Breyting á lögum um félagslega aðstoð

Miðvikudaginn 18. október 1995, kl. 13:32:31 (407)

1995-10-18 13:32:31# 120. lþ. 14.91 fundur 46#B breyting á lögum um félagslega aðstoð# (aths. um störf þingsins), ÖJ (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Hér á Alþingi hefur verið lagt fram frv. til laga um breytingu á lögum um félagslega aðstoð. Frv. er lagt fram af hálfu hv. þm. Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur. Í frv. er gert ráð fyrir að tryggja að fólk sem fær endurhæfingarlífeyri njóti jafnframt sömu bóta og örorkulífeyrisþegar.

Heilbrrh. hefur lýst því yfir að hann hafi ritað Tryggingastofnun bréf til að tryggja að endurhæfingarlífeyrisþegar fái umræddar bætur. Þetta gerist hins vegar í kjölfarið á skjalfestum lagatúlkunum ráðuneytisins sem ganga í gagnstæða átt. Það er óeðlilegt að ráðherra geti ávísað á fé úr ríkissjóði með þeim hætti sem hér er gert án þess að fyrir því sé ótvíræð lagastoð.

Ég fæ ekki annað séð, herra forseti, en taka þurfi af allan vafa með lagabreytingu og mælist til þess við forseta þingsins að þingstörfum verði hagað þannig að slík lagabreyting nái fram að ganga fyrir vikulok. Það ætti að reynast auðvelt því að um málið ríkir málefnaleg samstaða í þinginu.