Hækkun tryggingabóta

Miðvikudaginn 18. október 1995, kl. 14:16:20 (427)

1995-10-18 14:16:20# 120. lþ. 15.4 fundur 24. mál: #A hækkun tryggingabóta# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., ÁRJ
[prenta uppsett í dálka]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Mig langar að vekja athygli á að þessar tölur voru upplýstar í umræðum um stefnuræðu forsrh. í vor þar sem sú sem hér stendur vakti athygli á því misrétti sem lífeyrisþegar eru einatt beittir af stjórnvöldum. Og það má koma fram í þessari umræðu að þó svo að bætur lífeyrisþega eigi að fylgja launaþróun á almennum vinnumarkaði hefur svo ekki verið. Lægstu laun hækkuðu um 42% frá febrúar 1989 meðan bætur til lífeyrisþega hækkuðu um 34,9% þannig að hvernig sem á það er litið hafa lífeyrisþegar í hvert einasta skipti sem hækkun hefur orðið á vinnumarkaði alltaf farið aftur úr. Ég ætla að vona að hæstv. fjmrh. og hæstv. heilbrrh. sjái til þess að svo verði ekki framvegis.