Málefni Menntaskólans í Reykjavík

Miðvikudaginn 18. október 1995, kl. 14:03:32 (422)

1995-10-18 14:03:32# 120. lþ. 15.3 fundur 23. mál: #A málefni Menntaskólans í Reykjavík# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda spurningarnar, sem voru þrjár. Ég kýs að svara þeim í einu lagi svohljóðandi:

Hinn 24. júlí sl. ræddi ríkisstjórnin um húsnæðismál Menntaskólans í Reykjavík og tengdust umræðurnar m.a. 150 ára afmæli hans á næsta ári. Í fjárlögunum er heimild í 6. gr. til að kaupa hús fyrir MR og er það mál til sífelldrar athugunar.

Mér þykir rétt að hugað verði að því að skipa byggingarnefnd Menntaskólans í Reykjavík með fulltrúum ríkisins og skólans. Auk þess tel ég æskilegt að Reykjavíkurborg eigi aðild að slíkri nefnd.

Hinn 28. júlí sl. var gengið frá bréfi í menntmrn. og sent Reykjavíkurborg þar sem gerð er grein fyrir áformum í húsnæðismálum Menntaskólans í Reykjavík. Er á það bent að skólinn sé í hjarta Reykjavíkur og þess því óskað að Reykjavíkurborg gangi til samninga við ráðuneytið um úrbætur í húsnæðismálum Menntaskólans í Reykjavík, bæði er tekur til skemmri tíma svo og til framtíðar. Því miður hefur ráðuneytinu ekki enn borist svar við þessu bréfi Reykjavíkurborgar, en ég lít svo á að hún sé í hópi þeirra stjórnvalda sem fyrirspyrjandi nefnir í spurningu sinni. Finnst mér sjálfsagt að Reykjavíkurborg sé þátttakandi í uppbyggingu á þessum stað.

Verði af skipun þeirrar nefndar sem ég hef hér getið fellur það undir verksvið hennar að taka á þeim málum sem getið er í tveim síðari spurningum fyrirspyrjanda. Nauðsynlegt er að gera úttekt á húsnæði Menntaskólans með tilliti til húsnæðisþarfar hans og verndunar gömlu húsanna. Í því efni ber að sjálfsögðu að hafa samráð við húsafriðunarnefnd lögum samkvæmt.

Nýlega vour kynntar niðurstöður í hugmyndasamkeppni um skipulag menntaskólareitsins svonefnda. Mundi nefnd sú sem eðlilegt er að skipa fara í saumana á þeim tillögum sem þar birtust. Ég tel best að leyst verði úr húsnæðisvanda Menntaskólans í Reykjavík til frambúðar á þeim stað þar sem skólinn er nú og með friðun hinna gömlu húsa. Í þeim anda tel ég skynsamlegt að vinna þetta verk.