Lánsfjárlög 1996

Þriðjudaginn 17. október 1995, kl. 14:27:16 (345)

1995-10-17 14:27:16# 120. lþ. 13.4 fundur 43. mál: #A lánsfjárlög 1996# frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hafði hugsað mér að taka inn örfá efni en ég held að það sé ágætt að taka eingöngu Flugstöð Leifs Eiríkssonar fyrst hún ber á góma. (SJS: Hana ber á góma.) Hana ber á góma, ætlaði ég að segja. Ég biðst afsökunar á því. (SJS: Leifur var karlkyns.) Já, já, Leifur var karlkyns, getum við verið sammála um, held ég örugglega. Að vísu er hv. þm. sjálfsagt öruggari í þeim efnum en ég eftir síðustu reynslu. En án gamans vil ég staðfesta að ég er sammála fyrrv. utanrrh. og fyrrv. samgrh. um að það þarf að taka á þessum vanda sem er búinn að búa með okkur í mörg ár. En markmiðið hlýtur að vera að reksturinn á þessari stöð standi undir afborgunum og lánum og lauslegir útreikningar sýna okkur að það þurfi að vera hægt að ná framlagi sem svarar til 300 millj. á ári og það er unnið að því núna á milli ráðuneytanna þriggja, fjmrn., samgrn. og utanrrn. að finna lausn á þessu máli. Það veit hv. þm., fyrrv. utanrrh. Jón Baldvin, að ég hef fyrir mína parta alveg getað hugsað mér að málið færi yfir til samgrn. en aðalatriðið í mínum huga er að það fáist viðunandi lausn á þessu máli og að því er stefnt og ég hygg að það eigi að geta tekist samkomulag um það á næstunni.

Að sjálfsögðu kemur til greina að nota einkavæðingu í rekstri ýmissa fyrirtækja innan flugstöðvarinnar. Það hefur verið gert víða annars staðar og skilað ágætum árangri og það er líka alveg ljóst að það verður ekki hægt að ná þessum fjármunum til þess að greiða niður byggingarkostnaðinn á þeim tíma sem það þarf að gera án þess að nota einhverjar tekjur sem koma af farþegum og jafnvel að hækka leigugreiðslur þeirra sem eru til húsa í flugstöðinni eins og Fríhafnarinnar.