Mótun opinberrar stefnu í fjölmiðlun

Fimmtudaginn 19. október 1995, kl. 14:07:55 (462)

1995-10-19 14:07:55# 120. lþ. 17.4 fundur 72. mál: #A mótun opinberrar stefnu í fjölmiðlun# þál., menntmrh.
[prenta uppsett í dálka]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Ég fagna því að hér fari fram umræður um starfsemi fjölmiðla en hins vegar tel ég mjög varasamt að farið sé inn á þá braut að mótuð sé opinber stefna í fjölmiðlun. Ég tel að þar sé verið að fara inn á svið sem sé mjög vandasamt fyrir opinbera aðila að hafa afskipti af og það kunni að leiða til þess að reistar verði skorður við því frelsi sem ég tel eðlilegt að ríki þegar fjölmiðlun er annars vegar. Ríkisvaldið kemur að fjölmiðlun eins og þið vitið með rekstri Ríkisútvarpsins og einnig eru í gildi almennar reglur um starfsemi fjölmiðla sem tiltölulega góð sátt hefur ríkt um. Í þáltill. sem hér liggur fyrir stendur að það eigi að skipa nefnd sem geri tillögu um mótun stefnu og markmið stefnunnar verði þríþætt:

a. að standa vörð um tjáningarfrelsi sem hornstein lýðræðis,

b. að tryggja almenningi aðgang að alhliða, málefnalegum og faglegum upplýsingum,

c. að efla íslenska tungu og menningu.

Að því er varðar fyrsta liðinn tel ég, herra forseti, að Alþingi hafi með breytingum á stjórnarskrá íslenska lýðveldisins sem var hér til umræðu á síðasta og næstsíðasta þingi gert ráðstafanir til þess að standa vörð um tjáningarfrelsið og viðurkennt að það sé hornsteinn lýðræðisins, að stjórnarskránni hafi þegar verið breytt með þeim hætti að vel sé að þessari varðstöðu hugað og að ekki þurfi að setja sérstaka nefnd til þess að fjalla um þetta mál. Það hafi þegar verið gert með viðunandi hætti af þingi og var staðfest af því þingi sem nú situr eftir kosningar.

Varðandi þriðja liðinn ,,að efla íslenska tungu og menningu`` lít ég þannig á að Alþingi hafi með samþykkt sem var gerð á Þingvöllum 17. júní 1994 í tilefni af 50 ára afmæli lýðveldisins lagt grunn að stórátaki til að efla íslenska tungu og menningu. Komið var á fót eins og við vitum sérstökum sjóði til að styrkja m.a. átak í þágu íslenskrar tungu og menningar og ef þau markmið nást sem þar voru sett á því máli að vera borgið.

Síðan er það b-liðurinn í tillögunni ,,að tryggja almenningi aðgang að alhliða, málefnalegum og faglegum upplýsingum.`` Með því að ætla sér að ríkisvaldið setji reglur um það hvernig unnt sé að tryggja almenningi aðgang að alhliða málefnalegum og faglegum upplýsingum held ég að við séum komin inn á svið sem eigi ekki að vera á valdi löggjafans eða stjórnvalda að setja reglur um. Auk þess er þróunin í þá átt, hvað sem líður ágætum vangaveltum í greinargerð með þessari tillögu annars vegar sem er rétt hjá tillögumönnum, að samruni á sér stað hjá mörgum stórum aðilum í fjölmiðlaheiminum en á sama tíma aukast möguleikar bæði einstaklinga og smærri fyrirtækja til þess að taka þátt í fjölmiðlun með þeim hætti sem aldrei hefur verið áður. Einn maður á heimili sínu getur stundað fjölmiðlastarfsemi með því að hafa tölvu og síma að vopni sem aldrei hefur verið til áður í sögu mannkynsins. Upplýsingamiðlunin er orðin á þann veg að það er algerlega ógerlegt að ætla sér að setja um það opinberar reglur hvernig að slíku verði staðið og alls ekki unnt að beina athyglinni að einstaka fjölmiðlafyrirtækjum heldur verður að líta á tækniþróunina en hún hefur sem betur fer verið í þá átt að fjölbreytnin hefur aukist og kostir manna til þess að koma sjónarmiðum sínum á framfæri í tæknivæddum þjóðfélögum og vel upplýstum þjóðfélögum eins og því íslenska eru miklu meiri en nokkru sinni áður í sögu okkar.

Að mínu mati er það einnig tímaskekkja að ætla að álykta um þetta efni sérstaklega og setja niður nefnd til þess að fjalla um þetta í ljósi þeirrar greinargerðar sem hér liggur fyrir. Þar eru setningar eins og þessi: ,,Opinber stefna í fjölmiðlun ætti að ná bæði yfir prent- og ljósvakamiðla.`` Ef þessi stefna ætti ekki að ná yfir annað en frétta- og ljósvakamiðla næði hún alls ekki yfir það sem menn eru að tala um núna þegar rætt er um fjölmiðlun og hvernig upplýsingum er komið á framfæri. Ég lít þannig á, herra forseti, að hér sé farið inn á brautir sem er, eins og ég hef rakið, óþarft að fara inn á og Alþingi þurfi ekki að setja niður nefnd og þurfi ekki að fjalla um þetta mál með þessum hætti þar sem þegar sé vel að því staðið. Ég velti því fyrir mér hvað felst í hugtaki eins og ,,virk fjölmiðlastefna``. Hvað er virk fjölmiðlastefna? Ef opinberir aðilar eiga að fylgja slíkri stefnu hvar eru mörkin á milli virkrar fjölmiðlastefnu og ritskoðunar eða annarra hamla sem menn setja á þá sem stunda fjölmiðlun? Við settum á sl. vetri lög um Kvikmyndaeftirlit ríkisins í því skyni að herða ákvæði í lögum varðandi ofbeldiskvikmyndir og annað slíkt og við höfum farið inn á þau svið. Við höfum takmarkað tjáningarfrelsið að því er varðar auglýsingar á tóbaki og áfengi og við höfum gert ýmsar ráðstafanir til þess að takmarka tjáningarfrelsið en ég vara við því að menn fari að móta eitthvað sem kallað er virk fjölmiðlastefna án þess að þeir geri sér glögga grein fyrir því áður en út á þær brautir er farið hvað í slíku hugtaki felst.

Ég tók þátt í því á vettvangi þings Evrópuráðsins að fjalla um málefni er snerta fjölmiðla og innra starf þeirra, siðareglur, eignarhald og hvernig starfsháttum skyldi háttað. Ég tel víst að þessari tillögu verði vísað til nefndar og ég skora á nefndarmenn, sem taka málið til athugunar, að kynna sér þær samþykktir Evrópuráðsins um þessi mál og sjá um hvað menn náðu samstöðu þar að þessu leyti og einnig framhald málsins, kynna sér þær miklu deilur sem urðu síðan bæði meðal blaðamanna og eigenda fjölmiðla vegna þeirrar niðurstöðu sem menn komust að á þingi Evrópuráðsins þar sem mannréttindi eiga að vera höfð að leiðarljósi og ef menn kynna sér þau gögn og framvindu þess máls þá ættu þeir að átta sig á því að erfitt er að fikra sig inn á þessar brautir án þess að þeir lendi í þeim ógöngum að vera sakaðir um að ætla að leggja hömlur á tjáningarfrelsi og setja ritskoðun á með einum eða öðrum hætti.

Herra forseti. Ég tel að þessi tillaga sé góðra gjalda verð vegna þess að hún kallar á umræður um þessi mál, en ég teldi það ekki til gagns að hún yrði samþykkt á hinu háa Alþingi.