Fjárlög 1996

Þriðjudaginn 17. október 1995, kl. 23:17:39 (406)

1995-10-17 23:17:39# 120. lþ. 13.7 fundur 1. mál: #A fjárlög 1996# frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. Það skyldi nú ekki fara svo að við yrðum bara að mestu leyti sammála hér í salnum um miðnætti ef við héldum áfram að ræða þessi mál. Það kemur sem sagt í ljós að að þessu leyti erum við alveg sammála. Það gengur ekki að eyða út öllum tekjujöfnunaráhrifum í skattkerfinu sem m.a. eiga að valda skattalegri mismunun eða ólíkri meðhöndlun stórra fjölskyldna og smárra. Og við megum ekki ganga svo langt í þessum aðgerðum að fletja þetta allt út, þannig að t.d. barnmargar fjölskyldur með húsnæðisskuldbindingar á baki og ýmsar aðrar erfiðar byrðar séu ofan við einhver, kannski tiltölulega lág tekjumörk sem samkvæmt neyslukönnun Hagstofunnar duga varla til að framfleyta meðalfjölskyldu, séu orðnar skattalega eins settar í öllu tilliti og einstaklingar eða hjónafólk sem ekki hefur börn á framfæri. Það gengur ekki.Ég hef auðvitað skrifað og hugsað mikið um þessi jaðarskattamál á undanförnum árum og lagt ýmislegt til í þeim efnum bæði í ræðu og riti þannig að ég fagna því auðvitað mjög að ríkisstjórnin ætli þá í alvöru að glíma við þessi mál og láta eitthvað gerast og vonandi fyrr en seinna. Það er alveg hárrétt að ég held að við séum í stórkostlegri hættu að leggja byrðar á ákveðna kynslóð, ákveðið bil sem býr við tilteknar aðstæður í landinu og það fólk er einfaldlega að sligast. Það vill nú svo til að ég er sjálfur á þessum aldri og þetta á við um marga kunningja mína því ég er nú svo feiknarlega ungur eins og frægt er að eiga þrjú börn sem ég fæ þessar fínu bætur með og allt það. Ég get auðvitað sagt eins og hæstv. fjmrh., að persónulega kæmist ég af þó þessar ávísanir bærust ekki inn á mitt heimili. Enda er það ekki málið heldur hitt að það er grundvallarprinsippið sem hér er um að ræða að það á að taka í skattalegu tilliti tillit til þess að framfærsla þessara fjölskyldna er meiri heldur en annarra.