Málefni ferðaþjónustu

Miðvikudaginn 18. október 1995, kl. 13:42:53 (411)

1995-10-18 13:42:53# 120. lþ. 15.1 fundur 5. mál: #A málefni ferðaþjónustu# fsp. (til munnl.) frá samgrh., HG
[prenta uppsett í dálka]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Það er kominn tími til að hæstv. samgrh. boði það að hann ætli að láta taka málefni ferðaþjónustunnar einhverjum tökum til heildarendurskoðunar á stefnu í ferðamálum. Þetta gerist heilu kjörtímabili eftir að hæstv. ráðherra tók við málefnum samgrn. en þá lá fyrir tillaga sem fólk, tengt öllum þingflokkum á Alþingi, hafði unnið að og lagt fyrir þingið og fullt samkomulag hafði orðið um milli allra flokka í þáv. neðri deild þingsins að afgreiða. Sú stefnumótun sem þarna var lögð fyrir varðaði m.a. tengsl við alla landshluta í sambandi við það kerfi sem hugmynd var að koma upp varðandi málefni ferðaþjónustunnar, upplýsingaöflun og meiri stuðning en hefur verið við ferðamálafulltrúa í landshlutunum. Ég vona sannarlega að sú vinna sem unnin var á árunum 1989 og 1990 komi að einhverju haldi fyrir þá sem nú eru settir til þess að vinna að þessum málum.