Félagsleg aðstoð

Mánudaginn 16. október 1995, kl. 18:49:05 (335)

1995-10-16 18:49:05# 120. lþ. 12.3 fundur 80. mál: #A félagsleg aðstoð# (endurhæfingarlífeyrir) frv., VS
[prenta uppsett í dálka]

Valgerður Sverrisdóttir:

Herra forseti. Eins og hefur komið fram í dag hefur hæstv. heilbrrh. fjarvistarleyfi og er upptekinn við störf í kjördæmi sínu. Mér þykir nokkuð sérkennilegt að hv. þm. skuli endilega hafa viljað taka málið á dagskrá að hæstv. ráðherra fjarstöddum en það er nú þegar gert og hún hefur mælt fyrir málinu.

Mér fannst hún tala í nokkrum ásökunartón og ég veit ekki hvern hún var að ásaka sérstaklega. Ég vona að það hafi ekki verið hæstv. heilbrrh. því að hún hefur látið koma fram í fréttum nú um helgina þegar þetta mál varð að fréttaefni að hún mundi strax fara að vinna í málinu og láta athuga í heilbr.- og trmrn. hvað þarna hafi gerst og hvort þarna sé ekki um mistök að ræða sem þurfi að leiðrétta og gekk það langt að hún talaði um að mæta hv. þm. Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur jafnvel á miðri leið og sýndi þannig mikinn samstarfsvilja við hv. þm. um það að taka á þessum málum. En ég hef náð símasambandi við hæstv. ráðherra meðan hv. þm. mælti fyrir þessu máli og hún hefur tjáð mér að þegar sé hafin vinna í ráðuneytinu til þess að koma þarna á bótum og leiðréttingum þannig að ég held að það sé ekki áhyggjuefni að það verði ekki unnið af heilindum í því að finna úrbætur sem séu ásættanlegar.