Græn símanúmer

Miðvikudaginn 18. október 1995, kl. 13:53:01 (417)

1995-10-18 13:53:01# 120. lþ. 15.2 fundur 6. mál: #A græn símanúmer# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi EKG
[prenta uppsett í dálka]

Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson):

Virðulegi forseti. Miklar breytingar hafa orðið á undanförnum árum og áratugum í fjarskiptum og símamálum í heiminum, ekki síst á undanförnum allra síðustu árum eins og hvarvetna má sjá merki um. Þetta hefur m.a. leitt til þess að símakostnaður almennings hefur lækkað mjög mikið, einkanlega hér á Íslandi. Ef við berum saman símataxtana hér á landi annars vegar og í löndum OECD hins vegar, þá kemur í ljós, sem ýmsum kemur kannski á óvart, að símakostnaður hér á landi almennt talað er sá lægsti í öllum þessum ríkjum. Þar gildir nánast sama hvar litið er nema e.t.v. þegar skoðaður er símakostnaður milli landa, en þegar á heildina er litið þá er engu að síður niðurstaðan sú að símakostnaður á Íslandi er sá lægsti í ríkjum OECD.

Ég nefndi það áðan að tæknibreytingar hafa orðið miklar í símamálum og fjarskiptamálum og þær eru og verða mjög miklar á næstu árum. Í breska blaðinu The Economist þann 30. september sl. er mjög athyglisverð grein um þessi mál þar sem komist er að þeirri niðurstöðu að tæknibreytingar í síma- og fjarskiptamálum muni gera það að verkum að bráðlega verði það úrelt að líta þannig á að símakostnaður sé mismunandi milli landa eða milli staða. Miklu nær verði að í framtíðinni muni símakostnaður fyrst og fremst verða innheimtur sem fast afnotagjald vegna þess að tæknibreytingarnar, sem eru fyrirsjáanlegar á næstu árum, munu gera það einfaldlega að verkum að ekki sé tilefni til þess að rukka símakostnað með mismunandi hætti eftir því hvort menn tali staðarsímtal eða milli landsvæða eða milli landa. Allt eru þetta ótrúlegir hlutir sem við erum að sjá gerast á örskömmum tíma.

Íslendingar hafa fylgst vel með að þessu leytinu og símakerfi og símatækni sú sem við búum við er með því besta sem þekkist í heiminum að flestu leyti og þess vegna hefur það leitt af sjálfu sér að við höfum verið að lækka símakostnaðinn, síðast núna í vor þegar greint var frá því þann 15. apríl að símakostnaður yrði lækkaður um sem svaraði 90 millj. kr. fyrir notendur símaþjónustunnar í landinu sem sérstaklega kom til góða íbúum hinna dreifðu byggða eins og allir vita.

Á árinu 1994 var samþykkt þáltill., sem sá sem hér stendur hafði á sínum tíma flutt ásamt nokkrum þingmönnum Sjálfstfl., þar sem Alþingi ályktaði að fela ríkisstjórninni að sjá til þess að á næsta ári yrði komið upp grænum símanúmerum í öllum ráðuneytum Stjórnarráðsins og helstu stofnunum ríkisins. Tillagan gerir ráð fyrir því að þessum grænu símanúmerum verði komið upp á þessu ári. Því hef ég leyft mér að spyrja hæstv. samgrh. eftirfarandi spurningar:

,,Hvað líður framkvæmd þingsályktunar um græn símanúmer hjá ráðuneytum og stofnunum ríkisins?``