Lánsfjárlög 1996

Þriðjudaginn 17. október 1995, kl. 14:02:16 (340)

1995-10-17 14:02:16# 120. lþ. 13.4 fundur 43. mál: #A lánsfjárlög 1996# frv., JBH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka]

Jón Baldvin Hannibalsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er sannast sagna hreinn óþarfi af hæstv. fjmrh. að þakka mér einhverjar stuðningsyfirlýsingar. Hann er ekki að opinbera neitt ríkisleyndarmál þegar hann segir að við höfum verið bandamenn á umliðnum árum í viðleitni til þess að koma böndum á ríkisfjármál og að við höfum verið bandamenn og samstarfsmenn í því að reyna að koma í veg fyrir sjálfvirka útgjaldaþenslu ríkisins. Vissulega, þakkað væri nú. Hér talar fyrrv. fjmrh. og hæstv. núv. fjmrh. má gjarnan rifja það upp að í fyrrv. ríkisstjórn naut hann að sjálfsögðu skjóls bæði af ráðherrum okkar Alþfl. sem og þeim ráðherrum sem áður höfðu gegnt embætti fjmrh. og er dálítið óvenjulegt hversu margir þeir voru. Enda mæddi tiltölulega lítið á honum ef við berum það saman í sögulegu samhengi við hlutskipti fjmrh. í ríkisstjórnum almennt. Yfirleitt var það svo að það voru ráðherrar Alþfl. sem mest voru í skotlínunni og framlínunni þegar kom að því að draga saman í ríkisfjármálin miklu fremur en fjmrh. Og má vera að hann sakni þeirra daga eitthvað eða eigi eftir að finna fyrir viðbrigðunum því að hann er í öðrum félagsskap nú.

Kjarni málsins er þessi: Að sjálfsögðu erum við samstarfsmenn og ættum að vera það sem hér erum á Alþingi Íslendinga í því að reyna að koma stjórn á ríkisbúskapinn vegna þess að undir því eru önnur markmið komin, þ.e. undir árangri í þeirri viðleitni eru önnur markmið komin. Ef við viljum bæta hér lífskjör til frambúðar, ef við viljum örva fjárfestingu og nýsköpun, ef við viljum örva hagvöxt, þá þurfum við að ná niður fjármagnskostnaði og vaxtakostnaði. Og ef við viljum bæta hag almennings og fjölskyldna, bæði með því að draga úr atvinnuleysi sem og með því að bæta lífskjör eftir langt og erfitt þrengingaskeið, þá er það ekki síst undir því komið að okkur takist annars vegar að ná niður vöxtum og svo hins vegar að hafa stöðugleika í verðlagi og ná niður okurverði á lífsnauðsynjum. Ég er bandamaður allra sem einlæglega og af alvöru og festu beita sér fyrir því að við náum þessum markmiðum.