Fjárlög 1996

Þriðjudaginn 17. október 1995, kl. 18:46:12 (372)

1995-10-17 18:46:12# 120. lþ. 13.7 fundur 1. mál: #A fjárlög 1996# frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ræða hv. þm. var fyrir nokkurra hluta sakir dálítið athyglisverð. Í fyrsta lagi sagði hv. þm. að það sem kæmi fram í fjárlagafrv. væri stefna hægri flokkanna og undirstrikaði þetta síðan með því að segja að jafnaðar- og kvenfrelsisflokkarnir væru á móti slíkri stefnu. Hv. þm. hefur áður talað fyrir hönd Kvennalistans á þann veg, mjög skýrlega, að Kvennalistinn sé einn af vinstri flokkunum, einn af félagshyggjuflokkunum. Með því hefur hv. þm. opinberað það sem lengi hefur verið vitað að Kvennalistinn hefur smám saman verið að færa sig til vinstri, er einn af þessum vinstri félagshyggjuflokkum og ekkert öðruvísi en þeir og þess vegna er Kvennalistinn að líða undir lok. Það er meginástæðan. Það er einmitt slíkur málflutningur og hér heyrist sem er meginástæðan fyrir því að Kvennalistinn er að líða undir lok.

Hv. þm. kvartaði síðan yfir því að fjárlögin litu ekki út eins og kennslubók í háskólanum og það er alveg rétt. Hins vegar hefur það gerst á undanförnum árum að fjárlögin hafa verið smíðuð með þeim hætti að þau hafa verið tiltölulega aðgengileg fyrir almenning í landinu, jafnvel fyrir háskólakennara og háskólaborgara líka, sem betur fer. En hv. þm. kom upp um sig þegar hún sagði að á einum stað hefði hún séð eitthvað minnst á jafnrétti kynjanna og taldi til eitt dæmi. Þau eru nú reyndar fleiri, meira að segja stallsystur hennar í Kvennalistanum hafa komið auga á fleiri og spurst fyrir um fleiri atriði sem um getur í fjárlagafrv. Eitt af því er m.a. það sem kemur fram á bls. 242 þar sem segir að jafnréttismál verði kynnt og það hefði komið fram í ræðum hér fyrr og þar á meðal í framsöguræðu fjmrh. að ætlunin er að taka sérstaklega á þessum málum, þau verði kynnt stjórnendum ríkisfyrirtækja og sú nefnd sem fer með starfsmannastefnumálin og er nú að störfum á sérstaklega að fara ofan í þau. Að auki er minnst á þessi mál víðar eins og til þess að efna þau loforð sem gefin voru í sambandi við síðustu kjarasamninga. Ég efast ekki um að hv. þm. kemur til þess að koma með góðan og heiðvirðan málstað til þess að gagnrýna þetta frv. en hann verður a.m.k. að kynna sér og lesa frv. áður en ákveðið er og sagt hvað sé að í frv.