Fjárlög 1996

Þriðjudaginn 17. október 1995, kl. 23:15:31 (405)

1995-10-17 23:15:31# 120. lþ. 13.7 fundur 1. mál: #A fjárlög 1996# frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skal viðurkenna að það sem ég sagði áðan átti a.m.k. að skiljast á þá leið að ég ætti þar við mig persónulega. Ég á nú eins og fleiri hér mörg börn, þar af eitt lítið, og þegar ég fæ 1.500 kr. tékka í hendurnar tvisvar á ári þá skiptir það mig engu máli. Það var það sem ég átti við.

En ég ætla kannski að hryggja en vonandi að gleðja hv. þm. með því að segja að ég skil hans sjónarmið mjög vel og ég held að það séu sjónarmið sem séu ofan á. Það er einmitt af þeim ástæðum sem hv. þm. nefndi sem ríkisstjórnin hefur ákveðið að setja af stað starf í samráði og samvinnu við aðila vinnumarkaðarins til að leita lausna á þessu vandamáli. Það er hárrétt sem hann sagði. Ef við höldum áfram að hverfa frá þessu almenna og setja allt yfir í tekjutengingu þá eyðum við öllum þessum mun og erum farin að misnota tekjuskattinn til svokallaðrar tekjujöfnunar. Vonandi tekst mér að gleðja hv. þm. með því að segja að ég skil hans sjónarmið vel og tel einmitt að það sé með þessi sjónarmið að leiðarljósi sem menn munu nálgast þessi verkefni í sínu starfi því það er áreiðanlega rétt sem ég held að þingmaðurinn hafi meint þegar hann var að segja þetta, að það er þessi hópur með börn sem er skuldsettur, þarf að borga sínar skuldir upp í topp og getur ekki notað verðbólguna því hún er ekki lengur fyrir hendi til hjálpar skuldugu fólki. Það er þetta fólk sem finnur auðvitað mest fyrir þessu í dag og það má ekki gerast að þegar þetta fólk bætir við sig tekjum, þá sé því refsað svo duglega að það borgi sig jafnvel að hætta að vinna. Það viljum við ekki sjá á þessu landi og ég vona að við hv. þm. getum verið sammála um það.