Fjárlög 1996

Þriðjudaginn 17. október 1995, kl. 16:48:44 (360)

1995-10-17 16:48:44# 120. lþ. 13.7 fundur 1. mál: #A fjárlög 1996# frv., KÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka]

Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hæstv. heilbrrh. fyrir þessi svör. Ég veit að í henni á ég bandamann hvað varðar forvarnir. Ég hef eins og ég nefndi hér áðan í huga að koma hugmyndum mínum og okkar kvennalistakvenna á framfæri hvað það varðar. Hún nefndi hér sérstakt átak í forvörnum hvað varðar áfengi og fíkniefni. Og það er auðvitað mjög ánægjulegt og veitir ekki af en það þarf líka átak á miklu fleiri sviðum. Ég held einmitt að þessi upphæð sýni að forvarnirnar kalla á svolítið fé en þetta er svo fljótt að skila sér í betri heilsu, færri slysum og ýmsu fleiru að ég held einmitt að þetta sé leiðin. Hæstv. fjmrh. á að ýta undir það og styðja það að þessi leið sé farin.

Varðandi ýmsar þær upplýsingar sem fram komu í máli hæstv. heilbrrh. þá kalla þær auðvitað á nána skoðun á meðferð viðkomandi mála, t.d. glasafrjóvganir. Eins og ég nefndi er þetta spurningin um það hvernig aðgerðir af því tagi eru flokkaðar. Er þetta sjúkdómur og er eðlilegt að fólk greiði fyrir aðgerðir af þessu tagi? Það er mál sem þarf auðvitað að skoða. Og eins og ég segi, mér finnst vera farið mjög bratt í að hækka þessa upphæð.