Samningsstjórnun

Miðvikudaginn 18. október 1995, kl. 14:24:07 (432)

1995-10-18 14:24:07# 120. lþ. 15.5 fundur 26. mál: #A samningsstjórnun# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., fjmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegi forseti. Ég þarf ekki að endurtaka fyrirspurnirnar. Þær komu fram í máli hv. þm. og liggja fyrir í þingskjali.

Samningsstjórnun er ein leið af mörgum til að bæta ríkisrekstur og gera hann markvissari og skilvirkari. Hún felst í því að gerður er formlegur samningur milli ráðuneytis og stofnunar þar sem m.a. er kveðið á um áherslur í starfi og árangur sem stofnun skuldbindur sig til að ná, fjárveitingar og aukið sjálfstæði. Segja má að samningurinn tilgreini magn og gæði þeirrar þjónustu sem ráðuneytið kaupir, ef svo má að orði komast, af stofnun og hvað ráðuneytið greiðir fyrir.

Samningurinn skýrir tilhögun samskipta en breytir hvorki ábyrgð ráðherra á rekstri stofnunar gagnvart Alþingi né hefur áhrif á þær stjórnsýsluskyldur sem stofnunin hefur lögum samkvæmt. Þá lýtur hún áfram kjarasamningum sem fjmrh. gerir fyrir hönd ríkisins.

Svar við næstu spurningu: Haustið 1994 var ákveðið að hefja tilraun með þetta stjórnunarform. Nú hafa verið gerðir samningar við eftirfarandi fimm ríkisstofnanir, þ.e. Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins, Vita- og hafnamálastofnun, Geislavarnir ríkisins, Kvennaskólann í Reykjavík og Bændaskólann á Hólum. Gildistími samninganna er til ársloka 1997.

Reynslan af þeim samningum sem gerðir hafa verið er ekki löng og því ekki tímabært að draga of víðtækar ályktanir af þessu nýja formi. Við gerð samnings þarf að skilgreina markmið, áherslur og umfang viðkomandi stofnunar nákvæmlega og finna leiðir til að meta hverju rekstur hennar hefur skilað. Verkefnið hefur aukið faglegan metnað og áhuga starfsmanna stofnana og leitt til aukins skilings og betri samstöðu milli stofnunar og ráðuneytis. Stofnunum gefst tækifæri á að skipuleggja starfsemi sína næstu ár með meiri vissu þar sem í samningunum er tilgreint hvaða fjárveitingar ráðuneyti munu beita sér fyrir að fáist á fjárlögum 1996 og 1997 vegna reksturs þeirra. Ekki er vitað til þess að upp hafi komið vandamál við framkvæmd samninganna og í þeim tilvikum sem samningsaðilar hafa talið nauðsynlegt að bregða frá undirrituðum samningum hefur það verið gert með sérstöku samkomulagi.

Ég skal taka fram að Kvennaskólinn í Reykjavík hefur skilað framvinduskýrslu sem ég held að sé mjög merkilegt framlag og sýnir að það getur verið verulegt gagn af því fyrir skólastofnanir meira að segja að gera slíkan samning.

Þeir samningar sem hafa verið gerðir voru af hálfu ráðuneytanna ekki hugsaðir sem leið til niðurskurðar og sparnaðar í sjálfu sér heldur fremur sem tilraun um nýtt samskiptaform í ríkisrekstri. Sumir samningar fela í sér tímabundna hækkun framlaga til þróunarstarfa og uppbyggingar á aðstöðu. Þá taka stofnanir að sér að leysa ný eða aukin verkefni. Ef samningarnir verða efndir eins og gert er ráð fyrir munu þeir skila sér í betri og meiri þjónustu. Ríkinu er ætlað samkvæmt lögum að kosta ýmsa þjónustu sem almenningi er látin í té. Í lögum og reglugerðum er oft ekki að finna nákvæma skilgreiningu á eðli og umfangi þjónustunnar sem leiðir er til þess að farið er í sumum tilvikum að veita nýja þjónustu án endurmats á þeirri þjónustu sem fyrir er. Í samningum er unnt að útfæra lög og reglugerðir og afmarka þjónustuna betur. Samningar geta veitt fjárveitingavaldinu gleggri upplýsingar um umfang og gæði þjónustunnar sem greitt er fyrir. Með samningsstjórnun verður auðveldara að tryggja að ný starfsemi sé háð samþykki ráðuneytis eða Alþingis og sama gildir auðvitað um ákvörðun um að fella niður eða breyta þjónustu viðkomandi stofnana.

Forsvarsmenn nokkurra stofnana hafa lýst áhuga sínum á að feta í fórspor þeirra stofnana sem gerðir hafa verið samningar við. Einnig hefur verið lögð áhersla á að gera formlega samninga við aðila utan ríkiskerfisins, sem ríkið kaupir þjónustu af. Hér er fyrst og fremst um að ræða ýmis sjálfseignarfyrirtæki. Við gerð þessara samninga verður m.a. byggt á þeirri reynslu sem fengist hefur af samningsstjórnun.

Í samningum verður kveðið á um magn og gæði þjónustunnar, verð hennar, eftirlit með samningum og meðferð ágreiningsmála. Fjárln. Alþingis verður gerð grein fyrir samningunum áður en þeim verður lokið.

Um þessar mundir standa yfir samningar við nokkur sveitarfélög á grundvelli laga um reynslusveitarfélög. Sveitarfélögin taka að sér að leysa ýmis verkefni gegn greiðslum frá ríkinu og á ábyrgð þeirra. Gera þarf samninga um þessi verkefni þar sem kveðið er á um skyldur hvors aðila, þar á meðal um magn og gæði þjónustunnar.

Virðulegi forseti. Eins og heyrist á þessum svörum er hér um að ræða tilraun sem er undir merki nýskipunar í ríkisrekstri, tilraun sem hefur verið gerð annars staðar og skilað ágætum árangri og mér sýnist allt stefna í þá átt hér á landi.