Fjárlög 1996

Þriðjudaginn 17. október 1995, kl. 23:04:55 (400)

1995-10-17 23:04:55# 120. lþ. 13.7 fundur 1. mál: #A fjárlög 1996# frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Mig langar í örstuttri athugasemd til að vekja athygli á því að hæstv. fjmrh. talar um niðurskurð á hinum Norðurlöndunum. Segir að þar sé skorið niður til velferðarmála og ekki sé óeðlilegt að við gerum slíkt hið sama. Ég vil vekja athygli hæstv. fjmrh. á því að hér er ekki um raunhæfan samanburð að ræða, vegna þess að Íslendingar verja mun minna hlutfalli af þjóðartekjum til velferðarmála en aðrar Norðurlandaþjóðir gera. Þannig að hér er ekki um samanburðarhæft dæmi að ræða. Ég legg hins vegar til að við tökum upp umræðu um þessi mál. Þetta er mjög mikilvæg umræða, tökum upp umræðu um þessi mál og förum út í samanburð á Íslandi og hinum Norðurlöndunum að þessu leyti.

Það er svolítið umhugsunarefni að Íslendingar apa gjarnan upp það sem aðrir hafa tekið sér fyrir hendur. Einkum og sér í lagi á þetta við um Norðurlöndin. Og menn fara héðan úr ráðuneytum og spyrjast fyrir um hvað menn séu að gera þar og þeim er sagt að þar séu menn að skera niður. Og þá er viðkvæðið hér: Það skulum við gera líka. En þegar skorið er niður til heilbrigðismála, til velferðarmála almennt, þá er það miklu alvarlegri aðgerð en niðurskurður til slíkra málaflokka í ríkjum eins og Svíþjóð þar sem hlutfallslega miklu meiri verðmætum af þjóðartekjum er varið til þessara málaflokka. Ég vildi bara vekja athygli á þessu.