Græn símanúmer

Miðvikudaginn 18. október 1995, kl. 13:58:18 (419)

1995-10-18 13:58:18# 120. lþ. 15.2 fundur 6. mál: #A græn símanúmer# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi EKG
[prenta uppsett í dálka]

Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson):

Virðulegi forseti. Svar hæstv. samgrh. var að flestu leyti tæmandi hvað varðaði þessa spurningu. Ég vil hins vegar vekja athygli á því að þál. Alþingis frá 9. maí í fyrra er mjög afdráttarlaus. Þar er einfaldlega sagt að ríkisstjórninni sé falið að sjá til þess að á árinu 1995, sem brátt er liðið, verði komið upp grænum símanúmerum í öllum ráðuneytum Stjórnarráðsins og helstu stofnunum ríkisins.

Þegar ég mælti fyrir þessari þáltill. á sínum tíma þá tók til máls hæstv. þáv. umhvrh. og greindi frá því að hann mundi þegar í stað sjá til þess að grænum símanúmerum yrði komið fyrir í helstu stofnunum umhvrn. og enn fremur í ráðuneytinu sjálfu og það hefur komið á daginn að það hefur verið gert samkvæmt svörum hæstv. ráðherra. Ég gat ekki áttað mig á því af upptalningu hæstv. ráðherra, hvort það sem hann kallaði helstu stofnanir ríkisins hefðu komið sér upp þessum búnaði, en eitt er ljóst að ráðuneytin hafa einfaldlega ekki fram til þessa hlýtt fyrirmælum Alþingis. Ég held að það sé mjög mikilvægt að hæstv. samgrh. geri þessum ráðuneytum grein fyrir því að þeim ber samkvæmt þessari ályktun Alþingis að koma upp þessum búnaði. Ég tel að það sé ekkert annað en ómerkilegur undansláttur og yfirvarp þegar ráðuneytin segja að samfara þessu sé þvílíkur kostnaður vegna þess að ég minni á að mjög mörg einkafyrirtæki sem hafa miklu minni umsvif og minni fjárráð hafa ekki talið eftir sér að koma upp þessum búnaði sem er mjög mikilvægur liður í því að stíga skref í þá átt að jafna þegar í stað símakostnaðinn í landinu. Ég vil því segja það, virðulegi forseti, að svar hæstv. ráðherra var sumpartinn uppörvandi en um leið dapurlegt fyrir það að mér finnst framkvæmdarvaldið ekki hafa ætlað sér að framfylgja þeirri ótvíræðu þingsályktun sem Alþingi samþykkti samhljóða þann 9. maí 1994.