Mótun opinberrar stefnu í fjölmiðlun

Fimmtudaginn 19. október 1995, kl. 14:15:47 (463)

1995-10-19 14:15:47# 120. lþ. 17.4 fundur 72. mál: #A mótun opinberrar stefnu í fjölmiðlun# þál., Flm. LG
[prenta uppsett í dálka]

Flm. (Lilja Á. Guðmundsdóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. fyrir að taka þátt í þessari umræðu, en það er mikill misskilningur ef hann heldur að þessi tillaga sé sett fram til þess að hindra starf fjölmiðla á einn eða annan hátt, þvert á móti. Ég held að það komi mjög greinilega fram í greinargerðinni með tillögunni og í þeim þrem markmiðum sem tilgreind eru í tillögugreininni að það er einmitt ekki til að hindra eða ritskoða það efni sem almenningi stendur til boða hér á landi. Hitt er ljóst að verði þróunin eins og hún hefur orðið núna undanfarið, að almenningi stendur nánast einungis til boða einhæft tónlistarefni í útvarpsrásum og örfá dagblöð sem eiga íslenskan markað, þá er spurning hvort það sé ekki einhvers konar ritskoðun. Það er alveg ljóst að ríkisvaldið getur eflt upplýsingaflæðið í landinu með því að styðja markvisst við t.d. útgáfu blaða og tímarita og þá vil ég einkum og sér í lagi vísa til dagblaða því að þau gegna mjög mikilvægu hlutverki. Eins og flestallir vita hafa dagblöð sérstöðu. Kostir þeirra eru ótvíræðir og þau gegna meginhlutverki við að koma á framfæri alhliða fréttum, fréttaskýringum, mismunandi skoðunum og skoðanaágreiningi. Hlutverk ríkisvaldsins gæti t.d. verið það að stuðla að því að amenningur hafi aðgang að fleiri og fjölbreyttari dagblöðum en hann hefur í dag. En þá þarf að gæta þess að verðlagningin á þessum blöðum sé þannig að allir geti nálgast þau en ekki bara ákveðinn þröngur hópur fólks. Ég held að mesta hættan í samfélagi nútímans sé sú þróun að það eru ákveðnir hópar þjóðfélagsins, við getum slett og sagt ,,élite`` hópar, sem hafa mjög greiðan aðgang að alls konar upplýsingum á ýmsum tungumálum, en síðan er þó nokkuð stór hópur sem hefur mjög takmarkaðan aðgang að upplýsingum. Þetta finnst mér að hið opinbera ætti að skoða og skipa til þess nefnd. Við flm. berum þessa tillögu ekki fram bara út í bláinn. Hún á sér víða fyrirmynd.. Ég hef einkum og sér í lagi stuðst við norska stefnu í mínum þankagangi hér. Norðmenn hafa mótað opinbera stefnu í fjölmiðlum og virðast átta sig mjög vel á því að þeir eru fámennt þjóðfélag og það þarf að styrkja alla útgáfustarfsemi og alla umræðu á þeirra tungumáli. Ég held einmitt að við þurfum að huga vel að því.

Við erum að eyða púðri í að ræða um tæknileg smáatriði eins og afnotagjald af Ríkisútvarpi. Það er ekki það sem skiptir höfuðmáli, a.m. k. að mínu mati. Það sem skiptir höfuðmáli er hvernig við getum viðhaldið því lýðræði sem við viljum búa við og státum okkur af á hátíðarstundum, en því miður virðist það eingöngu vera á hátíðarstundum. Ég held að það sé mjög brýnt að huga að eignarhaldi fjölmiðla. Hér á landi eru engar reglur til um það. Við skulum líka hafa það í huga að engin stefna á þessu sviði er auðvitað stefna, það er mjög pólitísk stefna. Á þessu máli eru því mjög margar hliðar og ég held að það sé einmitt mjög brýnt að skipa nefnd til að vinna að þessu máli og fá gott fólk til að ræða um mikilvægi fjölmiðlunar og gildi upplýsinga í þessu svokallaða upplýsingaþjóðfélagi okkar. Þróunin er svo ör og það er mjög sárt að hugsa til þess að börn og ungmenni sitja t.d. stundum saman fyrir framan sjónvarpið og taka aðgerðalaus sífellt á móti upplýsingum og öðru efni. Þetta unga fólk er alls ekki virkt. Það er einmitt það sem þeir sem hafa hug á þessu máli eru nú víða að velta fyrir sér. Hvernig er hægt að gera fjölmiðlaneytandann virkan og hvernig er hægt að læra í gegnum fjölmiðlun eða með fjölmiðlaefni? Þannig eru á þessu máli mjög margar hliðar. Ef ég má, með leyfi forseta, ljúka við að fara í gegnum greinargerðina, þá eru þau atriði sem við viljum benda á t.d. að nefndin kanni rekstrarskilyrði fjölmiðla hér á landi. Hvernig skiptast auglýsingatekjur milli fjölmiðla? Er sjónvarp helsti auglýsingamiðillinn? Hvernig er unnt að tryggja fjárhagsgrundvöll Ríkisútvarpsins? Könnun á eignarhaldi fjölmiðla.

Eins og ég sagði áðan hafa verið settar reglur um takmarkaða eignaraðild að fjölmiðlafyrirtæki í mörgum öðrum löndum en hvernig eru íslensk lög og reglur? Er tilhneiging til samruna fjölmiðlafyrirtækja hér á landi sem gæti haft áhrif á tjáningarfrelsið? Það var talað um að einokun Ríkisútvarpsins á útvarpsrekstri væri ekki góð fyrir tjáningarfrelsið, en það er spurning hvort það er ekki alveg eins hættulegt fyrir tjáningarfrelsið ef einn fjársterkur aðili er alls ráðandi á markaðnum.

Við viljum einnig að hugað verði að gildandi reglum um auglýsingar í íslenskum ljósvakamiðlum. Eru reglurnar virtar og hafa þær gefið góða raun? Síðan eru það siðareglurnar. Í flestum Evrópulöndum starfa fjölmiðlar eftir ákveðnum siðareglum og víða a.m.k. á hinum Norðurlöndunum taka þeir mið af siðareglum blaðamanna og þannig er það hér. Skoðuð verði lög og reglur um ljósvakamiðlana og einnig lög um Ríkisútvarpið. En eins og hæstv. menntmrh. minntist á, þá er starfandi nefnd til þess að skoða reglurnar um Ríkisútvarpið.

Reglur um Menningarsjóð útvarpsstöðva verði endurskoðaðar og fundin önnur leið til að tryggja rekstrargundvöll Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Síðan bendum við á að stuðningur ríkisins við útgáfu fjölmiðlaefnis verði endurskoðaður og hvernig stuðningur ríkisins geti helst orðið til þess að stuðla að fjölbreyttri framleiðslu íslensks fjölmiðlaefnis. Og þá vil ég líka vísa til þess sem ég talaði um áðan, að styrkja t.d. dagblöð eða útgáfustarfsemi víða um landið.

Kanna ætti áhrif fjölmiðla á börn og unglinga. Taka gildandi reglur um auglýsingar nægilegt tillit til barna og unglinga? Hvernig er óbeinum auglýsingum háttað þegar börn og unglingar eru annars vegar? Hver er niðurstaða rannsókna á áhrifum ofbeldis í fjölmiðlum á börn og unglinga? Eru gildandi reglur um aldurstakmarkanir og aðgang að fjölmiðlaefni virtar? Þarf yfirleitt að huga betur að rétti barna og unglinga þegar fjölmiðlar eru annars vegar?

Nefndin skal einnig kanna hvort efla má ljósvakamiðlun í þágu almennings. Hvernig verður það best gert? Á t.d. að skylda einkarekna fjölmiðla eða ljósvakamiðla sem ná til landsins alls að starfa í almannaþágu? Hvernig verður rekstur Ríkisútvarpsins best tryggður og efldur og hvaða skyldur hafa einkareknir fjölmiðlar?

Ég ætla í lokin að vísa til viðtals sem einn af fréttamönnum Ríkissjónvarpsins átti við David Attenborough, þann fræga fjölmiðlamann. Hann talaði einmitt um mismuninn á fjölmiðlum sem starfa í almannaþágu og svo hins vegar fjölmiðlum sem hafa það að aðalmarkmiði að eigendur þeirra hagnist sem mest. Og það lék ekki nokkur vafi á því að hann taldi það mjög mikilvægt að fjölmiðill í almannaþágu fengi sterka stöðu. Ég get ekki annað en tekið undir orð hans því að það er mjög mikilvægt að það sé meiri breidd í því efni sem ljósvakamiðlar bjóða upp á en verið hefur undanfarin ár.