Framleiðsla og sala á búvörum

Fimmtudaginn 19. október 1995, kl. 15:19:03 (466)

1995-10-19 15:19:03# 120. lþ. 17.2 fundur 96. mál: #A framleiðsla og sala á búvörum# (sauðfjárframleiðsla) frv., JBH
[prenta uppsett í dálka]

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. ,,Þegar ég fór fyrst í framboð árið 1991 vildi svo til að ég var að taka til í gömlum kössum hjá mér og rakst þá á dagblöð frá árinu 1968 eða 1969 eða fyrir eitthvað tæplega 30 árum síðan. Það hefði mátt nota sömu fyrirsagnir í blöðin 1991 um landbúnaðarmálin eins og þær voru liðlega 20 árum áður. Vandinn hefur verið ljós um allt of langa hríð án þess að nokkuð væri gert í því að leysa hann.``

Þetta var tilvitnun, virðulegi forseti, með leyfi forseta, og höfundurinn Lára Margrét Ragnarsdóttir, þingmaður Sjálfstfl.

Þetta eru þá ummæli hv. þm. Sjálfstfl. um fjögurra ára valdaferil landbrh., Halldórs Blöndals. Vandinn vitaður alla tíð, ekkert gert. Þetta er líka umsögn um valdatíma fyrrv. hæstv. landbrh., keppinautar seinasta ræðumanns, sem hér var að fara úr stólnum, um forustu í Alþb., vandinn þekktur alla tíð, ekkert gert, ekkert aðhafst.

Annað skondið dæmi um ástandið í landbúnaðarmálum undir stjórn framsóknarmanna þriggja flokka á undanförnum árum birtist á baksíðu Morgunblaðsins þann 18. okt. Þriggja dálka fyrirsögn og tilefnið er þetta: Félag eggjaframleiðenda hafði lagt fram lögfræðiálit þar sem segir að Ríkisspítölunum sé óheimilt að reyna að spara sér 600--700 þús. kr. á ári með því að bjóða út og leita eftir lægri tilboðum á eggjum heldur en eitthvert fyrirskipað lágmarksverð einokunarkerfisins. Lögfræðiálitið var um það að slíkt væri algerlega bannað, að leita útboða og leita eftir hagstæðum kjörum, á sama tíma og núv. hæstv. ríkisstjórn, kollegi hæstv. landbrh., er að skera niður útgjöld til heilbrigðismála.

Virðulegi forseti. Ég nefni hérna tvö dæmi: Annars vegar að loksins er eins og einn, kannski tveir, kannski jafnvel þrír, hv. þingmenn Sjálfstfl., sem kosnir voru til þess í þéttbýliskjördæmum m.a. að gæta hagsmuna neytenda gagnvart einokunarkerfinu, hafi nú loksins þorað að fá málið a.m.k. Við eigum eftir að sjá það betur. Hitt er dæmi um það hvernig þetta úrelta kerfi blasir við fólki nú í lok 20. aldar sem forstokkað og blygðunarlaust einokunarkerfi.

Einn hv. þm. Sjálfstfl., hv. þm. Árni Mathiesen, orðaði það reyndar svo í blaðagrein að það væri skrýtið að hæstv. landbrh. væri fyrir hönd ríkisstjórnar að gera einhvern samning við heila stétt manna, bændur, búvörusamning, og má til sanns vegar færa. Af hverju ekki við aðrar stéttir, hæstv. ráðherra? Á ekki að gera samning við bakara? Á ekki að gera samning við verktaka? Á ekki að gera samning við stéttahópa ef atvinnuvegir eiga í þrengingum? Á þá ekki ríkið að gera samning t.d. um það að tryggja viðkomandi stéttum að kaupa af þeim afurðirnar eða að halda uppi atvinnustiginu án tillits til ríkisútgjalda?

Þessi samningur er réttlættur með því að brýna nauðsyn beri til að gera nú þennan samning. Það er vegna þess að samningurinn sem gerður var seinast, árið 1991, hafði algerlega brugðist. Það eru nákvæmlega sömu rök og voru árið 1991 og hefðu verið árið 1985 eða árið 1970 og eitthvað, vegna þess að vandinn sem menn hafa verið að velta á undan sér er ævinlega sá hinn sami. Um ráðin er það að segja, að þau hafa ævinlega brugðist og um þau má segja að þeim mun verr hafa þau gefist þeirra góðu manna ráð sem þeir hafa komið fleiri saman. Niðurstaðan er ævinlega sú hin sama.

Landbúnaðarstefnunni sem hefur verið rekin má lýsa á einfaldan máta á þennan veg:

Í fyrsta lagi hefur ríkið hefur yfirtekið algerlega starfsgrundvöll greinarinnar. Ríkið réttir fram gríðarlega fjármuni. Fyrir fáum árum voru þeir 12 milljarðar, rúmlega 10% af fjárlögum. Þeir hafa lækkað, m.a. í tíð fyrrv. ríkisstjórnar, en fyrst og fremst lækkað vegna minnkandi neyslu á þessum afurðum sem eru allt of háu verði seldar. En ríkið leggur fram umtalsverða fjármuni og leggur fram umtalsverða vernd. Þessir fjármunir, núna í formi beingreiðslna, sem áður voru framleiðslutengdir, eiga ekki að verða það í framtíðinni og það er partur af því að viðurkenna staðreyndir og verða við þeirri gagnrýni sem við jafnaðarmenn höfum haldið fram. Þessar beingreiðslur hafa að sjálfsögðu verið framleiðsluhvetjandi. Það er afar merkileg staðreynd að þrír fjórðu hlutar af þeim tekjum sem verða til við sölu landbúnaðarafurða á Íslandi koma beint úr vösum skattgreiðenda. Þrír fjórðu hlutar. Það er helmingi hærra heldur en t.d. í þeim löndum Evrópusambandsins þar sem allir viðurkenna að rekin hefur verið galin landbúnaðarstefna árum saman. En hún er helmingi hærri. Stuðningur ríksins við íslenskan landbúnað er helmingi hærri heldur en þar er. Hann er reyndar sá fjórði hæsti sem finnst á byggðu bóli í heiminum, hefur sem sé lækkað úr því að vera í langsamlega hæsta sæti í heiminum. Þetta er framleiðsluhvatning ríkisins.

Síðan kemur mál númer tvö og það er að vegna þeirrar offramleiðslu sem hlýst af þessari framleiðsluhvatningu, þá kemur ríkið með löggjöf um greiðslumark og kvóta og takmarkar þessa framleiðslu þegar menn eru búnir að fjárfesta í búum sínum og bústofni til þess að örva hana sem mest og hafa verið styrktir til þess. Af þessu leiðir að framleiðni í íslenskum landbúnaði og í matvælaframleiðslu hefur farið hríðminnkandi. Framleiðni í mjólkurframleiðslu og í mjólkuriðnaði, hvort heldur vegið er á mælikvarða fjármagns eða vinnuafls, hefur lækkað um 35% á undanförnum árum. Framleiðni í sauðfjárframleiðslu hefur staðið í stað, en staðið í stað frá því að vera einhver hin lægsta sem um getur. Með öðrum orðum, það er búið að gera atvinnugreinarnar gersamlega ósamkeppnisfærar.

Hver er svo hlutur annarra í skiptum við þetta? Hann er sá að matvælaverð er eitthvert hið hæsta á byggðu bóli og afkoma bænda, sem eiga að njóta þessarar stefnu, er einhver hin versta sem sögur kunna frá að greina. Jafnvel svo að meðaltekjur á sauðfjárbú nálgast það að vera það sem nú til dags mættu heita þokkalegar mánaðartekjur á ári. Stór hluti sauðfjárbænda er kominn í þá stöðu í þessu kerfi, sem vinir bænda hafa hróflað upp í kringum þá, að miðað við þá bústærð sem þeir mega hafa þá geta þeir ekki séð fjölskyldu farborða af þeim búrekstri. Það er alveg sama á hvaða kvarða þetta kerfi er metið, það er alveg sama hvar litið er á, út frá hagsmunum bænda, út frá atvinnurekstrarsjónarmiðum þeirra, út frá framlegð og framleiðni, út frá framförum í greininni, út frá sjónarmiðum neytenda gagnvart verðlagi, alls staðar fellur þetta kerfi á prófum. Og eins og hv. þm. Lára Margrét Ragnarsdóttir sagði og ég ég vitnaði til í upphafi, þetta kerfi er búið að vera óbreytt áratugum saman. Það var alveg eins þegar seinasti búvörusamningur var gerður. Það var alveg eins þegar lögin 1985 voru sett. Árangurinn er þessi, hann hefur löngu verið þekktur. Sá sem stýrði þessum málum seinast fyrir hönd Sjálfstfl. aðhafðist ekkert og nú kemur hæstv. landbrh. og segir: Ég tók við svo vondu búi að það var neyðarástand og þess vegna þarf ég að gera nýjan samning.

Við erum að tala hér um atvinnugrein sem metin er í stærðarhlutföllum íslenska þjóðarbúskaparins þannig að markaðsverðmæti landbúnaðarafurða á verðlagi ársins 1994 eru 22 milljarðar kr. Íslenska þjóðarframleiðslan er svona að nálgast 400 milljarða. Hlutur landbúnaðarins í vergri landsframleiðslu eru 2,8%. Það er rétt að hafa þau hlutföll í huga.

Eitt af hinum hástemmdu kosningaloforðum Framsfl. fyrir seinustu kosningar var sem kunnugt var að skapa 12 þúsund ný störf til aldamóta. Í ljósi þess að sköpun nýrra atvinnutækifæra byggir á fjárfestingu þá er rétt að hafa það í huga að fjárfesting í okkar þjóðfélagi er í sögulegu lágmarki, hefur aldrei verið lægri. Nýsköpun í íslensku þjóðfélagi í samanburði við þjóðfélögin í kringum okkur bendir til þess að við erum stöðugt að dragast aftur úr og það er stöðnun. Dettur einhverjum í hug að nýsköpun 12 þúsund starfa verði í sjávarútvegi eða í landbúnaði? Nei, það dettur engum í hug. Halda menn að þetta sé skynsamleg notkun á fjármunum áratug eftir áratug? Hafa hv. þm. gert sér grein fyrir því að í nafni blekkingariðju um útflutningsátak þá hefur, frá því að útflutningsbótakerfið var tekið upp, verið varið, reiknað til núvirðis, 48 þús. millj. kr. --- 48 milljörðum kr. --- í stuðning við útflutning á landbúnaðarafurðum? Vitið þið hver árangurinn er? Hann er nákvæmlega 0,0. Hann er nákvæmlega enginn. Segi og skrifa enginn. Þessum fjármunum, helmingnum af ríkisbúskapnum á ári, tæplega helmingi af skuldasöfnun þjóðarinnar í erlendum skuldum, ekki skuldasöfnun þjóðarinnar, skuldasöfnun opinberra aðila, hefur verið hent út um gluggann með þessu kerfi. Og, nota bene, í fullkomnu árangursleysi. Þessum peningum hefur verið fleygt út um gluggann. Svo eru menn að undrast það að við erum að dragast aftur úr öðrum þjóðum. Svo eru menn að undrast það að laun á Íslandi eru lág. Svo eru menn að undrast það að lífskjör almennings eru vond. Hver getur undrast það sem hugleiðir hvernig þessir aðilar sem borið hafa ábyrgð á landbúnaðarstefnunni á Íslandi á undanförnum árum og áratugum hafa farið með fé almennings? Og hvenær ætla þessir menn að koma fram fyrir þjóðina og axla einhverja ábyrgð? Hvenær ætla þessir menn að viðurkenna afleiðingar gerða sinna gagnvart þjóðinni, gagnvart bændum sem þeir hafa leitt í fátæktargildru og gagnvart neytendum í landinu?

[15:30]

Herra forseti. Við jafnaðarmenn lýsum ábyrgð á hendur þessum aðilum og við getum að sjálfsögðu ekki lýst yfir stuðningi við þennan nýja samning frekar heldur en hinn gamla. Hvers vegna ekki? Af nákvæmlega sömu ástæðum og fyrr. Þessi samningur er, virðulegi landbrh., allt of dýr. Fjmrn. metur það svo að hann sé 1.200 millj. kr. dýrari heldur en sá gamli. Aðrir aðilar segja það vanmat og segja að það sé á bilinu 1,5--2 milljarðar sem þessi samningur muni á næstu fimm árum kosta meira en gamli samningurinn. Það er með öðrum orðum verið að bera meira fé í þennan samning.

Það er auðvelt að sýna fram á það að markmiðum þessa samnings, þ.a. aðlögun að skynsamlegum viðskiptaháttum og lausn á offramleiðsluvandanum núna hefði mátt leysa með minni fjármunum. Hvernig? Einfaldlega með því að taka hluta af þeim fjármunum, þeim 6,5 milljörðum sem varið er til þessa ráðuneytis og kerfis þess í sparnaðaraðgerðum án þess að taka á beingreiðslum til bænda, hvorki í sauðfjárrækt né mjólkurframleiðslu. Það er auðvelt að sýna fram á að það er unnt að spara í þessu kerfi upp á um það bil einn milljarð kr. án þess að það bitni á bændum eingöngu með því að gera þá kröfu að stoðdeildakerfi landbúnaðarins beri sinn hluta af byrðunum, en það eru þeir menn sem bera ábyrgð á þessu kerfi.

Í fyrsta lagi er samningurinn of dýr, en í öðru lagi höfum við enga rökstudda ástæðu til þess að ætla að hann takist nokkuð betur heldur en gamli samningurinn. Það eru með öðrum orðum ærnar ástæður til þess að ætla að þessi fjárburður endi með nákvæmlega sama hætti og allur fjárburður þessa kerfis hefur endað á undanförnum árum, þ.e. með fullkomnu árangursleysi. Og hver eru rökin fyrir því? Offramleiðslan er nú á bilinu 2.000--2.500 tonn. Þegar menn taka tillit til þeirrar staðreyndar að bændur hafa í nauðvörn sinni sem þjáningarbræður þessa kerfis orðið að grípa til heimaslátrunar í stórum stíl og farið yfir á svartan markað til þess að bjarga afkomu sinni, þá er offramleiðslan raunverulega miklu meiri heldur en hinar opinberu tölur gefa til kynna.

Í þriðja lagi er það að nefna að neyslan hefur farið síminnkandi og það er engin ástæða til þess að ætla annað en í óbreyttu kerfi muni hún minnka enn, vegna þess að þessi samningur mun ekki leiða til hagræðingar og sparnaðar sem leiðir til lækkandi verðs.

Í fjórða lagi binda þeir vonir við það að uppkaup fyrir rúmar 400 millj. muni draga úr þessari offramleiðslu. Það er rangt, m.a. vegna þess að verulegur hluti af því sem keypt verður upp er notað til endurúthlutunar til annarra á þeirri skynsamlegu hugsun út af fyrir sig að reyna að stækka bú þeirra sem á annað borð munu lifa af í greininni.

Loks er hið undarlega samsektarákvæði um verðlagningu útflutningsafurða, þ.e., ef það verður svo að bændur setja á og það verður áframhaldandi offramleiðsla, þá á að leiða alla undir sömu sök, jafnt þá sem sætta sig við kerfið og fara eftir reglum þess og hina sem ekki gera það og þannig verður afurðasala þeirra verðfelld. Bændur munu að sjálfsögðu, alveg eins og þeir hafa leitað út á svarta markaðinn, sjá við þessu og lái þeim hver sem vill. En heildarniðurstaðan er sú að það eru yfirgnæfandi líkur á því þegar upp verður staðið um miðjan þennan samning 1997--1998, að við verðum þá í sömu sporum þrátt fyrir það að hafa aukið fjárburð í kerfið.

Nú skal það sagt skilmerkilega að yfirlýst markmið samningsins, þ.e. þau að afnema kvótakerfið, hvorki meira né minna, að aftengja beingreiðslurnar framleiðslunni, gera þær óháðar framleiðslunni og ekki framleiðsluhvetjandi og að hætta opinberum afskiptum af verðlagningu eftir árið 1998, þetta er allt saman sótt í stefnuskrá Alþfl., og allt saman afar jákvætt og allt saman mjög skynsamlegt. Gallinn er bara sá að á fyrri hluta samningstímabilsins eru settir varnaglar við því að þetta gerist ekki. Kvótakerfið skal afnumið samkvæmt markmiði síðar en í millitíðinni eru sett slík skilyrði fyrir ásetningi og framleiðslurétti að það kemur ekki til framkvæmda. Beingreiðslurnar skulu að vísu ekki vera áfram framleiðslutengdar, en það er ekki fyrr en 1998 sem hið opinbera ætlar að hætta reglustikureglum sínum um verðlagningu. Í millitíðinni mun það gerast sem ég var að lýsa hér áðan þannig að þegar að því kemur að samningurinn er kominn inn á nýtt samningstímabil, þá munu menn sitja uppi með sama vandann. Og hvernig hefur þetta kerfi þá brugðist við? Nákvæmlega svona. Þá mun landbrh. þess tíma segja: Því miður, forsendurnar brugðust, samningurinn brást alveg eins og núv. hæstv. ráðherra segir um forvera sinn: Gamli samningurinn brást, forsendurnar brugðust. Og halda menn að menn muni þá við slíkar kringumstæður framfylgja ákvæðum um það að afnema kvótakerfið og að afnema verðstýringuna? Segið mér eitthvað skemmtilegra.

Þetta eru rök okkar fyrir því að við höfum enga trú á því eins og staðið er að þessum samningi og þeim málamiðlunum sem þar hafa verið gerðar, að hann skili þeim árangri sem menn eru að búast við eða gera sér væntingar um. Til þess að ná þessum árangri hefðu menn orðið að ganga hreinna til verks. Menn hefðu orðið einfaldlega að segja: Frá og með árinu 1996 er þetta kvótakerfi aflagt. Fyrir því eru öll rök. Það er ekki hægt að ætlast til þess af bændum sem framleiðendum og heldur ekki af vinnslukerfinu að þeir búi sig undir neina samkeppni nema með því að vera leystir undan miðaldaviðjum þessa ofstjórnarkerfis. Þess vegna átti að segja: Þetta kerfi á að afnema. Auðvitað á að afnema framleiðslutengingu beingreiðslnanna, en það vantar annað upp á það. Það á að taka hluta af þeim fjármunum sem varið er til stuðnings landbúnaðinum á þessum tímapunkti og segja: Við erum tilbúnir til að verja hluta af þessu fé til þess að gera samninga við bændur. Um hvað? T.d. við þá sem komnir eru á ellilífeyrisaldur, um það að þeir þurfi ekki að standa upp frá búrekstri, ævistarfi sínu, slyppir og snauðir. Eða að þeir, sem hafa verið neyddir til þess að skerða svo búrekstur sinn að þeir búa á örreitiskotum sem standa ekki undir því að framfleyta fjölskyldu, gætu komist frá því með einhvers konar starfslokasamningum og segja þá strax: Þetta skal standa yfir í tvö eða þrjú ár og við verjum þá þessum fjármunum til þess, vegna þess að ef þetta hefði verið gert, þá hefðu menn a.m.k. haft einhverja von um það að þessum peningum væri ekki eytt til einskis. Það væri raunverulega verið að laga þetta að skynsamlegum framtíðarmarkmiðum.

Herra forseti. Það er út af fyrir sig ekki ástæða til þess að orðlengja mikið meira um þetta. En hins vegar er ástæða til þess að segja fáein orð í fullri alvöru við þann meiri hluta hv. þm., a.m.k. í þremur flokkum ef ekki fleirum, sem hafa áratugum saman sammælst um að verja þetta kerfi. (Forseti hringir.) --- Já, virðulegi forseti. Það var eins gott að ræðutíma mínum er lokið. Þeir ættu kannski að geta dregið þessar ályktanir sjálfir, þeir háu herrar.