Fjárlög 1996

Þriðjudaginn 17. október 1995, kl. 21:49:27 (394)

1995-10-17 21:49:27# 120. lþ. 13.7 fundur 1. mál: #A fjárlög 1996# frv., ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Ég vil benda hv. þm. Pétri Blöndal á það að þeir sem að meta óvinnufært fólk til greiðslu frá Tryggingastofnun vita að þeir lifa ekki á 17 þús. kr. á mánuði. Þess vegna er tilhneiging til þess að meta þá frekar á 75% örorku heldur en á sjúkradagpeningavottorð fyrir 17 þús. kr. á mánuði. Ég leyfi mér að efast um það að hv. þm. (Gripið fram í: Eru það ekki eðlileg vinnubrögð?) Auðvitað eru það ekki eðlileg vinnubrögð. Ég teldi það frekar eðlileg vinnubrögð að hafa sjúkradagpeninga þannig að það sé hægt að lifa af þeim. Ég ætla að benda á hv. þm. á það að sjúkradagpeningar eru um rúmar 500 kr. á dag og um 150 kr. á hvert barn. Treystir hann sér til að framfleyta sér og sínum sex börnum á 500 kr. á dag plús 150 kr. á hvert barn? Mér þætti fróðlegt að vita hvernig hann færi að því.

Ég tek undir það að skuldir okkar og vaxtagreiðslur eru uggvænlegar, mér finnst það mjög alvarlegt mál. Mér finnst það líka alvarlegt að mönnum skuli ekki flökra neitt við því að eyða milljörðum til að halda offramleiðslu á kindakjöti gangandi. Og í alls konar greiðslur út og suður. Það er forgangsröðin. En þeir eru alltaf tilbúnir að koma með niðurskurðarhnífinn þegar að velferðin er annars vegar.