Lánsfjárlög 1996

Þriðjudaginn 17. október 1995, kl. 13:36:36 (337)

1995-10-17 13:36:36# 120. lþ. 13.4 fundur 43. mál: #A lánsfjárlög 1996# frv., fjmrh.
[prenta uppsett í dálka]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til lánsfjárlaga sem er 43. mál þessa þings. Lánsfjárlög eru nú sem fyrr mótuð af niðurstöðum fjárlagafrv. og þeirri efnahagsstefnu stjórnvalda sem það byggist á.

Í upphafi máls míns vek ég athygli á nokkrum almennum atriðum sem varða stöðu fjármagnsmarkaðarins einkum með tilliti til umsvifa ríkissjóðs. Því næst mun ég fjalla um einstök efnisatriði þessa frv.

Horfur í ríkisfjármálum fyrir árið 1996 benda til að nettólántökur ríkissjóðs lækki enn á næsta ári. Nýjar lántökur ríkissjóðs og aðila sem njóta ríkisábyrgðar eru áætlaðar 11,6 milljarðar kr. eða 2,5 milljörðum kr. lægri en á yfirstandandi ári. Lánsfjárþörf þessara aðila hefur ekki verið minni í meira en áratug. Til að undirstrika þetta enn frekar er gert ráð fyrir að lánsfjárþörfin á næsta ári verði innan við fjórðungur þess sem hún var árið 1991. Þá er áætlað að lánsfjárþörf sveitarfélaga lækki einnig á næsta ári en samanlagt stuðlar þetta að lægri vöxtum en ella.

Vextir ríkisverðbréfa í frumsölu hafa lengst af verið mótandi um vaxtastigið. Á undanförnum missirum hafa vextir eftirmarkaðarins í auknum mæli orðið leiðandi í þessum efnum. Má í því sambandi geta þess að í febrúar 1995 hækkaði ávöxtunarkrafa spariskírteina um 0,3% þegar stór flokkur spariskírteina kom til innlausnar og boðið var sérstakt vaxtaálag þeim sem skipta vildu út eldri spariskírteinum fyrir ný. Ávöxtunarkrafan hefur smám saman farið hækkandi á Verðbréfaþingi Íslands og má rekja það bæði til dræmrar eftirspurnar fjárfesta eftir lengri bréfum og þess að Seðlabanki Íslands hefur hækkað kaupkröfu sína og er hún nú 5,8%--5,9%. Á sama tíma og sala verðtryggðra spariskírteina dalaði glæddist sala verðbréfa með erlenda gengisviðmiðun, svokallaðra ECU-tengdra spariskírteina. Ávöxtun þessara bréfa tók mið af þeim vöxtum sem sambærilegar erlendar útgáfur bera. Upp á síðkastið hefur heldur dregið úr sölu þessara bréfa og er það skiljanlegt þar sem vextir á spariskírteinum með innlendri vaxtaviðmiðun hafa hækkað.

Vextir óverðtryggðra skammtímaverðbréfa ríkissjóðs fóru hækkandi framan af ári en hafa heldur sveigst niður á við að undanförnu. Vextir óverðtryggðra bréfa til þriggja ára hafa farið lækkandi frá því að útboð þeirra hófst í maí. Þeir eru nú 9,5% en urðu hæstir 9,9%. Sala þessara bréfa hefur verið alljöfn frá því hún hófst. Nýlega voru óverðtryggð verðbréf til fimm ára fyrst boðin til kaups. Í fyrsta útboði þeirra var tekið tilboðum með ávöxtunarkröfunni 10,8%. Verður það að teljast vel viðunandi í ljósi þess að íslenskur fjármagnsmarkaður hefur ekki reynslu af óverðtryggðum fjárskuldbindingum til svo langs tíma. Ætla verður að þessir vextir geti lækkað þegar festa og tiltrú á efnahagsstöðugleika vex enn frekar. Hitt er jafnljóst að ríkisbréf og ríkisvíxlar sækja vaxtaviðmiðun einnig til útlanda.

Vextir ríkisvíxla, þriggja, sex og tólf mánaða voru í lok árs 1994 í stórum dráttum sambærilegir við það sem er erlendis. Vextir á þriggja mánaða víxlum eru nú 6,99% og hafa hækkað úr 6,27% þegar þeir voru lægstir í janúar. Lausafjárstaða innlánsstofnana er nú mun betri og rýmri en hún var fyrir ári en það gefur tilefni til að ætla að sala ríkisvíxla geti gengið vel næstu mánuðina eins og undanfarna tvo mánuði. Nettósala ríkisvíxla í janúar til september 1995 er um 5 milljarðar kr. og lætur nærri að víxilskuldir ríkissjóðs sé nú eins og þær voru að hámarki eða 19,6 milljarðar kr.

Mig langar, virðulegi forseti, til að vekja næst athygli á nýjum markaðsverbréfum ríkissjóðs en í tengslum við gerð kjarasamninga á almenna vinnumarkaðnum í vor gaf ríkisstjórnin fyrirheit um að Alþingi setti lög um breytingu á vaxtalögum þar sem vísitala neysluverðs kæmi í stað lánskjaravísitölu en samningsaðilar töldu að hlutur launa í lánskjaravísitölu væri of hár. Jafnframt var lýst yfir að draga skyldi úr verðtryggingu og var hafin sala þriggja ára óverðtryggðra ríkisbréfa með útboði í maí á þessu ári en sala sambærilegra tveggja ára bréfa hafði legið niðri frá haustinu 1994. Sala þriggja ára ríkisbréfa hefur verið allgóð og nemur alls að nafnverði 1,5 milljörðum kr. fram til septembermánaðar. Til þess að efla markað fyrir óverðtryggð bréf er hafin sala á fimm ára óverðtryggðum ríkisbréfum. Á sama tíma fellur niður sala fimm ára verðtryggðra spariskírteina. Brotið er blað í sölu ríkisverðbréfa þar sem nú eru í fyrsta sinn um langt skeið boðin til sölu svo löng óverðtryggð verðbréf eins og reyndar hefur áður komið fram.

Þá er að nefna nýlega ákvörðun um að hefja sölu 20 ára verðtryggðra spariskírteina en þau ættu sérstaklega að höfða til lífeyrissjóðanna sem þurfa að fjárfesta til lengri tíma á móti skuldbreytingum sínum. Sala þeirra nam í fyrsta útboði 472 millj. kr. við ávöxtunina 5,95. Þessi ávöxtun hefur síðan farið lækkandi á Verðbréfaþingi Íslands og er nú um 5,86. Áfram verður boðið upp á 10 ára spariskírteini eins og gert hefur verið hingað til þó svo að samhliða standi til að bjóða til sölu ný 10 ára jafngreiðsluskírteini ríkissjóðs sem getur hentað þeim sem kjósa að hafa árlegar tekjur af verðbréfaeign sinni. En eins og allir vita þá hafa ríkisverðbréf til lengri tíma, svokölluð spariskírteini, verið seld með þeim hætti að áfallnir vextir hafa ekki komið til útborgunar fyrr en á greiðslulokadegi, þetta eru svokölluð kúlubréf. En með þessum hætti kæmu til greiðslu vextir árlega en ýmsir fjárfestar hafa áhuga á slíkri eign.

Á bls. 3 í athugasemdum með frv. er kafli um lánsfjáreftirspurn innlendra aðila þar sem töflunni er skipt í ríki, sveitarfélög, fyrirtæki og heimili. Það er einkum þrennt sem vekur athygli í þessari töflu.

Í fyrsta lagi er það minni vöxtur í lántökum heimilanna en þær jukust um 4,6% á fyrri helmingi þessa árs í samanburði við 5,5% á sama tíma í fyrra. Samdrátturinn er í lántökum til fasteignakaupa sem kemur m.a. fram í minni útgáfu húsbréfa.

Í öðru lagi hafa lántökur fyrirtækja haldið áfram að dragast saman en þau hafa nýtt batnandi rekstrarafkomu m.a. til að greiða niður erlendar skuldir.

Í þriðja lagi virðast sveitarfélög vera að minnka lántökur sínar en þær voru mjög miklar á árinu 1994.

[13:45]

Við afgreiðslu fjárlaga árið 1995 var talið að nýr peningalegur sparnaður yrði allt að 36 milljarðar á árinu. Frjáls sparnaður hefur hins vegar orðið talsvert minni en talið var eða tæpir 7 milljarðar í stað 13 milljarða. Þessi samdráttur kemur fram í aukinni einkaneyslu umfram vöxt í þjóðartekjum á þessu ári. Jafnframt skýrir þetta að hluta til erfiðleika við sölu ríkisverðbréfa. Samkvæmt endurskoðaðri áætlun Seðlabanka Íslands er talið að peningalegur sparnaður sé í samræmi við áætlun fjárlaga næsta árs.

Áætlað er að heildarsparnaður verði um 32 milljarðar kr. á árinu 1996 eða 6,7% af landsframleiðslu, en á yfirstandandi ári er gert ráð fyrir að sama hlutfall sé 6,2% og kemur það fram í töflu á bls. 3.

Reiknað er með að kerfisbundinn sparnaður verði um 23,4 milljarðar króna og hinn frjálsi um 8,7 milljarðar. Á árinu 1996 er gert ráð fyrir að betra samræmi verði á milli breytinga í einkaneyslu og þjóðartekjum og skýrir það aukningu í frjálsum sparnaði á milli ára. Rétt er að leggja áherslu á að skekkjumörk við þessar áætlanir eru veruleg og því ber að skoða niðurstöður með fyrivara. Þetta segi ég hér að fenginni reynslu. Ég man þó sérstaklega eftir árinu 1991 þar sem gífurleg skekkjumörk komu fram, jafnvel sem skiptu tugum milljarða, en sem betur fer hefur áætlanagerð í þessum efnum snarlega breyst frá þeim tíma og minni líkur er á svo stórfelldum skekkjum nú. En þess ber að geta að það eru margar breytur, það eru margir áhrifavaldar sem að geta valdið því að verði lítils háttar breyting í efnahagsmálum að þá getur sparnaður dregist mjög snögglega saman og eins aukist af öðrum ástæðum.

Heildarlántökur ríkisins, ríkisfyrirtækja og sjóða, eru áætlaðar 59,3 milljarðar á næsta ári, afborganir 47,7 milljarðar. Hrein lánsfjáröflun, þ.e. ný lán að frádregnum afborgunum eldri lána, er eins og ég nefndi í upphafi, áætluð 11,6 milljarðar kr. en það er 2,5 milljörðum kr. lægri fjárhæð en á þessu ári. Heildarlántökum er ekki skipt milli innlendra og erlendra lána frekar en undanfarin ár. Má það rekja til aukins frelsis í fjármagnsflutningum milli landa þar sem vaxta- og gengisþróun ræður miklu um hvernig leitað er á fjármagnsmarkaði. Nú geta erlendir aðilar, t.d. keypt ríkisbréf útgefin hér á landi og innlendir aðilar erlend ríkisverðbréf hömlulaust.

Það sem hefur gerst á undanförnum árum er í raun það að ríkissjóður hefur leitað talsvert út fyrir landsteinana eftir lánum enda er ríkissjóður sem slíkur góður lántakandi og fær yfirleitt lægri vexti en aðrir innlendir aðilar, en á sama tíma hafa bæði fyrirtæki og þó einkum opinberar stofnanir, sveitarfélög, leitað á innlenda markaðinn og skapað sér þannig rými og stundum til þess að greiða niður erlend lán, einkum þegar vaxtakjör voru með þeim hætti.

Þetta er eðlileg þróun og þess vegna er ekki rétt að gera sérstaklega mun á innlendri og erlendri lántöku í lánsfjáráætlun. Það sem auðvitað skiptir öllu máli er að þjóðarbúið sé að greiða niður skuldir sínar erlendis á meðan ekki er verið að fjárfesta mikið í atvinnufyrirtækjum hér á landi. Þetta er mergurinn málsins, þetta hefur verið að gerast á undanförnum árum og þetta endurspeglast í viðskiptajöfnuði við önnur lönd. En nú er gert ráð fyrir því að þriðja árið í röð, á næsta ári, þá verði viðskiptajöfnuðurinn hagstæður. Hitt er svo annað mál að um leið og veður skipast þannig í lofti að hingað til landsins koma erlendir aðilar með fjárfestingu sem skapar atvinnu til lengri tíma þá getur það auðvitað gerst að viðskiptajöfnuðurinn snúist við og það myndist viðskiptahalli, en sá viðskiptahalli er að sjálfsögðu réttlætanlegur þegar verið er að nota peningana í arðsamar framkvæmdir sem koma til með að gefa störf og skapa tekjur bæði fyrir einstaklinga og okkur öll sameiginlega í ríkissjóð.

Virðulegi forseti. Þetta frv. er í sjálfu sér ekki langt eða flókið. Það er sett upp með hefðbundnum hætti og skiptist í lántökur ríkissjóðs, ríkisábyrgðir, ýmis ákvæði um lánsfjármál og loks gildistökuákvæði. Ég sé ekki ástæðu til þess hér í minni framsöguræðu að fjalla nánar um einstakar greinar frv. Ég bendi hins vegar á að hv. efh.- og viðskn., sem fær málið til meðferðar, mun að sjálfsögðu kalla til sín fjölmarga aðila til þess að fjalla um einstakar greinar frv. og sannreyna þær tölur sem þar koma fram.

Virðulegi forseti. Ég hef nú rakið það helsta sem fram kemur í þessu frv. en mun að sjálfsögðu taka þátt í umræðum sem fara fram á eftir, svara spurningum sem varða frv., en leyfi mér að fara fram á að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.