Kjaradómur og kjaranefnd

Mánudaginn 16. október 1995, kl. 18:24:27 (331)

1995-10-16 18:24:27# 120. lþ. 12.2 fundur 85. mál: #A kjaradómur og kjaranefnd# þál., Flm. ÖJ
[prenta uppsett í dálka]

Flm. (Ögmundur Jónasson):

Hæstvirtur forseti. Ég ætla ekki að hafa mörg orð til viðbótar þeim sem að ég hafði hér áðan þegar ég fylgdi tillögu minni úr hlaði. Það er rétt sem hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir benti á, að á sínum tíma voru launakjör alþingismanna ákvörðuð með lögum og þá varð allt vitlaust. Og enn hefur allt orðið vitlaust. Þess vegna fundu menn upp þetta snjallræði að búa til Kjaradóm, sem er svona afsökun úti í bæ. Það hefur nú verið spurt af öðru tilefni reyndar hvort það sé til nokkuð sem heitir að vera óháður. Alla vega er ég viss um að það er ekki til neitt sem heitir óháður dómstóll af þessu tagi. Það hefur komið á daginn að ákvarðanir Kjaradóms hafa gengið þvert á almenna launastefnu í landinu á undanförnum árum. Viðbrögð stjórnvalda hafa verið með ólíkum hætti. Eitt sinn sagði hæstv. forsrh. þegar hæstaréttardómurum var úthlutað litlum 100.000 kr. kjarabótum, að hann deildi ekki við dómarann. Í annað skipti voru sett lög á Kjaradóm. Nú er talað um það í blöðum að ríkisstjórnin íhugi eða öllu heldur hæstv. forsrh., að hann sé að velta því fyrir sér hvort til greina komi að láta eitthvað af þeim kjarabótum sem Kjaradómur hefur úrskurðað ekki koma til framkvæmda um næstu áramót. Hæstv. forsrh. er að velta þessu fyrir sér. (Gripið fram í: Hverju?) Hvort eitthvað af þeim kjarabótum sem Kjaradómur hefur úrskurðað eigi að koma til framkvæmda við næstu áramót. Í annað skipti rifjaði ég upp, hæstv. forsrh., að þá sagði sami hæstv. ráðherra að hann deildi ekki við dómarann. Þá var nýbúið að úrskurða hæstaréttardómurum 100.000 kr. kjarabótum, búið að festa það inn í launataxtann og allt það réttindakerfi sem að dómarar búa við. Í annan tíma voru sett lög á Kjaradóm.

Ég er að rifja þetta upp til að benda á í hvílíkt óefni þessi mál eru komin. Síðan erum við búin að ræða það í allan dag hvað séu laun og hvað séu ekki laun. Það er búið að benda á að þingflokksformenn hafi fengið launahækkun hér sl. vor. Aðrir segja að þetta sé ekki launahækkun, þetta sé starfskostnaður. (Gripið fram í: Þetta eru tvímælalaust laun.) Þetta eru tvímælalaust laun. (Gripið fram í: Þetta er hækkun á launum.) En nú er það Kjaradómur sem á að ákvarða laun, þá er gengið þvert á lögin um Kjaradóm væntanlega. (Gripið fram í: Það verður að endurskoða lögin.) Hér hafa komið fram gagnstæð sjónarmið og gagnstæðar skoðanir um þessi efni og það er ljóst að við erum komin inn í eina allsherjarmótsögn. Úr þeirri mótsögn er búið hnýta fastan rembihnút. Þann hnút verður að leysa. Ég er þeirrar skoðunar að við eigum jafnan að tryggja kerfi þar sem að baki pólitískri ákvörðun sé jafnan pólitísk ábyrgð. Að menn standi jafnan reikningsskil gerða sinna.

Þess vegna er ég að leggja til róttæka breytingu á þessum málum. Við tölum um það að þingið eigi ekki að bera ábyrgð á eigin launakjörum. Ég er að segja að menn eigi að axla ábyrgð af þeim ákvörðunum sem þeir taka og það er engin lausn á þeim málum að búa til einhverja vélræna formúlu eins og menn vilja negla inn í starfsreglur Kjaradóms og segja síðan: Þetta kom mér ekkert við. Auðvitað kemur það okkur öllum við hvernig þessum málum er skipað og þegar allt kemur til alls þá berum við öll sameiginlega ábyrgð á mönnum, á hæstv. ríkisstjórn, sem semur við tugþúsundir eintaklinga og skapar öðrum tugþúsundum starfskjör og lífsskilyrði í landinu.

Þess vegna er ég að segja: Við eigum að taka ábyrgð á þeirri stefnu sem knúin er fram gagnvart launafólki í landinu, almenningi í landinu og við eigum að ganga alla leið, að standa reikningsskil gerða okkar alla leið og ekki búa til einhverja ódýra afsökun úti í bæ hverju nafni sem hún kann að nefnast.