Fjárlög 1996

Þriðjudaginn 17. október 1995, kl. 16:55:45 (364)

1995-10-17 16:55:45# 120. lþ. 13.7 fundur 1. mál: #A fjárlög 1996# frv., KÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka]

Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er greinilegt að hæstv. fjmrh. er mikil alvara í sínum áformum og ég vona svo sannarlega að þau gangi eftir og ég get tekið undir það að sú skuldasöfnun sem hér hefur átt sér stað á undanförnum árum og áratugum er auðvitað af hinu illa og það þarf að snúa við blaðinu. Það sem ég er fyrst og fremst að efast um og horfi þar á reynslu undanfarinna ára er að menn settu upp ýmsar áætlanir fyrir rúmum fjórum árum og ætluðu sér að ná fjárlagahallanum niður á tveimur árum. Þá blésu aðrir vindar og óhagstæðir þannig að dæmið snerist algjörlega við. En ég held að a.m.k. eins og nú horfir þá bendi margt til þess að það gæti tekist betur núna. En spurningin er auðvitað líka sú hversu hratt á að fara í að greiða niður skuldirnar. Það veltur mjög mikið á atvinnuástandinu og atvinnuleysinu, hvort er betra að borga niður skuldirnar erlendis eða að nota einhvern hluta af þeim peningum til að halda uppi vinnu í landinu. Ég mundi velja síðari kostinn ef ég væri í sporum hæstv. fjmrh. Vegna þeirra alvarlegu afleiðinga sem þetta viðvarandi atvinnuleysi hefur á samfélag okkar og öll samfélög sem eiga við það að stríða.