn líka --- að við erum komin í þá stöðu að við erum ekki lengur einangrað vinnusvæði. Við erum komin í samhengi við evrópskan vinnumarkað og íslenskur vinnumarkaður er kominn í samkeppni, m.a. við vinnumarkað í Danmörku, eins og dæmin sýna nú undanfarnar vikur og mánuði þegar fólk flýr landið og leitar sér betri kjara í öðrum löndum. Þetta verða menn að horfast í augu við. Ég trúi því ekki að íslenskur vinnumarkaður komist upp með það mikið lengur að halda laununum svona niðri eins og hefur verið gert í nafni þjóðarsáttar og jafnvægis og hvað menn nú kalla þetta allt saman. Ég held að sú stefna gangi ekki lengur og það sé löngu kominn tími til að fara að viðurkenna frelsi í kjarasamningum. Viðurkenna frjálsan samningsrétt og frelsi í kjarasamningum. Það frelsi á ekki síst að snúa að þeim sem lægst hafa launin og ég margítreka það að kjör hinna lægstlaunuðu eru algerlega óviðunandi en það hjálpar engum að draga aðra niður, það hjálpar þeim ekki að draga aðra niður eða að öðrum hópum sem m.a. eiga þess kost að fara úr landi og leita sér að vinnu annars staðar sé haldið niðri og það er áhyggjuefni. Það er áhyggjuefni að t.d. íslenskir vísindamenn skili sér ekki heim aftur, það er mikið áhyggjuefni sem við þurfum auðvitað að horfast í augu við.

Mín niðurstaða er því sú, hæstv. forseti, eins og væntanlega hefur komið fram í mínu máli, að ég er heldur óhress með þessa umræðu alla saman og við þingmenn getum eflaust horft þar í eigin barm og höfum kannski ekki hagað okkur nógu vel í þessu máli, hefðum kannski getað vandað okkur meira. En það breytir því ekki að það þurfti að taka á þessum lögum og það þarf enn að fara í gegnum þau og skoða þau því ég spyr: Ef ástæða er til þess að skattleggja þessa greiðslu, þessa starfskostnaðargreiðslu, hvað þá með aðrar skattfrjálsar greiðslur sem þingmenn fá? Er þar um að ræða kostnað eða er þar um að ræða eitthvað annað? Og ég spyr þá þingmenn sem hafa afsalað sér því að fá þessa 40 þús. kr. greiðslu og vilja fá að leggja fram reikninga: Ætla þeir líka að afsala sér skattfrjálsri greiðslu vegna ferðalaga, ótilgreindra ferðalaga innan kjördæmis? Ætla þeir líka að afsala sér dagpeningum vegna ferðalaga innan lands, fyrir ótilgreindan dvalar- og gistikostnað? Ég spyr: Hver er munurinn á þessu? Það er að vísu tilgreint í lögunum að það megi velja um tvær aðferðir varðandi starfskostnaðargreiðsluna. En ég vil lýsa því hér, bara hvað mig sjálfa varðar, að ég hef hugsað mér að halda mjög nákvæmt bókhald yfir allan þann kostnað sem snýr að mínu starfi hér á næstu mánuðum. Ég hef ekki gert það upp við mig hvort ég afsala mér þessari 40 þús. kr. greiðslu. Ég ætla að skoða hver þessi kostnaður er í raun og veru. En ef ég geri það, ef ég afsala mér þessari greiðslu og bið um að fá að skila reikningum þá gildir það að sjálfsögðu líka um aðrar skattfrjálsar greiðslur. Það gildir líka um þær. Því ef það er verið að halda því fram að ég og aðrir séum að stinga hér einhverju í vasann sem við eigum ekki skilið þá gildir það líka um ferðakostnað. Því það er eins með hann, að hann er stundum meiri og stundum minni.

Ég veit það mjög vel hvaða kostnaður fylgir mínu starfi innan Reykjavíkurkjördæmis, því þessir ákveðnu ferðapeningar innan kjördæmis eru ekki til þess að keyra í og úr vinnunni, þeir eru til þessa að mæta þeim auknu ferðalögum sem fylgja þessu starfi. Og vegna þess að ég keyri ekki bíl sjálf og þarf að taka leigubíla eða strætisvagna og hjóla reyndar í sparnaðarskyni og til umhverfisverndar, þá veit ég nákvæmlega hver þessi kostnaður er. Hann er ákaflega misjafn á milli mánaða. Mér finnst að það þurfi að vera samræmi í þessu og ég er ekki sátt við að menn ætli sér að skila inn reikningum fyrir þessa greiðslu en ekki aðrar. Ég sé engan mun á þessum greiðslum, ekki nokkurn, þó að greiðslurnar varðandi ferðakostnað og ýmislegt annað eigi sér langa sögu. Þannig að við þingmenn þurfum að vera samkvæm sjálf okkur. Það á allt að vera opið sem snýr að launakjörum þingmanna. Allt. Það á allt að vera á borðinu. Og við sem stóðum að samningu þess frv. sem var samþykkt í vor töldum okkur vera að því. Við töldum okkur vera að gera þetta allt saman sýnilegt. Taka inn í lög það sem hafði verið praktíserað árum og áratugum saman þannig að þetta væri allt saman ljóst. Það hefur aldrei verið mín skoðun eða mín hugmynd að það væri verið að taka upp einhverjar sérstakar reglur fyrir þingmenn. Það átti ekki að vera þannig og það er ekki þannig, enda eru þessar lagagreinar í samræmi við túlkanir ríkisskattstjóra og það var leitað samráðs við ríkisskattstjóra varðandi þessa starfskostnaðargreiðslu þannig að við töldum okkur vera að gera þetta allt saman sýnilegt og það væri bara einfaldara og skýrara að binda þetta í lög. En svo sannarlega hefur reynslan kennt okkur að það er greinilega ekki það sem er leyfilegt í þessu samfélagi og kann vel að vera að það sé miklu réttari leið að þetta sé þá allt á valdi ríkisskattstjóra. En þá skulum við líka setja það allt í vald ríkisskattstjóra.