Sala ríkiseigna

Miðvikudaginn 18. október 1995, kl. 15:00:50 (445)

1995-10-18 15:00:50# 120. lþ. 15.8 fundur 34. mál: #A sala ríkiseigna# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., fjmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegi forseti. Ég held að full ástæða sé til að koma fram með þessa fyrirspurn og hárrétt hjá hv. þm. að það þarf kannski að athuga aftur hvernig standa eigi að 6. gr. heimildum. Fyrir nokkrum árum var reynt að fækka þeim sem allra mest en þær hafa tilhneigingu til þess að öðlast eilíft líf svo að ég endurtaki það sem ég sagði fyrr í dag af öðru tilefni. Ástæðan er auðvitað sú að í mörgum tilfellum vill ríkið hafa möguleika til þess að kaupa. Ég gæti nefnt sem dæmi að Stjórnarráðið vill t.d. hafa möguleika á því að geta keypt með skjótum hætti eignir á ákveðinni torfu bak við Þjóðleikhúsið í Skuggahverfinu. Landspítalinn vill hafa möguleika á því að kaupa húseignir við Eiríksgötu svo að ég nefni annað dæmi og þess vegna eru svona heimildir inni.

Það má heldur ekki gleyma því að stundum eignast ríkið hús vegna ófara fólks. Það eignast talsvert af húseignum eins og bankar og aðrir slíkir vegna þess að fólk hefur ekki getað staðið í skil á sköttum og endað í þeirri sorgarsögu að um uppboð eða sölu hefur verið að ræða. Þess vegna eignast ríkið húsnæði sem það reynir síðan að selja aftur og það gerist algerlega utan við fjárlögin. Það er talið heimilt að ganga þannig frá málum og byggir þannig á almennum reglum sem eru afleiðingar af skattalögum og innheimtumálum ríkissjóðs.

En svörin eru þessi: Árið 1994 voru 37 fasteignir og tvö skip seld á vegum ráðuneytisins eða með samþykki þess og salan skiptist þannig að húseignirnar voru 25, söluverðið 146,6 millj. Jarðir og lóðir voru 12 á 58 millj. Fyrirtæki voru tvö, annars vegar var það hluti ríkisins í Þormóði ramma fyrir 89 millj. 400 þús. og Lyfjaverslun Íslands sem seldist fyrir 201 millj. Þá voru seld tvö skip og var söluverðmæti 107 millj. kr. Þau voru samtals rúmar 600 millj. Það sem af er þessu ári hafa 18 fasteignir verið seldar og þær skiptast þannig að húseignir eru 14, söluverðmæti 94 millj., fjórar jarðir og lóðir. söluverðmæti 23,4 millj. og loks fyrirtækið Lyfjaverslun Íslands eða afgangurinn af því en það sem var selt var 201 millj. á fyrri hluta þessa árs. Samtals eru þetta rúmlega 318 millj. Þetta eru u.þ.b. 920 millj.

Hér er ekki um tæmandi talningu að ræða því að ýmsar ríkisstofnanir sjá sjálfar um eignasölu sína án afskipta ráðuneytisins, t.d. ÁTVR, Rarik, Póstur og sími, Byggðastofnun, Framkvæmdasjóður, Iðnlánasjóður o.fl. sem hafa til þess heimildir að ráðstafa sínum eignum, kaupa og selja. Ég hef skrá yfir þessar eignir hér en ég sé ekki ástæðu til þess að birta hana að svo stöddu a.m.k. enda er hún í bland vegna heimilda í 6. gr. og eins vegna sölu á eignum sem ríkið hefur eignast vegna uppboða. Vona ég að þetta svari fyrirspurninni.