Kjaradómur og kjaranefnd

Mánudaginn 16. október 1995, kl. 18:20:20 (330)

1995-10-16 18:20:20# 120. lþ. 12.2 fundur 85. mál: #A kjaradómur og kjaranefnd# þál., SvanJ
[prenta uppsett í dálka]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Hér er hreyft stóru máli og hefði af ýmsum ástæðum verið æskilegt að þingmenn hefðu haft betri tíma til að skoða það áður en það var tekið til umræðu. Enda þótt hv. þm. Ögmundur Jónasson hafi greint frá skoðun sinni og stefnu þeirra samtaka sem hann veitir forustu í vor, þá er ekki þar með sagt að það hafi endilega vakið menn til þeirrar umhugsunar að þeir væru tilbúnir til þess að tjá sig um málið svo viðhlítandi sé með svo stuttum fyrirvara.

Það kom fram í umræðum um frv. um þingfararkaup í vor, að við þingmenn Þjóðvaka erum á því að Kjaradómur eigi að sjá um alla þætti launagreiðslna alþingismanna, þ.e. að kjör alþingismanna eigi öll að ráðast á einum stað. Ég held að sú umræða sem hér hefur farið fram í dag undirstriki í rauninni mikilvægi þess að það sé ekki um skörun að ræða, að það sé alveg ljóst þegar ákvarðanir um launakjör alþingismanna eru teknar að menn hafi allt sem þarf að hafa uppi á borði hjá sér og með þeim hætti verði a.m.k. meiri skynsemi í málinu og minni ástæða til tortryggni.

Varðandi dómstólinn og eins og hér er rakið í grg., að Alþingi hafi þurft að taka aftur ákvarðanir hans, þá starfar dómstóllinn auðvitað eftir þeirri löggjöf sem hér er sett og Alþingi verður þá einfaldlega að setja það skýra löggjöf að dómstóllinn geti dæmt eftir henni svo ásættanlegt sé. Auðvitað koma alltaf upp atvik þar sem menn geta vefengt forsendur eins og gert er núna, en því skýrari sem löggjöfin er þeim mun einfaldara ætti þetta mál að vera. Og þar sem Alþingi ber ábyrgð á þeirri löggjöf sem hér er sett þá hlýtur Alþingi jafnframt að bera óbeina ábyrgð á þeirri niðurstöðu sem dómstóllinn kemst að.

Umræða um þetta mál er vissulega þörf og ég hefði kosið, eins og ég sagði hér í upphafi, að við hefðum haft betri tíma til þess að fara í umræðu um þetta mál. Þó að ég sé ekki sammála þeirri tillögu sem hér liggur fyrir, vegna þess að niðurstaða okkar er sú, að minnsta kosti áður en ítarleg umræða hefur þá farið fram, að launin eigi að vera á einum stað og það sé hjá Kjaradómi, þá hefði þessi umræða verið afskaplega þörf sem hluti af umfjöllun um launamál alþingismanna og þá ekki síður ein og sér.

Herra forseti. Hafi ég verið á þeirri skoðun fyrir að Kjaradómur ætti að sjá um laun alþingismanna þá hef ég sannfærst enn frekar um það eftir að úrskurður forsn. var birtur og eftir að hafa upplifað þá umfjöllun og þá meðferð á málinu sem síðan hefur orðið. Ég held að það sé afskaplega óæskilegt að alþingismenn, sem þurfa að takast á við mörg og flókin verkefni, þurfi að vera vikum saman uppteknir af sínum eigin kjaramálum.