Málefni ferðaþjónustu

Miðvikudaginn 18. október 1995, kl. 13:40:21 (410)

1995-10-18 13:40:21# 120. lþ. 15.1 fundur 5. mál: #A málefni ferðaþjónustu# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem hv. þm. kvartar yfir því í þingsölum að honum hafi ekki tekist að marka stefnu í ferðamálum meðan hann fór með þau mál sem samgrh. og má þess vænta að þau kjökurhljóð kunni að heyrast oftar. Hér er spurt:

,,1. Er þess að vænta að mótuð verði stefna í málefnum ferðaþjónustunnar á þessu kjörtímabili?`` Ég vil í þessu sambandi taka fram að á hinu fyrra kjörtímabili var mörkuð mjög skýr stefna í einstökum þáttum ferðaþjónustunnar, bæði hvað varðar umhverfismál, varðandi menningu og sögu þjóðarinnar, varðandi markaðsmál með ráðstefnuskrifstofu, með því að beinir samningar voru teknir upp, bæði við ferðamálaráðherra Grænlands og Færeyja um samvinnu á sviði ferðamála og fleira mætti til tína sem ekki er spurt um í þessari fsp. en ég veit að hv. þm. þekkir jafn vel og ég því að hann er áhugamaður um þessi mál.

Því er til að svara að það er rétt að nú er að hefjast mjög mikil vinna við að marka það sem stundum er kallað opinber stefna í ferðamálum sem verður í höndum sérstakrar stýrinefndar sem skipuð hefur verið og í eiga sæti Magnús Oddsson, framkvæmdastjóri Ferðamálaráðs, formaður, Hildur Jónsdóttir, Magnús Gunnarsson, Ólafur Örn Haraldsson, Tómas Ingi Olrich, Pétur J. Eiríksson, Geir H. Haarde. Er þess að vænta að stefnumörkun geti legið fyrir á öndverðu næsta ári og verður unnið að stefnumörkuninni í góðri samvinnu við ýmsa aðila sem koma að ferðaþjónustunni, fyrirtæki, einstaklinga, áhugamenn og skóla.

Í öðru lagi er spurt: ,,Er fyrirhuguð heildarendurskoðun lagaákvæða sem snerta ferðaþjónustu á þessu kjörtímabili?`` Þessi vinna mun að sjálfsögðu leiða það í ljós að hvaða marki þeir sem koma að verkinu telja nauðsynlegt að breyta lögum sem varða ferðaþjónustuna. Ég vænti þess að ýmislegt sé þar sem lagfæra þurfi, enda margt af þeim lögum sem um þessi mál fjalla frá þeim tíma sem hv. þm. var ráðherra samgöngumála.