Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 19. október 1995, kl. 12:28:34 (458)

1995-10-19 12:28:34# 120. lþ. 16.1 fundur 47#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), HJök
[prenta uppsett í dálka]

Hrafn Jökulsson:

Herra forseti. Óneitanlega yljar það manni um hjartarætur að heyra hæstv. utanrrh. Halldór Ásgrímsson lýsa því að samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði sé einn af hornsteinum íslenskrar utanríkisstefnu, ekki síst í ljósi þess að þáv. hv. þm. Halldór Ásgrímsson treysti sér ekki til þess á síðasta kjörtímabili að greiða samningnum atkvæði sitt á þessari virðulegu samkomu.

Samherjar hans í Framsfl. fóru hamförum gegn samningnum. Þeir voru langdvölum í þessu ræðupúlti og fluttu nákvæmar heimsendaspár fyrir hönd íslenskrar menningar, atvinnuvega og mannlífs. En batnandi mönnum er best að lifa og ánægjulegt að hæstv. utanrrh. skuli vera orðin forsöngvari í þeim kór sem nú lofar og prísar ávinning okkar af samningnum um EES. Margt má um blessaðan Framsfl. segja, en víst er að stefnufesta verður honum ekki að fjörtjóni. Eða hvern hefði órað fyrir því þegar liðsmenn núv. formanns Framsfl. hömuðust eins og naut í flagi gegn EES að hann ætti, sem utanrrh., eftir að gefa þingheimi til kynna að aðild að Evrópusambandinu sé engan veginn útilokuð, þótt ekki sé hún á hinni frægu dagskrá ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar. Orðrétt úr ræðu ráðherra, með leyfi forseta:

,,Engin vísbending hefur fengist um að Íslendingar gætu losnað undan ákvæðum Rómarsáttmálans í þessum efnum og því er aðildarumsókn órökrétt. Það er hins vegar ljóst að ef breytingar verða í þessum efnum og nýjar vísbendingar koma fram er komin upp ný staða sem þarf að meta þegar þar að kemur.``

Ný vísbending, herra forseti, og þá er maddama Framsókn til í allt. Hvað ætli hæstv. félmrh. finnist um þetta? Honum hefur e.t.v. ekki gefist tóm til að kynna sér efni ræðu hæstv. utanrrh. Eins og alþjóð veit er gamli herstöðvaandstæðingurinn á miklum þönum á herjeppanum sínum að bera út póstinn frá Brussel.

[12:30]

Ég get ekki látið hjá líða að víkja að öðru atriði í ræðu hæstv. utanrrh. Nú er hann ekki þekktur fyrir léttúð af neinu tagi og því er mér ekki ljóst hvort yfirlýsingar hans um útfærslu GATT-samningsins flokkast undir gamansemi eða óskhyggju. Alltént varð hæstv. utanrrh. með öllu viðskila við veruleikann þegar hann sagði, með leyfi forseta:

,,Framkvæmd landbúnaðarsamningsins hér á landi endurspeglar þá sátt sem náðst hefur um málið á Alþingi og er jafnframt í grundvallaratriðum í samræmi við það sem gerist í öðrum löndum.``

Framsóknarmenn eru sannarlega miklir sérfræðingar í því að koma miklum misskilningi fyrir í mjög stuttu máli. Það er engin sátt um útfærsluna á GATT, hvorki á Alþingi né annars staðar. Hæstv. utanrrh. hefur verið á faraldsfæti síðustu mánuðina, en hann ætti að gefa sér tóm til að kynna sér skoðanir verkalýðshreyfingarinnar, atvinnurekenda, kaupmanna og neytenda, á útfærslunni á GATT-samningnum. Íslendingar eru nefnilega einir um þann frama að nota samning um aukna milliríkjaverslun til þess að hækka tollmúra og torvelda innflutning. Þess vegna lækkar matarverð ekki á Íslandi og þess vegna er bændum áfram haldið í kæfandi faðmlagi ofverndar.

Sælir eru einfaldir og sælir eru framsóknarmenn. Sáttin um útfærsluna á GATT er hvergi til nema milli framsóknarmanna, Sjálfstfl. og Framsfl.

Það eru hins vegar tíðindi að þeir þingmenn Sjálfstfl., sem til þessa hafa gefið sig út fyrir að vera frjálslyndir talsmenn neytenda, þegja nú þunnu hljóði. Reyndar er athyglisvert að hvorki hefur heyrst né sést til óbreyttra þingmanna Sjálfstfl. allar götur síðan í vor. Hlutskipti þeirra er harla dapurlegt, tjóðraðir á bás í fjósi Framsóknar með Höllustaðaguðspjallið eitt til sáluhjálpar.

Herra forseti. Það er efamál að nokkurt þjóðþing í Evrópu láti sig utanríkismál jafnlitlu varða og Alþingi Íslendinga. Til marks um það er t.d. sú staðreynd að umræðum um skýrslu hæstv. utanrrh. er þröngur stakkur sniðinn. Þannig fór snöggtum meiri tími þingmanna í að ræða eigin launamál. Fyrstu þingfundir þess nýliða sem hér stendur minntu fremur á fund um kjaramál í stéttarfélagi en samkomu elsta löggjafarþings heims.

Því var nýlega haldið fram í virðulegu dagblaði að sárafáir þingmenn sýni áhuga á því sem fram fer utan landsteinanna og að enn færri búi yfir þekkingu á alþjóðamálum. Getur þetta verið rétt? Ég tók mig til í gærkvöldi og blaðaði í gegnum Alþingistíðindi síðasta vetrar. Niðurstaðan varð þessi: Ógjörningur er að saka hæstv. alþm. um skort á hugkvæmni þegar umræðuefni eru annars vegar. Settar voru á langar tölur um lögreglumál í Kópavogi, skattgreiðslur af útflutningi hrossa, aldurshámark bifreiðastjóra, markaðssetningu rekaviðar og varðveislu arfs húsmæðraskóla, svo dæmi séu tekin af handahófi um þau þjóðþrifamál sem hæstv. þm. tjáðu sig um á rúmlega 4.000 bls. Alþingistíðinda.

En hversu oft ætli þingmenn hafi haft frumkvæði að umræðum um þá tegund utanríkismála sem ekki snertir Íslendinga beint? Hversu oft sáu þingmenn ástæðu til að líta út fyrir landsteinana? Herra forseti, það var hvorki meira né minna en einu sinni allan síðasta vetur. Hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir flutti ásamt fleirum þáltill. um aðgerðir til stuðnings íbúum Austur-Tímor. Í þessari einu tillögu var fólgið samanlagt framlag þingheims til mótunar íslenskrar utanríkisstefnu. Margir hv. þm. virðast þá aðeins minnast á útlönd þegar þeir taka sér í munn hið skelfilega orð Brussel. Undir slíkum kringumstæðum tekst mörgum pólitískum heimalningi að tala sig upp í ástríðuhita, en að öðru leyti líta þeir svo á að það klagi ekki upp á Íslendinga hvað gerist einhvers staðar í útlöndunum. Þeir gætu þess vegna tekið undir með Bjarti í Sumarhúsum:

  • Spurt hef ég tíu miljón manns
  • sé myrtir í gamni utanlands,
  • sannlega mega þeir súpa hel,
  • ég syrgi þá ekki, fari þeir vel.
  • Getur verið að afstaða þingmanna til alþjóðamála markist af þeirri hreppapólitík sem margir hafa þróað upp í hreina listgrein? Í ræðu hæstv. utanrrh. var ekkert, alls ekkert, sem ekki varðaði beint hagsmuni Íslendinga. Að öðru leyti eru aðþjóðamál ekki á dagskrá.

    Herra forseti. Síðustu fjögur ár hefur geisað stríð í Evrópu. Litlu ríki í hjarta álfunnar hefur smám saman verið að blæða út. Hæstv. utanrrh. fjallaði einkum um styrjöldina á Balkanskaga í aukasetningum. Ég minnist þess ekki heldur að þingmenn hafi látið sig helför Bosníu miklu varða. Til eru þeir menn sem opinberlega taka undir með Bjarti í Sumarhúsum og segja sem svo: Hvað kemur okkur þetta við? Hvað eigum við að skipta okkur af því þótt einhverjir útlendingar standi í vígaferlum? Þjóðarmorð suður í löndum koma okkur ekki við.

    Málefni Byggðastofnunar kunna að vera mikilvægari en sú staðreynd að við höfum í beinni útsendingu horft upp á 250.000 manns slátrað í Bosníu. Og markaðssetning rekaviðar er e.t.v. mikilvægari en mannréttindi á Austur-Tímor.

    Á vorþingi var borin fram þáltill. um að ríkisstjórnin beitti sér fyrir á alþjóðavettvangi afnámi viðskiptabanns á Írak. Þetta var í maí. Í fskj. með tillögunni kom fram að samkvæmt opinberum tölum Sameinuðu þjóðanna deyja 400 börn í Bagdad á dag vegna skorts á næringu og lyfjum. Þetta eru afleiðingar viðskiptabanns sem Íslendingar eiga hlut að. Viðskiptabanninu var ætlað að grafa undan stjórn Saddams Husseins en þess í stað er verið að þurrka heila kynslóð írakskra barna út. Frá því að tillagan var lögð fram á Alþingi má ætla að 60.000 börn hafi dáið í Bagdad. Tillagan var vitanlega ekki afgreidd í vor. Ég veit ekki hvort hún hefur þurft að þoka fyrir umræðum um varðveislu arfs húsmæðraskóla. En þessi tillaga hefur nú verið flutt á nýjan leik, fimm mánuðum og 60.000 lífum seinna.

    Hér er komið mál sem utanrrh. Íslands ætti að taka upp á alþjóðavettvangi. Við Íslendingar höfum ekki til þessa lagt stund á þjóðarmorð. Með því að samþykkja viðskiptabann á varnarlausa þjóð erum við hins vegar samsek. Við hljótum að bera ábyrgð á afleiðingunum. Ég heiti á hæstv. utanrrh. að beita sér og bregðast við í þessu máli. Hann ætti þá jafnframt að kynna sér ofsóknir á hendur Kúrdum, bæði í Írak og ekki síður í Tyrklandi. NATO-ríkið Tyrkland hefur myrt þúsundir Kúrda og vinnur skipulega að því að uppræta menningu þeirra. Hafa alþingismenn ekkert við það að athuga að þetta bandalagsríki okkar skuli fangelsa réttkjörna þingmenn fyrir þær einar sakir að halda á loft málstað þessarar hrjáðu þjóðar?

    Herra forseti. Við Íslendingar getum í krafti smæðar og lýðræðishefðar haft áhrif á alþjóðavettvangi. Við getum látið rödd okkar heyrast. Við getum verið málsvarar mannréttinda og frelsis af því að sjálf höfum við hreinan skjöld.

    Heimsmyndin breytist dag frá degi. Ekki einasta fjölgar smáríkjum ört heldur er það líka að ganga eftir sem Pétur Gunnarsson sagði í ljóði fyrir 20 árum: ,,Landamæri eru tilbúningur.``

    Á nýrri öld munu alþjóðamál skipa öndvegi hjá öllum þjóðum sem ætla að vera hlutgengar í veröldinni. Þetta er staðreynd sem hv. alþm. verða að átta sig á; ætli þeir sér ekki það hlutskipti að daga uppi innan við andlegan túngarð.