Fjárlög 1996

Þriðjudaginn 17. október 1995, kl. 20:55:24 (385)

1995-10-17 20:55:24# 120. lþ. 13.7 fundur 1. mál: #A fjárlög 1996# frv., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Ég sé mig tilneyddan til að koma hingað upp út af umræðu um D-álmu sem hefur komið til tals vegna ummæla hæstv. heilbrrh. Hún var á fundi með sveitarstjórnarmönnum og þingmönnum suður í Grindavík fyrir helgina þar sem umræður fóru fram um það hvort staðið yrði við þá samninga sem gerðir voru um D-álmu í mars í vor. Byggingarnefnd sem var stofnuð til þess að vinna eftir þeim samningum sem gerðir hafa verið um byggingu þessarar álmu hefur ekki skilað af sér þeim verkefnum sem gert var ráð fyrir samkvæmt þeim samningum. Það hefur ekki verið staðið við samningana eins og ráð var fyrir gert og eftir því sem ég best veit hefur ráðherra ekki gefið heimildir til þess að hægt væri að vinna samkvæmt þeim.

Ég hef ekki heyrt annað frá hæstv. ráðherra en hún ætli sér að standa við samningana. Ég held ég verði því að biðja hæstv. ráðherra að gefa yfirlýsingu um það hvenær verði gefið leyfi til þess að hefja þær framkvæmdir sem samningurinn gerði ráð fyrir. Það er svo aftur annað mál að í þessum samningi eins og öðrum eru fleiri en einn hæstv. ráðherra sem skrifa undir og það er sama með þá samninga sem voru gerðir fimm árum áður. En það breytir í sjálfu sér engu um þessa stöðu. Þarna var ákvörðun tekin og sveitarfélög samþykktu ásamt hæstv. ráðherrum.

Það er ekki traustvekjandi fyrir þingið og fyrir hæstv. ráðherra ef þeir samningar sem þeir hafa gert geta ekki staðið og við stöndum frammi fyrir því að gera stóra og mikla samninga við sveitarfélög um skólamál og yfirtöku skólamannvirkja sem ég reikna með að sveitarstjórnarmenn ætlist til þess að standi eins og aðrir samningar sem menn gera sín á milli.