Framleiðsla og sala á búvörum

Fimmtudaginn 19. október 1995, kl. 15:40:14 (467)

1995-10-19 15:40:14# 120. lþ. 17.2 fundur 96. mál: #A framleiðsla og sala á búvörum# (sauðfjárframleiðsla) frv., landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka]

Landbúnaðarráðherra (Guðmundur Bjarnason) (andsvar):

Virðulegi forseti. Kannski var það út af ósögðu orðunum, þ.e. því sem átti að segja um framsóknarmenn a.m.k. þriggja flokka. Það var raunar komið fram í ræðu hv. þm. fyrr að það væri við þá að sakast. Það er eins og hv. þm. gleymi því að hann hefur sjálfur átt sæti í tveimur ríkisstjórnum sem hafa farið með landbúnaðarmálin án atbeina Framsfl. Framsfl. var hvorki með landbúnaðarmálin í síðustu ríkisstjórn sem hv. þm. sat í né heldur í ríkisstjórninni þar á undan. Þannig að það er nú svona og svona að tala eins og menn hafi hvergi nærri komið og eigi engan hlut að málum. Hv. þm. talar um það að fjárfesting sé í sögulegu lágmarki. Það er ekki að gerast í dag. Það var þannig, ef ég man rétt, á síðasta ári eitt af alvarlegu málunum í sambandi við ríkisfjármálin og ástandið í efnahagsmálum þjóðarinnar og þá átti þessi ágæti hv. þm. sæti í ríkisstjórninni sem hæstv. utanrrh. og síðan minnir hann okkur öðru hvoru þegar hann hefur tækifæri á fjármuni sem varið hefur verið til útflutningsuppbóta og telur að lítið hafi nýst, en gleymir því líka að geta þess hverjir voru í stjórn þegar útflutningsbótunum var komið á. Það var í tíð svokallaðrar viðreisnarstjórnar þar sem sátu saman Sjálfstfl. og Alþfl. Framsfl. átti ekki aðild að þeirri ríkisstjórn bara svona rétt til þess að hressa upp á minnið hjá hv. þm.

Hann talar um að það væri hægt að spara í kerfinu eitt þúsund millj. kr. án þess að það bitnaði á bændum, án þess að það kæmi við beingreiðslurnar. Í tillögum sem ég hygg að hann sé að vitna til sem birtust í einum fjölmiðlinum í gær, einu blaðinu sem dreift var í hólf okkar þingmanna er gert ráð fyrir því að bændur sjálfir taki þessar eitt þúsund millj. kr. að sér, það sé ekki greitt úr hinum sameiginlega sjóði okkar og kann að vera rétt, þessu megi beina til atvinnugreinarinnar, en það verður ekki gert án þess að hún borgi, það verður ekki gert án þess að það bitni á henni eða komi fram í einhverjum kostnaði þar.