Fjárlög 1996

Þriðjudaginn 17. október 1995, kl. 16:50:33 (361)

1995-10-17 16:50:33# 120. lþ. 13.7 fundur 1. mál: #A fjárlög 1996# frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla nú að koma síðar að ýmsum efnisatriðum í ræðu hv. þm. en það eru tvö, þrjú sem ég tel ástæðu til að svara strax í þessu andsvari. Í fyrsta lagi um ríkisrekstur og einkavæðingu þá kom það skýrt fram í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar að hún hyggst gera áætlun um verkefni á sviði einkavæðingar og áhersla er lögð á að breyta rekstrarformi ríkisviðskiptabankanna og fjárfestingarlánasjóða. Þetta á einnig við um stofnanir í eigu ríkisins sem eru í samkeppni við einkaaðila og það verður unnið að sölu þessara fyrirtækja á kjörtímabilinu í samræmi við ákvarðanir Alþingis. Þannig að þessi ríkisstjórn mun fylgja fram einkavæðingarstefnu samkvæmt þeirri áætlun sem á eftir að birta.

Í öðru lagi var spurt um fjármagnstekjuskatt. Ég veit ekki betur en að sú nefnd sem þar er að störfum og Kvennalistinn á aðild að sé að störfum á lokastigi og ég á von á því að það komi álit í þessum mánuði eða í síðasta lagi þeim næsta og að því loknu fer álitið til ríkisstjórnarinnar sem mun þá hafa hitann í haldinu. Við gerum ekki ráð fyrir í sjálfu frv. að það komi tekjur á næsta ári enda er hugsanlegt að tekjunum verði varið til skattalækkunar á öðrum sviðum. Það verður að skoðast betur ef svo fer, og mætti þá skoðast af nefnd sem starfar á næsta ári og fer reyndar af stað núna í lok þessa mánaðar undir forustu Ólafs Davíðssonar í samráði og samvinnu við aðila vinnumarkaðarins og lýkur störfum í lok næsta árs.

Þegar spurt er hvort þetta fjárlagafrv. standist, vil ég benda á nokkur atriði. Í fyrsta lagi er gengið út frá því að kjarasamningar séu út næsta ár þannig að það er ekki sú óvissa fyrir hendi. Það veit engin hvort það næst fram. Ríkisstjórnin hefur góðan meiri hluta og hún hefur skuldbundið sig til að eyða þessum halla á tveimur árum. Loks ætla ég að minna á það að í fyrirliggjandi frv. til fjáraukalaga árið 1994 kom í ljós að hallinn á fjárlögum það árið var tveimur milljörðum lægri en í fjárlögum þessa árs. Þannig að það er ekkert einsdæmi að árangur náist og hefur stundum í raun orðið betri heldur en áætlanir voru þegar fjárlög voru samþykkt.