Lánsfjárlög 1996

Þriðjudaginn 17. október 1995, kl. 14:05:49 (342)

1995-10-17 14:05:49# 120. lþ. 13.4 fundur 43. mál: #A lánsfjárlög 1996# frv., SJS
[prenta uppsett í dálka]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það liggur við að maður sé feiminn að koma í ræðustólinn eftir þessar ástarjátningar hér áðan og miklu þakkarræður. Það var eins og færi smá viðreisnarsöknuður um loftið í orðaskiptum þeirra, hæstv. fjmrh. og hv. þm. Jóns Baldvins Hannibalssonar, formanns Alþfl.

Ég get tekið undir það að öðru leyti með hv. þm. Jóni Baldvini Hannibalssyni að það er kannski ekki tilefni til margra orða hér við 1. umr. þessa frv. Það lætur ekki mjög mikið yfir sér. Það sem ég ætla að nefna eru fyrst og fremst ein þrjú efnisatriði sem varða lántökur einstakra aðila. Ég vil segja um stöðu efnahagsmálanna og ríkisfjármálanna almennt að þar eru auðvitað ýmis veikleikamerki sýnileg, þó að hér sé reynt að gera lítið úr því í greinargerð og framsöguræðu. Þar fer kannski fremst sú staðreynd að fjárfestingar eru ískyggilega litlar nú ár eftir ár á Íslandi, þannig að þær eru með því lægsta sem þekkist meðal aðildarríkja Efnahags- og framfarastofnunarinnar. Það sem verra er þó er að þetta er ekki ávísun á að það sé að safnast upp fjármagn í landinu á móti heldur þvert á móti eru ýmsir aðilar samtímis að safna skuldum. Menn geta út af fyrir sig bent á að fyrirtækin hafa nú tvö ár í röð eða svo náð að lækka þær lítillega, enda veitti ekki af. Þá verða menn að muna eftir út frá hvaða viðmiðunarpunkti sú viðmiðun er tekin, þ.e. út frá óheyrilegum skuldum til að mynda sjávarútvegsins eins og þær voru orðnar hér fyrir tveim til þrem árum síðan þegar sú þróun hófst að fyrirtækin fóru að ná þeim eitthvað niður.

Í öðru lagi er óhjákvæmilegt að nefna vextina, sem eru allt of háir og standa hér allri fjárfestingu og nýsköpun fyrir þrifum og eru klafi á skuldsettu atvinnulífi og skuldsettum heimilum. Vaxtastigið í landinu er allt of hátt og því verður að ná niður.

Viðskiptaafgangurinn er því miður að hverfa þessa mánuðina og allt bendir til þess að þegar upp verður staðið við lok þessa árs verði afgangurinn af viðskiptunum við útlönd orðinn sáralítill því að sá jákvæði jöfnuður sem var þar á fyrri hluta ársins er að eyðast upp núna þessa mánuðina og svo mætti áfram telja.

Í heildina tekið er hér hægagangur í efnahags- og atvinnulífinu, viðvarandi atvinnuleysi, of lítil fjárfesting og ýmis fleiri alvarleg veikleikamerki. Þessum staðreyndum verður ekki eytt með yfirborðskenndri umfjöllun í greinargerð frv. til lánsfjárlaga eða efnisrýrum framsöguræðum.

Ég vek athygli á því út frá töflu sem hæstv. fjmrh. gerði að umtalsefni í sinni framsögu, ef ég tók rétt eftir, eða í töflunni á bls. 3 í frv. má lesa að stefnt er í þá ískyggilegu stöðu að skuldir heimilanna í landinu fari fram úr skuldum atvinnulífsins. Og ef svo heldur sem horfir þá eru líkur á að þessar línur skerist við lok þessa árs eða einhvern tíma á hinu næsta og þá verða heimilin orðin skuldsettasti aðili þjóðfélagsins ef þau eru tekin sem hópur, skuldsettari en atvinnulífið sjálft og það segir sína sögu um þá þróun sem hér hefur verið að eiga sér stað eða öfugþróun kannski á síðustu árum. Skyldi það nú ekki vera svo, herra forseti, að þessi þróun sé ekki tilviljun, að þarna séu að mælast með beinum hætti þær breytingar sem fylgt hafa hægri stefnunni hér á undanförnum árum, þ.e. stórkostlegar auknar álögur á almenning, flutningur skattbyrði af fyrirtækjum yfir á heimili og fjölskyldur, svo nemur milljörðum kr. eins og kunnugt er. Menn geta vissulega sagt að það hafi verið nauðsynlegt að bæta starfsskilyrði atvinnugreinanna og fyrirtækjanna, en við hljótum að setja spurningarmerki við þá aðferð að flytja þær byrðar allar saman einhliða yfir á almennt launafólk, yfir á heimilin með þeim afleiðingum sem hér blasa við. Ég verð að segja alveg eins og er að mér fannst hæstv. fjmrh. vera að reyna að komast fullbillega frá þessum staðreyndum. Hvað segir hæstv. fjmrh. um þá staðreynd að skuldir heimilanna í landinu stefna nú á fjórða hundrað milljarða kr. og fara innan skamms, ef að líkum lætur, fram úr skuldum atvinnulífsins? Ég held að það verðskuldi eins og nokkrar mínútur af athygli hæstv. fjmrh. að ræða þessar dapurlegu staðreyndir við okkur.

Ég tel einnig í þriðja lagi, herra forseti, að orðalag varðandi fjármögnun húsnæðiskerfisins sé satt best að segja tæplega boðlegt. Það vita allir sem eitthvað hafa fylgst með þessum málum að þar hafa orðið miklar sviptingar á undanförnum missirum og lýsa sér aðallega í því að á öndverðu sl. ári hættu pappírar Húsnæðisstofnunar með öllu að seljast og það var svo að Húsnæðisstofnun stefndi í þrot. Hún kom ekki út sínum bréfum og varð alfarið háð ríkissjóði með fjármögnun. Og hvernig skyldi þetta vera afgreitt í greinargerð með þessu lánsfjárlagafrv.? Það er á bls. 6, hv. þm., ef menn vilja taka eftir. Þar er aldeilis ekki verið að skafa utan af hlutunum eða hvað í orðalagi. Það er sagt hér, með leyfi forseta:

,,Stefnt er að því að Húsnæðisstofnun hefji aftur bein viðskipti við fjárfesta áður en langt um líður``.

Þetta segir mér satt best að segja ekki mjög mikið. Svo er sagt hér síðar að ríkissjóður hafi tekið að sér þessa fjármögnun og þá megi einnig nefna það að útgáfa húsbréfa hafi verið ívið minni það sem af er árinu en áætlað var, þ.e. að það hafi reynst minni þörf fyrir húsbréf eða eftirspurn eftir þeim. Svo segir: ,,Þetta kann þó að breytast síðari hluta árs þar sem félmrh. hefur lagt fram tillögur um að lánstími húsbréfa verði lengdur í allt að 40 ár, en talsverð óvissa er um hvaða vaxtakröfur markaðurinn gerir til slíkra verðbréfa. Þegar allt kemur til alls er gengið út frá því að eftirspurn eftir húsbréfum verði eins og heimilt er samkvæmt lánsfjárlögum fyrir 1995, eða um 13 milljarðar kr.``

Þetta er satt best að segja, herra forseti, ákaflega loðið orðalag og segir ekki mikið, nema þá helst að það vísi í einhvern ágreining milli fjmrn. og félmrn. um þessi mál, eða hvað er verið að gefa í skyn? Af hverju er félmrh. allt í einu dreginn þarna til sögunnar með þessum hætti og síðan bætt við að það fylgi því hins vegar mikil óvissa hvað verði um vaxtakröfu á markaðnum þegar slík bréf koma til sögunnar? Ég leyfi mér að inna nánar eftir því hvert er mat fjmrn. á þessum hlutum. Er hægt að lýsa eitthvað aðeins inn í þá þoku sem þarna er sett fram í textanum? Er fjmrn. þeirrar skoðunar að það muni verða óheyrileg afföll eða allt of háir vextir á þessum bréfum? Metur fjmrn. það svo að það sé ef til vill beinlínis óskynsamlegt að fara út í lengingu þessara lána? Hvernig metur fjmrn. almennt möguleika Húsnæðisstofnunar til þess að komast aftur inn á markaðinn og ná í gang viðskiptum með sín bréf? Þetta orðalag sem þarna er á ferðinni segir okkur bókstaflega ekki neitt. Þannig að ef hæstv. fjmrh. treystir sér til að veita einhverjar frekari upplýsingar um málið þá væri það æskilegt, þó að að öðru leyti geti þeir hv. þm. sem eiga sæti í hv. efh.- og viðskn. að sjálfsögðu farið betur yfir málin þar, en ég tel ekki óeðlilegt við 1. umr. að einhverjar almennar vísbendingar komi fram. Og þessi frágangur eða þessi umfjöllun um mjög stóran þátt í ríkisfjármálunum og á innlenda peningamarkaðnum, í raun og veru þann stærsta þar sem er fjármögnun húsnæðislánakerfisins, að því séu gerð eitthvað gleggri skil hér.

[14:15]

Þá eru, herra forseti, að lokum tveir efnisþættir sem varða lántökur einstakra aðila. Það er í öðru lagi batteríið Þróunarsjóður sjávarútvegsins, sem ég hef kallað samdráttar- og niðurskurðarsjóð sjávarútvegsins. Því í raun og veru snýst þessi sjóður um það að bera fé á menn til þess að draga saman í sjávarútvegi, að skuldsetja sjávarútveginn um marga milljarða kr. fram í tímann til þess að reyna að draga úr veltu og umsvifum í greininni eins og þau eru í dag og er að mínu mati einhver heimskulegasta ráðstöfun sem lengi hefur verið uppi í þessum efnum fyrir utan þá ótrúlegu forræðishyggju og miðstýringu sem í því felst að treysta ekki útgerðarmönnum og útvegsmönnum sjálfum fyrir því að taka ákvarðanir um það hvaða skip þeir eigi að hafa í rekstri og hvaða skip ekki og hvaða fiskvinnslustöðvar standi undir sér, hverjum þeirra sé hægt að finna verkefni og hverjum ekki.

Ég hef oft áður, herra forseti, spurt út í það hvað Sjálfstfl., flokkur einkaframtaksins og frelsi einstaklinganna til að taka sjálfstæðar ákvarðanir í atvinnumálumálum eins og öðru, ætli að halda lengi verndarhendi sinni yfir þessari forræðishyggju. Hvaðan kemur mönnum sú speki að einhver sjóður eða stjórnvöld séu betur til þess fallin að meta það hvort einhver skip gætu fundið verkefni, t.d. á fjarlægum miðum eða einhverjar fiskvinnslustöðvar nýst til einhverrar verðmætasköpunar eða ekki? Hér er enn gert ráð fyrir því að reka þetta batterí áfram með umtalsverðum lántökum eða upp á um 850 millj. kr. ef ég hef lesið rétt, á næsta ári og setja það á herðar greinarinnar í framtíðinni sem skuldir. Með öðrum orðum, það er verið að skuldsetja þá sem eru á lífi eða verða það á komandi árum innan greinarinnar í þessu sambandi. Mér er það mikið umhugsunarefni, herra forseti, hversu lengi menn ætla að viðhalda þessari vitleysu. Ég spyr hæstv. fjmrh.: Hefur þetta mál komið til skoðunar af hálfu fjmrn. sérstaklega? Auðvitað eru ýmsar ástæður fyrir því að hagsmunagæsluaðilar í sjávarútvegi og sjóðakóngar, þeir sem eiga hagsmuna að gæta í formi lánveitinga til greinarinnar vilji viðhalda þessu kerfi því að þarna eru þeir einfaldlega að ná fjármunum út úr greininni með þessum hætti. Því miður fer minnst af þessu til sjávarútvegsins sjálfs heldur ganga þessir fjármunir til rekstraraðila framtíðarinnar sem þarna eru á ferðinni, þeir ganga auðvitað til ýmissa aðila sem sjávarútvegurinn skuldar þessa peninga í dag. Það væri fróðlegt að heyra það hvort fjmrn. eða hæstv. fjmrh. hafi litið eitthvað á þetta mál sérstaklega eða þetta sé bara gersamlega mött ávísun sem gangi þarna yfir á milli ráðuneyta.

Að síðustu, herra forseti, er það gamall kunningi, Flugstöð Leifs Eiríkssonar, og veit ég ekki hvers sá mæti maður á að gjalda að þetta skuli vera nefnt eftir honum eins og fjármálunum er þar komið. Er það meiningin að láta ný fjögur ár líða þannig að þetta verði haft afvelta áfram eða hvað er þarna á ferðinni? Það á auðvitað að taka lán einu sinni enn til þess að endurlána og fjármagna halla og afborganir eldri lána. En hvað þýðir það? Það er verið að velta boltanum á undan sér. Ég sé ekki að þarna sé verið að vísa í neina tilraun til þess að taka á málum. (Gripið fram í.) Standi það til að einkavæða tapið er það náttúrlega nýbreytni. Það hefur verið venjan að einkavæða og gefa gróðafyrirtækin en láta ríkið sitja uppi með tapið þannig að það væri nýbreytni ef menn fyndu formúlur á því að einkavæða tapið í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Ég lýsi náttúrlega eftir þeim einkaaðilum sem eru tilbúnir til þess að taka þetta að sér. En staðreyndin er sú að þessi bygging var tekin í notkun í aprílmánuði 1987 og það lá svo mikið á að opna hana fyrir kosningarnar af þáverandi toppum Sjálfstfl. að það var unnið dag og nótt. Sumir veggir voru hlaðnir upp þrisvar, það varð brjóta þá niður tvisvar áður en þeir komust á réttan stað í byggingunni af því að það lá svo mikið á, það var ekki tími til að mæla fyrir þeim. Þessi vitleysa kostaði ómældar fjárhæðir, hundruð millj. ef ekki milljarða kr. og það er nógu mikið hneyksli hvernig að því var staðið. Hitt er náttúrlega enn hörmulegra að sjá þetta veltast síðan undan mönnum sem stækkandi snjóbolta og engin tilraun gerð til þess að taka á því. Hvað var mönnum að vanbúnaði, t.d. í síðustu ríkisstjórn, þegar menn áttu alla þá ráðherra þar sem til þess þurfti að taka eitthvað á þessu? Hvernig stendur á því að þetta kemur hér enn á ný í þessum búningi? Um þetta fóru fram umræður hér bæði fyrir tveimur árum og síðan aftur á síðasta ári ef ég man rétt og þá þóttust menn vera eitthvað að undirbúa það að taka á þessu. Það voru gerðar skýrslur, það átti að reyna að finna tekjustofna úr þjónustunni sjálfri til að standa undir þessu en hér er sem sagt enn á ný verið að lengja í snörunni eða velta boltanum á undan sér með þessum hætti.

Ég vil spyrja hæstv. fjmrh. um þetta. Nú sé ég að hæstv. fyrrv. utanrrh. ókyrrist í salnum, herra forseti, og það kann að vera sökum þess að honum renni blóðið til skyldunnar, hafandi borið ábyrgð á þessu sulli í ein átta ár og það er fróðlegt að fá hann inn í skoðanaskipti um þetta og mjög gagnlegt og ég fagna því að hv. þm. hefur beðið um orðið.

Það síðasta sem ég ætlaði að nefna í þessu sambandi er atriði sem oft áður hefur borið á góma og ég heyrði nefnt í fjölmiðlum fyrir nokkru síðan og það var spurningin um hvort stjórnskipulegri stöðu þessa rekstrar í flugstöðinni verður breytt. Núv. hæstv. samgrh. er loksins kominn á þá skoðun eins og reyndar fleiri hafa verið sem því embætti hafa gegnt að það væri náttúrlega eðlilegast að samgrn. færi með þetta mál og færi með forræði fyrir þessum samgöngumannvirkjum í landinu eins og öðrum slíkum. Ég vil spyrja hæstv. fjmrh. eftir því hvort það gæti orðið einhver liður í endurskipulagningu og lausn þessara mála að þetta færðist þangað til og hvort hæstv. fjmrh. gæti stutt það að ef til þess kæmi að það yrði einnig hluti af því að taka á málum varðandi Flugstöð Leifs Eiríkssonar að fela e.t.v. samgrh. forræði fyrir málinu og þá kannski velta vandanum yfir á hann að taka á þessu. Ég sé ekki að mikill skaði sé skeður þó menn reyndu það því að það er búið að láta utanríkisráðherrana og fjármálaráðherrana glíma við þetta árangurslaust í mörg herrans ár. Út úr því hefur ekkert komið þannig að ég held að það gæti varla verið verra a.m.k. að prófa þá skipun mála.

Um þessi atriði, herra forseti, óska ég að hæstv. fjmrh. tjái sig.