Fjárlög 1996

Þriðjudaginn 17. október 1995, kl. 20:51:41 (382)

1995-10-17 20:51:41# 120. lþ. 13.7 fundur 1. mál: #A fjárlög 1996# frv., heilbrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. hefur ekki hlustað nægilega grannt á það sem ég var að segja honum. Ég er að tala um það að á sjúkrahúsum er þessi skattur tekinn af mörgum aðilum sem fara í aðgerð. Ég er að tala um upphæð upp á 18--20 þús. kr. Við fellum þá upphæð niður og almenningur borgar einhverja lága upphæð í staðinn. En það verður sérstakt tillit tekið til öryrkja og tekjulágra.

Hvernig á að flokka 67--70 ára í þá sem vinna og þá sem ekki eru í vinnu? Það er einfalt að sjá hverjir eru í fullri vinnu með ágætar tekjur og hverjir ekki. Mér finnst ekkert óeðlilegt að þeir aðilar sem eru með ágætis tekjur greiði svipað og barnafólk er að gera í dag á meðan við höfum ekki efni á að lækka þetta enn þá meir. Og mig langar að svara honum líka varðandi Landspítalalóðina og samkomulagið frá því í maí 1994. Það er alveg rétt að það var gert samkomulag í maí 1994, en það fylgdu því því miður engir fjármunir og það er auðvitað aðalatriðið. Það er ekkert varið í að gera samninga sem ekki fylgja fjármunir. Og ég hef gengið eftir því við borgarstjórn varðandi þessar 100 millj. sem í upphafi var lofað. Þeir peningar liggja ekki á lausu og munu því miður ekki liggja á lausu þannig að það verður að sjálfsögðu ríkið sem byggir þetta upp og það er út af fyrir sig ekkert óeðlilegt.