Samningsstjórnun

Miðvikudaginn 18. október 1995, kl. 14:22:01 (431)

1995-10-18 14:22:01# 120. lþ. 15.5 fundur 26. mál: #A samningsstjórnun# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., Fyrirspyrjandi KÁ
[prenta uppsett í dálka]

Fyrirspyrjandi (Kristín Ástgeirsdóttir):

Hæstv. forseti. Þær fyrirspurnir sem ég á í þinginu hafa safnast nokkuð fyrir og ég mun nú eiga eintal við hæstv. fjmrh. það sem eftir lifir þessa fundar nema aðrir blandi sér inn í þær umræður og veri þeir velkomnir í þær.

Ég ætla að beina spurningu til hæstv. fjmrh. varðandi samningsstjórnun og þær spurningar sem ég á eftir að bera fram í dag eru allar sprottnar upp úr frv. til fjárlaga fyrir árið 1996 vegna þess að það vakna margar spurningar við lestur greinargerðarinnar. Eitt af því sem kemur fram í henni er það áhersluatriði ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum að gera frekari tilraunir til nýskipunar í ríkisrekstri. M.a. kemur fram að það hafa verið gerðir sérstakir þjónustusamningar milli nokkurra ríkisstofnana og viðkomandi fagráðuneyta sem fela í sér aukið sjálfstæði stofnana og auka ábyrgð stjórnenda og það er verið að gera tilraunir með svokallaða samningsstjórnun í nokkrum stofnunum ríkisins.

Nú veit ég að það er ekki komin löng reynsla á þessa samningsstjórnun en mig fýsir þó að vita hvernig þetta gengur, sérstaklega þegar ég sé að fyrirhugað er að halda áfram á þessari braut og því beini ég eftirfarandi spurningum til hæstv. fjmrh.:

1. Hver er tilgangurinn með samningum um samningsstjórnun?

2. Hversu margir samningar hafa verið gerðir um samningsstjórnun og við hvaða stofnanir?

3. Hvaða reynsla hefur þegar fengist af samningsstjórnun, jákvæð og neikvæð?

4. Hverju hefur samningsstjórnun skilað fjárhagslega?

5. Hvaða áform eru uppi um frekari samninga um samningsstjórnun?