Fjárlög 1996

Þriðjudaginn 17. október 1995, kl. 16:54:21 (363)

1995-10-17 16:54:21# 120. lþ. 13.7 fundur 1. mál: #A fjárlög 1996# frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég heyri efasemdir hv. þm. En ég get bætt því við að við reynum auðvitað að læra af reynslunni. Ég held hins vegar, og það skiptir kannski mestu máli og er þá sama í hvaða flokki við erum, að við eigum ekkert val lengur í þessum efnum. Við getum ekki lengur skuldsett þessa þjóð fram í tímann. Við getum ekki lengur eytt um efni fram, ríkissjóður getur það ekki. Því með því erum við að skattleggja börnin og barnabörnin fyrir því sem við erum að eyða í dag. Þess vegna er þetta ekki spurning um neitt val. Þetta er ekki spurning um það að efast. Þetta er einungis spurning um það að við verðum að ná niður hallanum á ríkissjóði og byrja að borga niður skuldirnar. Vegna þess að það rýrir lífskjör afkomenda okkar ef við gerum það ekki strax og það rýrir möguleika þess fólks líka til að borga skuldir okkar til baka. Þetta verðum við að hafa í huga og það er verkefnið sem ríkisstjórnin stendur frammi fyrir. Það er þetta verkefni sem ríkisstjórnin hefur tekið að sér og það er þetta verkefni sem ríkisstjórnin ætlar að leysa.