Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 19. október 1995, kl. 11:22:50 (454)

1995-10-19 11:22:50# 120. lþ. 16.1 fundur 47#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), JBH
[prenta uppsett í dálka]

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Við höfum nú hlýtt á fyrstu skýrslu nýs hæstv. utanrrh. eftir stjórnarskipti um utanríkismál. Af því tilefni vil ég nota tækifærið og árétta óskir mínar til hans um velfarnað í starfi. Við lifum nú tíma sem eru trúlega eitt mest hraðfara breytingaskeið í heiminum frá seinni heimsstyrjöld. Síðan þá hafa Íslendingar sennilega aldrei fyrr átt jafnmikið í húfi, átt jafnmikið undir því að sá sem gegnir embætti utanrrh. hafi til að bera víðsýni á þessar breytingar, skarpskyggni á það hver á að vera hlutur Íslands á þessu breytingaskeiði í samfélagi þjóðanna og ríkan vilja til þess að gæta hagsmuna Íslendinga einarðlega í samskiptum við aðrar þjóðir.

Það gefst enginn tími til þess að fjalla ítarlega um þetta víðtæka málasvið, en ég vil segja það í upphafi að það er tvennt sem vekur athygli mína við málflutning hæstv. ráðherra. Hið fyrra er það að á sl. tveimur kjörtímabilum var tekið það frumkvæði að taka stórar og mikilvægar ákvarðanir um breytingar á stöðu Íslands í hverju stórmálinu á fætur öðru. Það vill svo til að flokkur hæstv. utanrrh., Framsfl., sem hann jafnframt er formaður fyrir, fór hamförum í andstöðu gegn sumum þessara mála. Nú er það hlutverk hæstv. ráðherra að leggja blessun sína yfir þær aðgerðir og að annast framkvæmdina hógværlega.

Annað mál er það að hæstv. ráðherra sagði sjálfur í framsögu sinni að hann hefði varið meginhluta ævi sinnar til þess að hugsa um og gæta hagsmuna Íslendinga á sviði hafréttar og sjávarútvegsmála. Í ljósi þeirra ummæla vekur það athygli mína að umfjöllun hans um þetta mikilvæga málasvið er að mínu mati knappt, yfirborðskennt og skilur eftir stærri eyður heldur en ég hafði átt von á.

Fyrst um þau stóru mál sem sá sem hér stendur hafði að ýmsu leyti frumkvæði að sem utanrrh. sl. 7 ár, þá er rétt að nefna nokkur dæmi. Stærsta málið var að sjálfsögðu aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu. Flokkur hæstv. utanrrh., Framsfl., á þá sögu að baki að hafa bæði setið hjá við aðild Íslands að EFTA á sínum tíma og hafa klofnað í afstöðunni til Evrópska efnahagssvæðisins, annars vegar helmingur þingflokksins í andstöðu og hinn sat hjá. Það er dapurleg, söguleg staðreynd og lýsir hvorki framtíðarsýn né einörðum vilja til þess að gæta hagsmuna Íslendinga á breytingaskeiði. Þess vegna vekur það óneitanlega athygli að aðild okkar að Evrópska efnahagssvæðinu er að mati hæstv. utanrrh. helsta haldreipi okkar, bæði að því er varðar samskipti okkar við Evrópusambandið og reyndar einnig samskipti okkar í Norðurlandasamstarfinu við þær þjóðir sem gengið hafa í Evrópusambandið. Það er rétt að halda til haga því sem hæstv. ráðherra segir um þetta efni, með leyfi forseta, orðrétt:

,,Samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið hefur reynst traustur grunnur samskipta okkar við Evrópusambandið.``

Það segir allt sem segja þarf um fyrri málflutning framsóknarmanna í því efni.

Önnur dæmi um stórmál sem vörðuðu breytingar á utanríkisstefnunni og framkvæmd hennar eru sem dæmi: Aukaaðild okkar að Vestur-Evrópusambandinu. Talsmaður Framsfl. í utanrmn., hv. þm. Páll Pétursson, og fyrrv. formaður Framsfl. vöruðu eindregið við því og töluðu reyndar algerlega gegn því, töldu það misráðið og óþarfa.

Þriðja dæmið um stórmál sem við beittum okkur fyrir var að sjálfsögðu stofnaðild okkar að GATT sem átti sér langan aðdraganda og var unnið að á vettvangi a.m.k. þriggja ríkisstjórna. Það mál fékk þann farsæla endi að það varð samstaða um aðildina þótt það verði að sjálfsögðu að minna á að það hafi komið í hlut núv. hæstv. ríkisstjórnar að klúðra mjög framkvæmd málsins.

Fjórða stórmálið var að sjálfsögðu endurskoðun á varnarsamstarfinu við Bandaríkin sem fólst í bókuninni frá byrjun árs 1994. Þar tókst að koma í veg fyrir að þær breytingar yrðu framkvæmdar að Ísland yrði án virkra loftvarna. Það stendur að sjálfsögðu allt óbreytt.

Fimmta stórmálið lýtur hins vegar að hafréttarmálum og lauk með ákvörðun fyrrv. ríkisstjórnar um aðild Íslands að sjálfum Svalbarðasamningnum sem er grundvallaratriði framvegis í deilum þeim sem við eigum í við Norðmenn á sviði hafréttarmála. Ég legg sérstaka áherslu á það að ég sakna þess mjög að í ræðu hæstv. utanrrh. nú þegar við stöndum í alvarlegum en viðkvæmum samningum um þau mál, þá er nánast lítið sem ekkert að því vikið.

Auðvitað má nefna fjölmörg önnur stórmál sem við beittum okkur fyrir í tíð fyrri ríkisstjórna, svo sem eins og frumkvæði okkar að viðurkenningu á sjálfstæði Eystrasaltsþjóðanna sem endaði með aðild okkar Eystrasaltsráðinu og að sjálfsögðu stendur óbreytt. Frumkvæði okkar að því að eiga í fyrsta sinn aðild að friðargæslustörfum í fyrrum Júgóslavíu stendur að sjálfsögðu óbreytt. Opnunin til Kína með stofnun sendiráðs og gerð rammasamninga við Kínverja sem ruddi brautina fyrir auknum viðskiptasamskiptum á þeim risavaxna markaði sem og sú stefnubreyting sem ákveðin var á sviði þróunarsamvinnu með því að einbeita okkur að lykilverkefnum og þá sérstaklega á sviði sjávarútvegs í samstarfinu við Namibíu.

[11:30]

Allt eru þetta dæmi um stórmál sem sum hver voru geysilega umdeild, tóku reyndar meginhluta þingsins, einkum og sér í lagi vegna andstöðu Framsfl. við þau. Önnur eru til staðfestingar á samhenginu í íslenskri utanríkispólitík sem út af fyrir sig er ánægjuefni. Það er raunverulega kannski aðeins eitt sem fram kemur sem beinlínis er stefnubreyting af hálfu hæstv. utanrrh. en það varðar þá tilraunastarfsemi sem efnt var til á viðskiptasviðinu, að utanríkisþjónustan tæki ákveðið frumkvæði að því að greiða fyrir markaðsetningu og sölu á íslenskum menningarafurðum og menningarverðmætum á erlendum markaði. Það var að mínu mati mjög þarft frumkvæði og ég harma að það var eitt fyrsta verk núv. hæstv. ráðherra að draga það til baka. Það vekur hins vegar athygli mína að nú hefur einkageirinn tekið það mál upp þar sem búið er að stofna fyrirtæki ungra og framtakssamra manna sem hafa skilning á þessu og hafa það sem meginverkefni að markaðssetja og selja íslenskar menningarafurðir, þ.e. íslenska tónlist, íslenskar bókmenntir og íslenska myndlist á erlendum markaði fyrir utan íslenskar kvikmyndir og annað slíkt. Hér er um að ræða verðmæti sem fáir hafa skilning á að eigi erindi á erlendan markað og það er því mjög miður að þeirri tilraunastarfsemi skuli lokið.

Virðulegi forseti. Í rauninni eru tvö stórmál sem ættu að vera rauði þráðurinn í umræðunni. Annars vegar er það að sjálfsögðu umræðan um samskipti Íslands við Evrópusambandið og hins vegar er það umræðan um hafréttarmálin í ljósi þess sem gerst hefur í samskiptum okkar við önnur ríki, í ljósi hins nýja samnings um deili- og flökkustofna sem hefur að vísu ekki tekið gildi enn á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og í ljósi þeirra gerbreyttu aðstæðna sem við erum í eftir að við tókum loksins ákvörðun um að að gerast aðilar að Salbarðasamningnum. Þetta eru þau mál sem ættu að vera uppistaðan í þeirri umræðu sem hér á að fara fram um hagsmuni Íslendinga í samtíð og framtíð.

Ég hef ekki tíma til þess hér og nú að fjalla mikið um Evrópusambandið en áskil mér rétt til þess að gera það seinna í umræðunni. Ég læt mér nægja að segja að kaflinn um það mál veldur að sjálfsögðu vonbrigðum en ekki meiri en við var að búast vegna þess að hér er sagt að vísu fullum fetum um Evrópusambandið að stækkun Evrópusambandsins til austurs, sem er að leiða til þess að Evrópusambandið verði að allsherjarsamtökum evrópskra lýðræðisríkja á næstu árum, sé mál sem Íslendingar geti ekki látið fram hjá sér varða. ,,Hún varðar því hagsmuni Íslendinga afar miklu,`` segir hér, með leyfi forseta, ,,bæði sem Evrópuþjóðar og vegna þess að með hverju nýju aðildarríki að ESB stækkar EES að sama skapi. Íslendingar geta því ekki staðið hjá sem hlutlausir áhorfendur.``

Það er nákvæmlega það sem er stefna núv. hæstv. ríkisstjórnar, það er að sitja hjá sem hlutlausir áhorfendur að þeim atburðum sem setja mest svipmót sitt á breytingarnar í pólitísku, efnahagslegu umhverfi okkar umhverfis, Evrópu, á næstu árum. Rökin fyrir þessu eru gamalkunnug. Þau eru þau að það að leita eftir aðild að Evrópusambandinu feli sjálfkrafa í sér að við afsölum okkur yfirráðum yfir auðlindum. Þessi röksemdafærsla er í fyrsta lagi einfeldningsleg, í annan stað styðst hún við afar hæpin rök og í þriðja lagi lýsir hún afstöðu sem er uppgjöf, biðstöðu og vonleysi. Ég hef ekki tíma til þess að tíunda rök okkar fyrir því að þetta eru ekki veigamiklar röksemdir. Ég læt mér nægja að segja að auðvitað er það miður að hér skuli sitja við völd ríkisstjórn sem er ekkert að aðhafast í þessu stóra máli, sem er ekki að vinna heimavinnuna sína, sem er ekki að beita stjórnkerfinu til þess að gera rækilega úttekt á íslenskum þjóðarhagsmunum á hverju einasta sviði í þessu stóra máli og er ekki að greiða götu okkar kerfisbundið í væntanlegum samningum ef af verða. Að þessu leyti er þessi ríkisstjórn vor á Íslandi einsdæmi í heimshluta okkar og það er athyglisvert að hæstv. ráðherra vitnar sjálfur til þess að það er ekki til sú ríkisstjórn í Evrópu, Mið-Evrópu, Austur-Evrópu, Eystrasaltsþjóðirnr sem eru ekki með það sem meginverkefni á verkefnaskrá sinni að undirbúa og marka stefnu að því er þetta varðar. Hér er biðstaða, hér sitja menn eins og biðskýli við veginn. Að því mun ég kannski víkja ögn síðar en nú vil ég, með leyfi forseta, segja örfá orð um hafréttarmálin.

Það er söguleg staðreynd að norsk stjórnvöld hafa á undanförnum áratugum með nokkuð framsýnum hætti og kerfisbundið markað sér útþenslustefnu á Norður-Atlantshafssvæðinu. Það gerðu þeir strax með tilkalli til yfirráða yfir austurströnd Grænlands sem varð að máli fyrir Alþjóðadómstólnum í Haag sem Norðmenn töpuðu að vísu. Það gerðu þeir með því að kasta eign sinni á Jan Mayen upp úr 1930 sem þeim tókst að verulegu leyti. Og það gerðu þeir á árunum 1976--1977 þegar þeir tóku sér einhliða og án samráðs við aðra þann rétt í blóra við ríkjandi þjóðarrétt að lýsa yfir fiskverndarsvæði í kringum Svalbarða, færa það úr 4 mílum í 200 mílur og gera að norskri lögsögu. Um þetta má segja að það er að sjálfsögðu harmsefni að íslenskir stjórnmálamenn og stjórnmálaleiðtogar á fyrri tíð voru andvaralausir í þessu, höfðu asklok fyrir himin, sáu ekki út fyrir sína þröngu landhelgi á þeim tíma, fylgdust ekki með, brugðust ekki við, misstu af tækifærinu.

Þessi þróun náði hápunkti með yfirlýsingunni um Svalbarðasvæðið. Hún er grundvöllur lagadeilu milli Íslands og Noregs, ekki milli Íslands og Rússlands vegna þess að Sovétríkin og síðan Rússland hafa algerlega andmælt þessum sjálftökurétti Norðmanna og ekkert ríki hefur raunverulega við nánari skoðun viðurkennt de jure sjálftöku Norðmanna í þessu efni nema Kanadamenn því að Finnar hafa útskýrt að þeirra viðurkenning er ekki raunveruleg viðurkenning á þessum sjálftökurétti.

Í ljósi þessara staðreynda og í ljósi þess að við erum nú aðilar að Svalbarðasamningnum er það mjög alvarlegt mál þegar hæstv. ráðherrar, sjútvrh. og utanrrh., gefa í skyn án þess kannski að segja fullum fetum að ef þeir ná einhverjum samningum, hugsanlega um lítilræði að því er varðar kvóta í Barentshafi, ég tala nú ekki um í Smugunni, séu þeir reiðubúnir til þess að falla frá þeim kröfum sem settar voru fram gegn norskum stjórnvöldum í krafti aðildar okkar að Svalbarðasamningnum, þ.e. reiðubúnir að afsala okkur rétti sem við eigum samkvæmt Svalbarðasamningnum, ekki bara til fiskveiða heldur til nýtingar auðlinda innan 200 mílna í kringum Svalbarða. Það er mál sem ég bið menn um að staldra við og hugleiða því það væri glapræði. Ég tek skýrt fram að ég er ekki að álasa hæstv. ráðherrum eða gagnrýna ríkisstjórnina fyrir það að hafa ekki náð samningum við Norðmenn og Rússa um veiðiheimildir í Barentshafinu. Ég var alla tíð við því búinn að það mál yrði harðsótt, torsótt og gæti tekið langan tíma. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að við eigum að gefa okkur þann tíma sem þarf og hrapa ekki að skyndilausnum. En hitt væri hrapallegt ef menn gerðust svo lítilþægir að fallast á einhverja smániðurstöðu í því máli en afsöluðu sér síðan þeim stóru hagsmunum sem við eigum af þjóðarrétti fullan rétt á og eigum að gæta, þá yrðum við komnir í sömu spor og Kanadamenn sem í fljótræði sínu en út frá allt annarri hagsmunasýn urðu eina þjóðin til þess að afsala sér rétti sínum samkvæmt Svalbarðasamningnum fyrir þægilegri afstöðu Norðmanna gagnvart þeirra eigin hagsmunum utan kanadísku lögsögunnar.

Við verðum að hafa í huga að Svalbarði er fyrir utan 200 mílna lögsögu Norðmanna. Norðmenn eiga engan rétt á grundvelli landgrunns síns til 200 mílna lögsögu í kringum Svalbarða. Við skulum athuga að þeir hafa aldrei treyst sér til þess að lýsa því yfir að þetta svokallaða 200 mílna fiskverndarsvæði sé hluti af norskri efnahagslögsögu. Það hafa þeir ekki gert. Hvers vegna ekki? Vegna þess að þeir vita það að ef gjörningur þeirra um sjálftöku á 200 mílum í kringum Svalbarða á að hafa einhverja stöðu að þjóðrétti hlýtur það að byggjast á Svalbarðasamningnum sjálfum en ekki á hafréttarsáttmálanum. Svalbarðasamningurinn er 40 þjóða samningur og hann kveður á um réttindi og skyldur. Norðmenn geta ekki túlkað þann samning þannig að hann færi þeim rúmt túlkuð réttindi en neita að viðurkenna skyldur sínar. Ef þeir eiga rétt á 200 mílum kringum Svalbarða er það réttur allra aðildarþjóðanna og hann er ekki bara til fiskveiða, hann er til nýtingaauðlinda og Norðmenn vita það manna best að á því svæði má búast við að séu mjög verulegar auðlindir á hafsbotni og undirbotni í formi olíu og gass og það er auðvitað meginmál Norðmanna. Þess vegna vil ég, virðulegi forseti, þótt ég hafi ekki tíma til að fjalla um þetta frekar --- ég áskil mér rétt til að gera það síðar --- vara við því eindregið að menn hrapi að því að afsala sér þeim rétti sem þannig var lagður grundvöllur að með þeirri framsýnu ákvörðun í tíð fyrrv. ríkisstjórnar að Íslendingar gerðust þarna aðilar.