Hækkun tryggingabóta

Miðvikudaginn 18. október 1995, kl. 14:19:23 (429)

1995-10-18 14:19:23# 120. lþ. 15.4 fundur 24. mál: #A hækkun tryggingabóta# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi SvG
[prenta uppsett í dálka]

Fyrirspyrjandi (Svavar Gestsson):

Virðulegi forseti. Það er einmitt nákvæmlega það að það er ekkert sjálfgefið í þessu efni og þess vegna hefur það verið þannig á undanförnum árum að aðilar vinnumarkaðarins hafa um leið gengið frá samningum við viðkomandi ríkisstjórnir. Það virðist hins vegar ekki hafa verið gert í þessu tilviki eftir því sem hæstv. heilbrrh. segir. Það er mjög merkilegt. Og það er líka mjög merkilegt ef það er rétt hjá hæstv. heilbrrh. að þessi tala sem endanlega varð ofan á hafi verið samþykkt af hagfræðingum aðila vinnumarkaðarins. Ég vek athygli á því, hæstv. forseti, að það var nákvæmlega það sem ráðherrann sagði. Ráðherrann bar fyrir sig hagfræðinga aðila vinnumarkaðarins, að þeir hafi samþykkt það að örorkulífeyrisþegar og ellilífeyrisþegar fengju lægra kaup en aðrir. Og af hverju er þessi ákvörðun núna öðruvísi en áður? Þess vegna ekki alveg rétt sem hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir sagði hér áðan. Munurinn er sá að þessi hækkun núna er í fastri krónutölu og það var samið um að hún væri í fastri krónutölu, tiltekin ákveðin upphæð.

Hvað gerðu menn svo þegar þeir fóru að skoða þessa hækkun? Menn veltu því fyrir sér hvert er hlutfallið ef þetta kemur á lægstu laun? Hver eru lægstu laun í þessum töxtum? Hver eru þau? 48 þús. kr. á mánuði. Menn sáu að það yrði mjög há prósenta fyrir örorkulífeyrisþega og aldraða að miða við 48 þús. kr. á mánuði. Hvað gerðu menn þá? Menn miðuðu við almenna vikukaupið sem er 70 þús. kr. á mánuði og píndu þannig niður prósentuhækkunina sem öryrkjar og aldraðir fengu. Þetta er reisnin yfir þessu liði, hæstv. forseti.