Samningsstjórnun

Miðvikudaginn 18. október 1995, kl. 14:31:43 (434)

1995-10-18 14:31:43# 120. lþ. 15.5 fundur 26. mál: #A samningsstjórnun# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., fjmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegi forseti. Ég vil nota tækifærið og þakka hv. þm. fyrir fsp. sem hefur gefið mér tækifæri til þess að lýsa í örfáum orðum hvað í samningsstjórnuninni felst. Ég held að það sé afar mikilvægt fyrir Alþingi og kannski ekki síst þá sem starfa í fjárln. að taka þannig á málefnum ríkisfyrirtækja að líta fremur til verkefna og þjónustu heldur en til stofnananna sem slíkra. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við skynjum stofnanir sem tæki til að koma til skila þjónustu eða til að leysa verkefni. Það gerist nefnilega allt of oft hér á landi, sjálfsagt eins og víða annars staðar, að stofnun verður til við tiltekin skilyrði til þess að leysa tiltekin verkefni. Svo breytast allar aðstæður, en þá hafa opinberar stofnanir, eins og einhver sagði, tilhneigingu til að öðlast eilíft líf. Það gerist gjarnan þannig að af mikilli góðmennsku og trúfestu koma stjórnendur og starfsfólk stofnananna sér saman um það að sækja um, eða jafnvel án þess að sækja um, að breyta verkefni stofnunarinnar hægt og rólega, halda áfram að fá fjárveitingar og gera ýmsa góða hluti, en ekki kannski endilega þá hluti sem beðið var um. Stundum verður þetta þannig að stofnun hæfir ekki nýjum verkefnum rétt eins og þegar maður er að byggja. Þá ræður maður náttúrlega smið eða málara til þess að mála húsið og þegar síðan byggingunni er lokið og maður fer að taka til í garðinum bak við húsið og skipuleggja garðinn þá getur vel verið að það sé betra að ráða garðyrkjumann til að gera það heldur en málara. Hann hefur a.m.k. þá hrífu, skóflu og hjólbörur en er ekki að rembast við þetta með málningarkústinum einum saman. Maður hefur stundum á tilfinningunni, og hef ég kannski litað þetta dálítið sterkt, að einmitt í opinberum rekstri þegar markmiðin eru ekki nægilega skýr og stjórnmálamennirnir kannski ekki alltaf klárir og vel með á nótunum því að þeir koma og fara, að embættiskerfið taki sig til og lagi kannski stofnanir frekar í hendi sér fremur en það sé hugsað út frá þörfum þjóðfélagsins á hverjum tíma. Þess vegna er svo mikilvægt að stjórnmálamennirnir sjálfir geri sér grein fyrir því hvað þeir vilja fá út úr þessum stofnunum, hvaða verkefni á að leysa og hvaða þjónustu erum við að bjóða.

Til viðbótar þessu höfum við því ákveðið að efna til enn einnar nýjungarinnar, sem við köllum verkefnavísa, og það er að kalla fram upplýsingar frá stofnunum um hvað þessar stofnanir séu að gera, í hvaða magni eða gæðum, og að skila slíku inn þannig að þingið geti séð hvað er á bak við tölurnar í fjárlögunum. Má nefna t.d. í sambandi við tollinn hve mörg skip eru tollafgreidd á hverju ári, hvað stendur á bak við þær tölur sem við sjáum í fjárlagafrv., og sumir hafa nú kvartað um að fjárlagafrv. sé ekki mjög aðgengilegt.