Málefni ferðaþjónustu

Miðvikudaginn 18. október 1995, kl. 13:44:34 (412)

1995-10-18 13:44:34# 120. lþ. 15.1 fundur 5. mál: #A málefni ferðaþjónustu# fsp. (til munnl.) frá samgrh., EKG
[prenta uppsett í dálka]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að fagna þeirri yfirlýsingu hæstv. samgrh. að nú standi til að hefja þessa stefnumótunarvinnu varðandi ferðamálin í landinu. Það er alveg rétt að það er mjög nauðsynlegt og gott að þessi stefnumótunarvinna eigi sér stað vegna þess að ferðaþjónustan hefur vaxið mjög hratt hér á landi og hefur vaxið hraðast allra atvinnugreina, ekki síst á síðustu árum, sem kemur ekki alveg heim og saman við þá ófögru lýsingu sem Steingrímur J. Sigfússon, hv. 4. þm. Norðurl. e., dró upp af starfsumhverfi greinarinnar. Það væri náttúrlega með ólíkindum ef þessi atvinnugrein hefði vaxið svo mikið á undanförnum árum ef starfsumhverfi hennar hefði verið jafnslæmt og hv. þm. vildi vera láta. Hann gleymdi auðvitað að geta þess að hér hefur verið jafnvægi í efnahagslífinu, hér hefur verið rétt skráð gengi og hér hefur verið breytt ýmsum sköttum sem voru á þessari grein, greininni sjálfri til hagsbóta.

Ég vil hins vegar vekja athygli á því sem líka skiptir máli og það er að stefnumótunarvinnan á ekki eingöngu að fara fram á vegum hins opinbera og á vegum samgrn. Stefnumótunarvinnan þarf líka að fara fram úti í umdæmunum og þar hefur hún verið að eiga sér stað og það er auðvitað mjög þýðingarmikið og skiptir miklu máli um framtíðaruppbyggingu atvinnugreinarinnar. Ég held að við megum ekki falla í það far að líta þannig á að þessi vinna eigi eingöngu að fara fram í ráðuneytunum í Reykjavík. Það ber ekki síður að leggja áherslu á það að þessi vinna fari fram úti í umdæmunum hjá því fólki sem starfar í atvinnugreininni.