Fjárlög 1996

Þriðjudaginn 17. október 1995, kl. 20:33:15 (376)

1995-10-17 20:33:15# 120. lþ. 13.7 fundur 1. mál: #A fjárlög 1996# frv., heilbrrh.
[prenta uppsett í dálka]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Hér hefur eðlilega margt verið sagt í dag og undanfarna daga en því hefur kannski ekki verið haldið til haga sem mér þykir töluvert mikils um vert en það er hver er þriðji stærsti útgjaldaliður ríkissjóðs. Það eru vextir. Við greiðum 14 milljarða í vexti. Náum við því niður á skömmum tíma, þá væri það feitur biti fyrir heilbrigðiskerfið. Og af því að alþýðuflokksmenn hafa eins og margir aðrir farið hér vítt um völl, er kannski ekki úr vegi að minna á að það er skilinn eftir einn milljarður í mínus í heilbrigðismálunum miðað við fjárlög í yfirstandandi árs.

Mig langar líka að halda því til haga að ef við náum utan um ríkisútgjöldin eins og gert er ráð fyrir, þá eigum við von á 2% vaxtalækkun. Er nokkuð sem kæmi heimilunum í landinu betur til góða en það? Það er auðvitað spurning sem menn verða að svara hver fyrir sig. En af því að hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir er hér inni og hefur spurt nokkurra spurninga þá langar mig til að svara henni svo hún þurfi ekki að bíða í allt kvöld og alla nótt eftir svari. Hún hefur spurt um framkvæmdir og frestun framkvæmda. Hún spurði spurninga varðandi heilsugæsluna og þá sérstaklega í Kópavogi. Því er til að svara að það er búið að bjóða út 1. áfanga varðandi heilsugæslustöðina í Kópavogi. Það er framkvæmd upp á 42 millj. og áætlað er að taka næsta áfanga á næsta ári sem er svipaður að stærð. Þetta er framkvæmd upp á svona rúmlega 110 millj. kr.

Hún benti á að það væri þrengst um heilsugæsluna á Reykjanesi í Kópavogi. Ég vil benda á að það er víða þröngt og vil minnast þar sérstaklega á Mosfellsbæ. Reykjalundur hefur sagt upp leigunni á heilsugæslustöðinni í Mosfellsbæ þannig að við þurfum líka að grípa þar inn í. Hafnfirðingar hafa líka bankað á dyr heilbrrn. og telja nauðsynlegt að fá viðbótarhúsnæði helst fyrir áramót og sömu sögu er að segja um Garðabæ. Þannig að það má víða líta til í kjördæmi hv. þm.

Það er ljóst að við förum ekki í allar þessar framkvæmdir, enda erum við farin að tala um nokkur hundruð millj.

Hún spyr einnig um framkvæmdir í Keflavík. Eins og okkur er báðum kunnugt um er búið að skrifa undir samkomulag um framkvæmdir í Keflavík upp á 130 millj. kr., framkvæmd sem kostar 400 millj. þegar hún kemst í notkun. Ég hef verið að reyna að ná samkomulagi við Suðurnesjamenn um að taka minni áfanga í einu þannig að við fáum nýtanlegan áfanga. Það er skemmst frá því að segja að um það hefur ekki náðst samkomulag og það síðasta sem ég heyrði frá sveitarstjórnarmönnum á Suðurnesjum er að þeir vilja fá fund með fjmrh. sem er ekkert óeðlilegt, því að þetta er spurning um peninga. Þetta er spurning um hvort við ætlum að setja í steinsteypu til aldamóta kannski 130 millj. sem ekki koma nokkrum manni að notum fyrr en seint og síðar meir eða hvort það eigi að leggja meira fjármagn í þetta þannig að þetta nýtist einhverjum. Það er spurningin. Og á sama tíma sem menn eru sammála um það að við getum ekki gengið lengra varðandi útgjöld fyrir sjúklinga, þá verðum við auðvitað að hugsa okkur tvisvar um áður en við byrjum hér og þar og alls staðar í einhverjum framkvæmdum sem ekki koma neinum að notum, í bili a.m.k.

Ég held að þetta svari líka fyrirspurn frá hv. þm. Gísla Einarssyni. Við erum að tala um að forgangsraða og þá þurfum við að byrja á að forgangsraða framkvæmdum og endurskoða framkvæmdaliði og fjárfestingar.

Fyrst ég er staðin hér upp, þá langar mig að svara hv. þm. Steingrími Sigfússyni með nokkrum orðum. Hann var með mjög skemmtilega og hressilega ræðu og ég dáist að því hvað hann er hress eftir helgina. Ég held að hann hafi bara aldrei verið hressari því að það stóðu upp úr honum milljarðarnir. (Gripið fram í: Milljarðatugir.) Milljarðatugirnar jafnvel. Hann spurði: Af hverju er ekki farið í þessa framkvæmd og hina framkvæmdina o.s.frv. En hann var samt alveg sammála því að það þyrfti að halda utan um fjárlagahallann, hann mætti ekki vera meiri heldur en boðað er.

Hann spurði t.d. að því hvenær ætti að hefjast handa varðandi Barnaspítala Hringsins. Það er ekki rétt hjá honum að hann hafi verið einhvern tíma á fjárlögum. Það hefur ekki verið eyrnamerkt upphæð til Barnaspítala Hringsins. Þetta er framkvæmd sem kostar 800 millj. kr. og ég er alveg viss um það að með þessari framkvæmd slá hjörtu þjóðarinnar, það er engin spurning. En það er ekki nægilegt. Þegar verður hafist handa varðandi þessa framkvæmd, þá þurfum við að sjá fyrir endann á henni.

Nú er það annars þannig að borgarsjóður lofaði því að 100 millj. yrðu lagðar til þessara framkvæmda, en það var ekki eyrnamerkt betur en svo að þær 100 millj. eru ekki falar í dag, ég hef gengið eftir því. Mér er kunnugt um að Kvenfélagið Hringurinn, sem hefur verið vinveitt þessum barnaspítala í áratugi og byggt þar upp og keypt dýrmæt tæki fyrir stofnunina, hefur þegar safnað um 150 millj. kr. Það er féð sem falt er til framkvæmdarinnar. Sem sagt, mér finnst mikilvægt að þegar við hefjumst handa við framkvæmdina, sem ég tel vera tímaspursmál hvenær við byrjum á, að þá sjáum við fyrir endann á því hvenær við getum lokið henni.

Hv. þm. Steingrímur Sigfússon spurði einnig að því, hvernig á því stæði að gerð er tillaga um það að 67--70 ára fólk greiði fyrir lyf og lækniskostnað eins og ég og þú. Þarna er gert ráð fyrir því að fólk sem er í fullri vinnu --- ég endurtek, fólk sem er í fullri vinnu greiði til 70 ára aldurs. En þeir sem aðeins hafa lífeyri séu meðhöndlaðir öðruvísi. (Gripið fram í: Er þetta tekjutengt?) Ég held að ég sé búin að svara þessari spurningu nákvæmlega. Þeir sem eru í fullri vinnu og hafa tekjur (Gripið fram í.) Hv. þm. er á mælendaskrá og ég býst við að ég geti fengið að svara henni hér á eftir, en ég held að þetta sé alveg skýrt. A.m.k. fyrir þann sem spurði. Þeir sem eru í fullri vinnu greiða til 70 ára aldurs fyrir lyf og lækniskostnað samkvæmt þessum tillögum.

Ég er búin að svara því oftar en einu sinni í dag varðandi ekkjulífeyrinn og þá lengingu sem verður í staðinn á dánarbótum og mig langar að segja við hv. þm. að hann hefur ekki lesið frv. neitt sérstaklega vel, en ég skil hann svo sem, hann hefur ekki haft svo mikinn tíma. Hann talaði áðan um að það ætti að leggja 200 millj. kr. nýjan skatt á sjúklinga. Það er ekki rétt. Ef hann les frv. betur þá sér hann að gert er ráð fyrir 100 millj. kr. Og nú ætla ég að segja hv. þm. nokkuð sem ég held að honum sé ekki ljóst þótt ég sé búin að segja það nokkrum sinnum hér í dag. Á sama tíma erum við að lækka gjöld, svokölluð ferliverk, en fyrir slíka aðgerð hafa sjúklingar um þriggja ára skeið borgað 18--20 þús. kr. inni á sjúkrahúsi.

Ég held að ég hafi þá svarað þeim helstu spurningum sem fram hafa komið hingað til og á eflaust eftir að svara mörgum spurningum enn.