Fjárlög 1996

Þriðjudaginn 17. október 1995, kl. 16:12:32 (358)

1995-10-17 16:12:32# 120. lþ. 13.7 fundur 1. mál: #A fjárlög 1996# frv., KÁ
[prenta uppsett í dálka]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Við höldum nú áfram umræðunni um fjárlög ársins 1996 og þó að hæstv. fjmrh. hafi setið fyrir svörum í allan dag að þá er ástæða til að bjóða hann velkominn heim af fundi Alþjóðabankans. Ég vona að hann hafi þar tekið þátt í eða orðið vitni að umræðunni um aukin fjárframlög til kvenna og til atvinnumála kvenna í heiminum því að á kvennaráðstefnunni í Kína fyrir rúmum mánuði hafði forseti Alþjóðabankans uppi fögur orð um það að veita auknu fjármagni til kvenna og ég vona að það hafi komið til umræðu á þessum fundi og vonandi að hæstv. fjmrh. geti upplýst okkur um þær umræður og hvað er fram undan í þeim efnum og ekki síst ef að við gætum nú einhvers notið hér á landi.

Hæstv. forseti. Með því frv. sem hér er komið fram er hæstv. fjmrh., Friðrik Sophusson, að leggja fram sitt fimmta fjárlagafrv. Í upphafi umræðunnar og upphafi frv. er því lýst yfir að eitt meginmarkmið ríkisstjórnarinnar sé að ná hallanum á ríkissjóði niður á tveimur árum. Mér varð hugsað til þess þegar ég sá þessa setningu að nú hlýtur að koma fram tillaga um það að hæstv. fjmrh., Friðrik Sophusson, fái bjartsýnisverðlaun Bröstes því að hann setti fram nákvæmlega sömu skoðun og sömu ósk og áætlun fyrir fjórum árum við upphaf hinnar nýju viðreisnarstjórnar eða Viðeyjarundursins. Þá fór það þannig að á þeim fjórum árum sem að sú stjórn sat við völd náði hallinn á ríkissjóði tæpum 40 milljörðum kr. Það áform að ná ríkissjóðshallanum niður á tveimur árum snerist upp í andhverfu sína og hallinn jókst með hverju árinu sem leið þar til á síðasta ári þess kjörtímabils að heldur fór að draga úr. Hér er svo ótrúleg bjartsýni á ferðinni að ég veit ekki hvað hæstv. fjmrh. sér út um sína glugga. Það er alla vega heiður himinn. En ég held að það sé ekki ástæða til svo mikillar bjartsýni. Ég vona svo sannarlega að það takist að ná niður hallanum á ríkissjóði en ég held að þessi tveggja ára áætlun sé helst til mikil bjartsýni og ég veit svo sem ekki hverjum er greiði gerður. Auðvitað á ríkisstjórnin að setja sér markmið og reyna að beita ströngu aðhaldi í sínum rekstri, en ég held og hygg að þetta sé einum um of.

[16:15]

Ég spyr hæstv. fjmrh.: Hvað bendir til þess sérstaklega að þetta takist nú þrátt fyrir að við erum að horfa upp á ákveðinn efnahagsbata? Trúir hann því virkilega að það takist að ná ríkissjóðshallanum niður á tveimur árum miðað við þróun undanfarinna ára því að þá hafi hallað undan fæti og tekjusamdráttur ríkisins orðið mikill og meiri en menn höfðu vænst og atvinnuleysi fór vaxandi með hverju árinu hefur ekki birt það mikið til í efnahagslífinu og staða ríkissjóðs er ekki með þeim hætti að miklar líkur séu á að þetta takmark náist þó að eitthvað kunni að stefna í þá átt?

Í fjárlagafrv. eru býsna athyglisverðar vangaveltur um stefnumörkun í ríkisfjármálum og hugmyndir um að sýna fjárlög til lengri tíma, að horfa ekki bara svona eitt ár í senn eins og hér hefur verið gert, ég hygg frá því að Alþingi Íslendinga fékk fjárlagavaldið. En það er auðvitað mjög þarft að menn geri sér grein fyrir því hvað er fram undan, hvaða reikningar falla á ríkissjóð á komandi árum, hvað sú þjóðfélagsþróun sem er fyrirsjáanleg í útgjöldum og kostnaði ríkisins boðar. Því vil ég fagna því að þessi umræða er hafin í fjárlagafrv. og hún gefur auðvitað kost á því að ræða um markmið og leiðir í efnahagsmálum. Hér eru m.a. athyglisverðar vangaveltur um það sem þeir kalla kynslóðareikninga sem er auðvitað það að menn gera sér grein fyrir því að eyðsla samtímans kemur niður á framtíðinni og það kemur að því að það þarf að borga alla þessa reikninga. Því er ekki að leyna að það eru ýmsar tifandi tímasprengjur í okkar kerfi. Ég nefni þar t.d. lífeyrismálin sem eiga eftir að verða gífurleg byrði á ríkissjóði og í rauninni veit enginn hvernig á að leysa í framtíðinni. Dettur mér þá í hug þegar ýmsir fræðimenn og hagfræðingar Alþýðusambandsins eru að tíunda hin miklu lífeyrisréttindi alþingismanna að mér segir svo hugur um að þegar ég kemst á elliár ásamt ýmsum fleiri þingmönnum sem hér eru verði kannski ekki orðið mikið eftir í þessum sjóðum eða ég hygg að það verði búið að breyta þessu kerfi öllu saman þegar þar að kemur. En það er auðvitað framtíðarmúsik að velta því fyrir sér hvernig þau mál muni öll fara.

Annað slíkt dæmi og kannski langsamlega stærsta spurning sem við stöndum frammi fyrir í efnahagslífi okkar, ekki bara á næstu árum heldur akkúrat hér og nú er hvernig við eigum að reka velferðarkerfi okkar sem lítur þannig út og allar líkur benda til að öldruðum muni fjölga jafnt og þétt. Það þýðir að þeir sem eru fullvinnandi og borga sína skatta þurfa að standa undir allri þeirri þjónustu sem við eigum auðvitað að veita öldruðum, sjúkum og öryrkjum og hvernig ætlum við að gera þetta? Hvernig ætlum við að reka þetta kerfi? Hvaða þjónusta er nauðsynleg? Hvað er eðlilegt að einstaklingarnir borgi sjálfir? Hvað ræður þetta litla samfélag okkar við? Og þá auðvitað sú spurning: Er hægt að reka þetta kerfi á skynsamlegri hátt? Ég ætla að koma aðeins betur að því á eftir.

Á síðasta ári gerði ég að umræðuefni við fjárlögin og þetta fjárlagadæmi allt saman þær forsendur sem Þjóðhagsstofnun gefur sér varðandi áætlanir fyrir næsta ár. Mér sýnist að við séum í sömu sporum og þá að menn séu að gefa sér að það verði veiðar í Smugunni og síldveiðar verði svo og svo miklar, loðnuveiðar allverulegar og þorskveiðar svona með svipuðum hætti og verið hefur og allt er þetta auðvitað með ákveðnu spurningarmerki um það hvort það gengur eftir. Það þarf ekki mikið út af að bregða til þess að þessar forsendur bresti. Hins vegar eru ákveðin batamerki og ýmislegt jákvætt að gerast eins og sá vöxtur sem hefur verið í ferðaþjónustu og vöxtur sem heldur áfram. Iðnaðurinn er að rétta úr kútnum og útflutningur á ýmsum sviðum að aukast. Íslensk fyrirtæki eru í sífellt auknum mæli að leita að möguleikum í öðrum löndum og er þegar farið að skila árangri. Ég held að við getum sagt sem svo að sá samdráttur sem við höfum gengið í gegnum á undanförnum árum hafi leitt til þess að menn hafa leitað nýrra leiða, menn hafa endurskipulagt rekstur fyrirtækja og menn hafa leitað nýrra leiða en betur má ef duga skal.

Samkvæmt spá Þjóðhagsstofnunar verður atvinnuleysi mjög svipað og verið hefur, ívið minna er þeirra spá. Það má geta þess að það kom fram á fundi okkar í félmn. í gær þar sem við vorum að ræða við fulltrúa frá vinnumálaskrifstofunni að allra nýjustu tölur yfir atvinnuleysi í september virðast benda til þess að það sé heldur að draga úr því miðað við september á síðasta ári og það er auðvitað mjög ánægjulegt ef svo er. En hvort það er varanlegur bati er ekki gott að segja. Við þurfum að taka okkur verulega á í því að skapa störf í samfélaginu og að styrkja og styðja þá sem eru að leita að nýjum möguleikum og það þarf að gera miklu betur.

Það er bent á það í fjárlagafrv. að á þessu ári hafi orðið til 1.600 ný störf og það er ákveðin breyting sem átt hefur sér stað að störfum er tekið að fjölga á ný eftir mikinn samdrátt. Þetta er auðvitað enn eitt batamerkið en við horfum samt upp á að mörg þúsund manns, ég hygg að það séu allt að 6.000 manns, ganga um atvinnulausir og sú staðreynd er mjög athyglisverð að atvinnulaus ungmenni í Reykjavík, fólk á aldrinum 16--24 ára, eru um 800. Það eru um 800 ungmenni, fólk á skólaaldri og fólk sem er að koma úr skólum og er að leita sér að vinnu, sem fær ekki vinnu við sitt hæfi. Þetta er auðvitað mjög alvarlegt mál sem þarf að taka sérstaklega á. Það eru reyndar uppi hugmyndir um sérstök verkefni á því sviði en niðurstaða mín er sú eftir að hafa gluggað í fjárlagafrv. að í rauninni sé vinna ríkisstjórnarinnar hvað varðar aðgerðir gegn atvinnuleysinu allt of handahófskennd og þar þurfi að gera miklu betur en stendur til. Það lýsir sér m.a. í því að ríkisstjórnin ætlar að treysta á að það sé það mikill bati úti á vinnumarkaðinum að ríkisvaldið geti leyft sér að draga saman seglin í framkvæmdum og skera m.a. niður framlög til vegamála og til ýmissa annarra þátta. Ég dreg stórlega í efa að það sé tímabært að draga úr framkvæmdum ríkisins og ríkisvaldinu ber skylda til þess að halda uppi vinnu þegar ástandið er jafnalvarlegt og raun ber vitni. Við megum ekki sætta okkur við atvinnuleysi. Við megum ekki venjast því að þúsundir manna gangi um atvinnulausar og ríkisvaldinu ber með sveitarfélögunum að eiga ákveðið frumkvæði með því að draga úr atvinnuleysinu og grípa til allra hugsanlegra ráða og ekki síst þeirra sem duga til langframa. Þar verður mér að sjálfsögðu fyrst og fremst starsýnt á menntun og þá möguleika sem þar felast vegna þess að greining á tölum og hinum atvinnulausum sýnir að þar er fyrst og fremst um ófaglært fólk að ræða. Þá spyr maður auðvitað: Eru til möguleikar annars staðar og hvað er hægt að gera til þess að nýta þá?

Auðvitað eru þeir til og ég vil í því samhengi minna á hugmyndir Jóns Erlendssonar um þá gífurlegu möguleika sem felast í tölvutækninni sem auðvelda alla upplýsingaöflun og leita að alls konar möguleikum sem er að finna í atvinnumálum.

Hæstv. forseti. Í fjárlagafrv. eru rakin ýmis helstu markmið og áherslur ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum og þar er margt mjög athyglisvert og margt sem vekur spurningar. Margt lítur vel út við fyrstu sýn en þegar farið er að kafa á bak við kemur annað í ljós. Á bls. 242 í frv. eru talin upp nokkur slík atriði sem ríkisstjórnin ætlar að beita sér fyrir og þar er byrjað á því að nefna það að nú eigi að afnema sjálfvirkni í ríkiskerfinu sem þýðir það að hækkanir á útgjöldum og í sköttum og bótum sem hingað til hafa orðið nokkuð viðstöðulaust verði teknar úr sambandi. Þetta er vissulega atriði sem vert er að ræða og allar þær vísitölutengingar sem tíðkast og sem leiða til þess ef það verður hækkun á ákveðinni vöru í samfélaginu eða jafnvel á innfluttri vöru þá verður þetta til þess að hækka öll lán í landinu. Þetta er auðvitað kerfi sem nær ekki nokkurri átt. Verður mér þá hugsað til þingmannsins Eggerts Haukdals sem horfinn er hér úr þessum sölum og flutti frv. um það að taka þessa vísitölu úr sambandi ár eftir ár og hlaut aldrei fylgi, sérstaklega ekki í sínum eigin flokki.

En bak við það áform um að afnema þessa sjálfvirkni felst auðvitað að þetta bitnar á öryrkjum og gömlu fólki og ýmsum fleirum sem hingað til hafa fengið hækkanir sem tengst hafa m.a. kjarasamningum og því þegar verið er að uppreikna þessar upphæðir.

Ég er ekki að segja það eins og ég var að rekja hér að þetta sé eitthvað sjálfsagt. En mér finnst í rauninni miklu nær að fara ofan í þessar bætur og skoða hverjir fá bætur og hvaða bætur. Mér verður þar hugsað t.d. til barnabóta sem er kannski viðkvæmt mál og auðvitað grundvallarspurning hvort allir foreldrar eigi að fá barnabætur eða hvort ákveðinn hóp af foreldrum munar í raun og veru nokkuð um þessar 1.500 eða 2.000 kr. sem verið er að senda þeim. Ég þekki einmitt dæmi um fólk sem spyr: Hvað er verið að senda mér 1.500 kr. tvisvar á ári, fullvinnandi og vellaunuðu fólki meðan verið er að skerða bætur til öryrkja og ellilífeyrisþega? Það er auðvitað miklu nær að skoða tekjutengingar sem tengjst þessu en ráðast á hinn endann og vera að skerða hjá þeim sem verst standa.

[16:30]

Þá kemur ríkisstjórnin hér að sparnaði í rekstri. Þar verður að segjast eins og er að velflest þau sparnaðaráform sem ríkisvaldið hefur lagt út í, þ.e. hin stærri áform, hafa meira og minna runnið út í sandinn. Það er einmitt alltaf verið að sækja þessar stóru upphæðir í aukafjárlögum eins og við sáum dæmi um hér áðan. Að vísu eru dæmi um töluverðan niðurskurð á ýmsum póstum og m.a. hefur orðið verulegur niðurskurður í landbúnaðarmálum. En ýmis sparnaðaráform sem hafa verið áætluð, og þar er ég sérstaklega að hugsa um tryggingamálin, hafa ekki tekist. Þau hafa einfaldlega ekki tekist og á hverju einasta ári kemur beiðni um aukafjárveitingu upp á allt að milljarð kr. vegna þess að sparnaður hefur ekki tekist. Í skýringum í fjárlagafrv. og í því frv. til aukafjárlaga sem hér liggur fyrir er einmitt víða verið að rekja það að beðið er um fjárveitingar vegna þess að sparnaður náðist ekki fram.

Því miður eru menn oft með mjög óraunhæfar hugmyndir um það hvað hægt er að spara. Þar vil ég sérstaklega koma að heilbrigðiskerfinu og enn á ný að tíunda þá skoðun mína að verulegum og varanlegum sparnaði í heilbrigðiskerfinu verði ekki náð öðruvísi en að stórauka forvarnir. Það er eina leiðin til að ná fram verulegum og langvarandi sparnaði að nálgast málið frá þeirri hlið að spyrja hvernig er hægt að draga úr aðsókn að heilbrigðiskerfinu. Það er ekki gert með því að hækka lyfin og loka deildum heldur með því að bæta heilsu landsmanna. Það er leiðin. Ég get boðað það hér að ég hef í huga að leggja fram till. til þál. með hugmyndum um það til hvaða aðgerða eigi að grípa til að ná þessum sparnaði. Það er þegar búið að skera niður í heilbrigðiskerfinu til hins ýtrasta og m.a. stóru sjúkrahúsin hér í Reykjavík hafa sagt það hvað eftir annað að lengra verði ekki gengið, lengra verði ekki gengið í rekstrinum og þar horfir víða til mikilla vandræða. Við horfum t.d. í sumar upp á lokanir á geðdeildum Landspítalans sem leiddi til þess að heilbr.- og trn. fór þangað í heimsókn og kynnti sér stöðu mála. Þar er auðvitað verið að ráðast á garðinn þar sem hann er lægstur. Það er verið að ráðast á garðinn þar sem hann er lægstur þegar þessi sparnaður bitnar beint á sjúklingum. Hér á auðvitað enn einu sinni að höggva í sama knérunn. Nú á að taka upp innritunargjöld á sjúkrahúsum og það eru sjúklingar, ekkjur og öryrkjar sem verða fyrir þessari ríkisstjórn eins og þeirri fyrri þegar á að leita leiða til sparnaðar.

Og maður spyr: Eru ekki til aðrar leiðir? Er ekki hægt að spara annars staðar? Það verður að segjast eins og er að það er ekki alls staðar feitan gölt að flá. Ég tel t.d. að þó ýmsir séu að benda á menntakerfið þá komi ekki til greina að spara meira í íslensku menntakerfi heldur en gert hefur verið heldur þarf þar að auka fjárveitingar vegna þess að í gegnum aukna og bætta menntun liggur leiðin til betra þjóðfélags og til þess að bæta ástandið í ríkisfjármálum. Það stefna allar þjóðir að því að auka og bæta menntun í sínu samfélagi og það er sú leið sem við eigum að fara. Þetta þýðir að sjálfsögðu að það er erfitt að skera niður. En ég vil þó benda á það sem ég hef margoft gert og tengist forvörnum í heilbrigðiskerfinu, að slys í okkar samfélagi, bara slys, kosta samfélagið 10 milljarða kr. á ári, 10 milljarða. Það er öllum ljóst að það er mjög margt hægt að gera í slysavörnum til að draga úr þessum gríðarlega kostnaði og því ógurlega tjóni sem samfélagið allt verður fyrir. Minni ég þar ekki síst á slys á börnum.

Hæstv. forseti. Það eru ýmis mál sem ég vildi taka til umræðu en margt af því má bíða betri tíma. Ég hafði t.d. hugsað mér að ræða aðeins um búvörusamninginn og þá miklu peninga sem fara til landbúnaðar og munu fara. En ég ætla að geyma mér það enda getur svo farið að breyting á búvörulögunum verði hér til umræðu á morgun eða hinn.

Það væri líka ástæða til að fara miklu nánar ofan í þá miklu skattlagningu sem fram undan er hjá sjúklingum og hvað þessar breytingar þýða fyrir öryrkja og ekkjur. Eitt af því sem ég er t.d. alveg tilbúin að skoða eru ekknabætur. Mér er sagt að það sé búið að afnema bætur til ekkna á öllum Norðurlöndunum og kannski er þetta eitt af þessu sem tilheyrir fortíðinni. En það þarf þó að skoða það mjög rækilega hvað þetta þýðir. Hvað er þetta stór hópur og hvaða hópur? Erum við að tala um sjómannsekkjur eða hvað erum við að tala um? Ég sé að hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson sperrir eyrun. Hann þekkir eflaust vel þá hlið sem snýr að sjómannastéttinni. Sem betur fer hefur dregið mjög úr sjóslysum með bættu öryggi og betri skipum. En þetta er einmitt eitt af því sem þarf að athuga rækilega.

Hæstv. forseti. Ég vil, ekki síst af því að hæstv. heilbrrh. situr hér, aðeins nefna eitt mál sem mér er mjög annt um og það er fyrirhuguð hækkun á glasafrjóvgunum, þ.e. að þeir sem fá að fara í glasafrjóvgun þurfa hugsanlega að borga helmingi meira eftir að þessi fjárlög ganga í gildi, þ.e. 200 þús. kr. í staðinn fyrir 100 þús. kr. Þarna er auðvitað spurningin um það hvernig þessi sérstaka aðgerð í heilbrigðiskerfinu er flokkuð. Flokkast það undir sjúkdóm að geta ekki eignast börn eða er þarna um að ræða aðgerð sem sjálfsagt er að borga fyrir eins og ýmislegt sem fólk er látið borga fyrir í heilbrigðiskerfinu eins og fegrunaraðgerðir af ýmsu tagi? Ég verð að játa það að eftir að hafa átt fund með því fólki sem tengist þessum málum þá skipti ég algerlega um skoðun á þessum málum. Ég hafði verið þeirrar skoðunar að þetta væri eitt af því sem fólk þyrfti bara að sætta sig við í lífinu og það væri oft býsna óeðlileg áhersla á það í okkar samfélagi að það gæti enginn lifað lífinu nema eiga börn. En það var mjög raunalegt að heyra margar þær sögur sem þetta unga fólk, fyrst og fremst mjög ungt fólk, hafði að segja um þær raunir sem það gengur í gegnum og það gríðarlega sálræna álag sem þessu fylgir. Þannig að mér finnst nú sannast að segja alveg nóg að gert að fólk borgi 100 þús. kr. fyrir slíka aðgerð. Ég hef reyndar líka heyrt það sjónarmið frá þeim sem vel þekkja til í þessum málum að sumir séu tilbúnir til að greiða meira ef það verður til þess að bæta þá þjónustu sem þarna er veitt, ef það verður til þess að deildin verður stækkuð og betur að henni búið þannig að hún geti sinnt fleiri aðgerðum. En mín skoðun er sú að hér sé um mjög mikla og mjög óeðlilega hækkun að ræða og tengist einmitt þessari spurningu: Hvernig skilgreinum við aðgerð af þessu tagi?

Það liggur fyrir að árangur í glasafrjóvgunum er mun betri hér á landi heldur en víðast hvar annars staðar og það hefur verið bent á það að þarna sé einmitt tækifæri til þess að veita öðrum en Íslendingum þjónustu og það sé þá fólk sem sé reiðubúið til að borga þá þjónustu fullu verði. Vissulega þarf að kanna þá möguleika. Það gerist auðvitað ekki öðruvísi en að betur verði búið að þessari deild. Ég beini þeirri spurningu til hæstv. heilbrrh.: Er hún ákveðin í því að láta þessa hækkun ganga fram eða er hún reiðubúin til að skoða málið? Finnst henni sanngjarnt að þessi hópur fólks borgi svona háa upphæð fyrir þessa aðgerð? Hvað er það sem réttlætir svona mikla hækkun? Þetta er 100% hækkun.

Að síðustu, hæstv. forseti. Eins og ég nefndi þá væri ástæða til þess að fara mun ítarlegar út í ýmis mál hér. Ég get ekki yfirgefið þennan ræðustól án þess að minnast á þau áfrom hæstv. dómsmrh. að hætta við að greiða brotaþolum, þeim sem orðið hafa fyrir kynferðislegum afbrotum, að hætta að ganga í ábyrgð fyrir þær bætur sem þeir eiga að fá. Ég hlýt að skora á hann að hætta við að hætta --- sem sagt að þessar bætur verði greiddar. Þetta er mikið og þarft mál og ekki síst ef maður hefur í huga allar þær hörmungar sem þarna búa að baki.

Að lokum tvennt sem ég vil beina til hæstv. fjmrh. Í fjárlagafrv. er gert ráð fyrir að fjármagnstekjuskattur verði leiddur í lög og fari að skila ríkissjóði tekjum á næsta ári. Mig langar að spyrja hæstv. fjmrh.: Hvenær hann væntir þess að sú nefnd sem verið hefur að störfum skili af sér og býst hann við því að þetta nái nú fram að ganga þó það sé gert ráð fyrir því í fjárlagafrv.? Er málið þannig statt? að líkur bendi til þess að svo verði eða eigum við að horfa upp á það hér enn eitt árið að þessum skatti verði frestað?

Önnur spurning til hæstv. fjmrh.: Það kemur fram í þessum markmiðum fjmrn. að hæstv. fjmrh. og hans ráðuneyti hefur hug á að hefja ýmiss konar nýskipan í ríkisrekstri og hann ætlar á morgun að svara mér spurningum um samningsstjórnun og þann árangur sem það form hefur skilað. En ég spyr hæstv. fjmrh.: Hvað líður annarri uppstokkun í ríkisrekstrinum? Ég sakna þess að það er ákaflega lítið um tillögur um slíka uppstokkun og ég minni þar enn á t.d. embætti húsameistara ríkisins og ýmislegt fleira sem setja má spurningarmerki við. Það vekur auðvitað ekki síst athygli að nú er orðið fátt um einkavæðingaráform. Og þó ég sé ekki sérstaklega að auglýsa eftir slíkum áformum þá þykir mér nú Bleik brugðið þegar hæstv. fjmrh. er hættur að gera ráð fyrir nokkur hundruð milljónum í einkavæðingu. Það kann að vera að það hafi farið fram hjá mér í frv., ég er ekki búin að lúslesa það nógu vel, en ég spyr hæstv. fjmrh.: Hver er stefna þessarar ríkisstjórnar í einkavæðingarmálum? Hvað ætlar hún sér miklar tekjur vegna einkavæðingar á næsta ári fyrir utan áformin um ríkisbankana, sem ég reikna ekki með að verði ekki seldir á næsta ári þó hugsanlega takist að breyta þeim í hlutafélagabanka. Hver eru áform ríkisstjórnarinnar í þeim efnum?

Ég ætla að láta önnur mál bíða hér til 2. umr. og ýmissa mála sem hér munu verða á dagskrá á næstu dögum og vikum.