Stimpilgjöld

Miðvikudaginn 18. október 1995, kl. 14:56:31 (443)

1995-10-18 14:56:31# 120. lþ. 15.7 fundur 33. mál: #A stimpilgjöld# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., Fyrirspyrjandi KÁ
[prenta uppsett í dálka]

Fyrirspyrjandi (Kristín Ástgeirsdóttir):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. fyrir þessi svör. Mér þykir það sem kom fram í máli hans mjög athyglisvert, hvað þetta eru miklar tekjur sem ríkið hefur af stimpilgjöldum. Ég hafði hreinlega ekki gert mér grein fyrir því að þetta væri svo há upphæð þó að maður ætti svo sem að geta séð það í hendi sér þegar maður hugsar til allra þeirra viðskipta sem þarna eiga sér stað að þetta eru verulegir fjármunir. Ég skil það sjónarmið að það munar um upphæð af þessu tagi, 1,6 milljarða kr. þegar við hugsum til fjárlaga íslenska ríkisins (Fjmrh.: Það eru bara 9 mánuðir.) Já, það er rétt hjá fjmrh. Við erum bara að tala um fyrstu 9 mánuði þessa árs og væri forvitnilegt að hafa samanburð við allt sl. ár.

Mér þótti líka athyglisvert það sem hann nefndi varðandi nefndina, að menn væru að hugsa um að breikka gjaldstofninn frekar en fara út í það að leggja þetta niður. Ég treysti mér ekki til þess að leggja neitt mat á það hvort menn eru þar á réttri leið eða hvort frekar ætti að fara þá leið að fella þessi gjöld niður og maður spyr sig auðvitað: Er eðlilegt að ríkið taki í sinn hlut gjald fyrir nánast öll viðskipti sem eiga sér stað, t.d. fasteignaviðskipti og annað slíkt, en svo þar á móti er þá rétt að ákveðnir hlutar viðskipta og það sem hæstv. fjmrh. nefndi hér með kvótakaup og slíkt sé undanskilið? Þetta er bara mál sem þarf að skoða nánar og verður forvitnilegt að fylgjast með.